Ef ég hefði sópinn mundað: Hugleiðing um raunfærnimat
Ég er menntaskóla „droppát" eins og það er stundum kallað. Fann mig ekki í skóla þrátt fyrir að mér hafi svo sem gengið ágætlega þar í sjálfu sér, var bara ekki rétt stemmdur á þessum árum fyrir skólabekk.Það á eflaust við fleiri á þessum aldri, að finna sig ekki þegar hoppað er úr skyldunáminu í framhaldsskóla, en sumir þrjóskast áfram og klára sitt nám, þó svo að ég hafi ekki gert það.
Eitt leiddi síðan af öðru. Ég ætlaði mér vissulega aftur í skóla seinna, en þið vitið hvernig þetta er, lífið er það sem gerist þegar þú ert upptekinn við að gera áætlanir.
Ég hef oft íhugað að fara aftur og læra eitthvað, hef reyndað farið í gegnum ýmis námskeið sem mætti flokka sem nám – tók meiraprófið, náði mér í vinnuvélaréttindi, skellti mér í leiðsögunám svo eitthvað sé nefnt, en það flokkast kannski ekki sem svona „alvöru" menntun, skólabekkur og allt það.
Nýverið barst mér til eyrna að eitthvað væri til sem héti raunfærnimat og hefur það verið enn meira auglýst að undanförnu en áður. Mikil áhersla virðist vera á því að ná til þeirra sem gætu haft hug til þess að „tékka" á stöðu sinni gagnvart hinum ýmsu iðngreinum, með það í huga að bæta við því sem vantar til að landa skírteini eða réttindum til að flagga á réttum stöðum við viðeigandi tækifæri.
Ég smellti því einum stuttum tölvupósti á það ágæta starfsfólk sem þessu máli sinnir hjá Iðunni, til þess að spyrja frétta af þessu máli og til að forvitnast um hvernig þetta færi fram. Tjáði mig jafnframt um hversu frábært það væri að menntastofnanir væru loks farnar að meta reynslu okkar í gegnum lífið sem menntun, það er nefnilega þannig að sá lærir sem lifir.
Ég verð að segja að svör þessa ágæta fólks ollu mér töluverðum vonbrigðum. Ég átti ekki rétt á því að fara í raunfærnimat þar sem ég hafði ekki starfað í viðkomandi iðngrein í fimm ár eða meira.
Ehhh, bíddu? Á þetta „raunfærnimat" ekki að meta raunverulega færni mína? Hvað kemur vinnan mín því við? Jú, auðvitað tileinkar maður sér reynslu og þekkingu í vinnu, en maður gerir það nú víðar en bara þar, t.d. í tómstundum og öðru starfi. En svona til að útskýra hví ég varð svona hissa þá er hér textinn í auglýsingu Iðunnar eins og hann birtist á heimasíðunni óbreyttur:
„Raunfærnimati er ætlað að meta þá færni og þekkingu sem þú hefur öðlast í starfi og frítíma. Það getur mögulega stytt skólagöngu þína"
Ég feitletraði það orð sem ég hjó sérstaklega eftir og taldi að nú væri að opnast tækifæri á því að fá kunnáttu mína metna og síðan leiðbeiningar um það hvernig ég ætti að ná í þá áfanga og þekkingu sem uppá vantaði til að ná sér í sveinspróf í ákveðnu verklegu fagi.
En skilyrðin eru skýr: Þú þarft að hafa unnið í greininni í fimm ár eða meira og geta sannað það með opinberum gögnum, t.d. lífeyrissjóðsyfirliti.
Ég hefði betur ráðið mig sem uppvaskara eða sópara hjá einhverju verkstæði þegar ég var yngri, í fimm ár. Skilað bollunum hreinum á hverjum einasta virkum degi og gólfum vel sópuðum á föstudegi. Þá hefði ég flogið inn í raunfærnimatið með akkúrat enga þekkingu á vélum og tækjum, en væri hinsvegar sérfróður um keramikbolla, strákústa og vel sópuð gólf.
Þegar ég svo skoðaði heimasíðu Iðunnar nokkrum dögum síðar var búið að breyta henni, sennilega til að losna við röflpósta frá pirruðum hobbýviðgerðarmönnum sem vildu láta meta sína færni svo að þeir gætu áttað sig á því hvaða leiðir þeir hefðu til náms í viðkomandi grein.
Í dag er efst á síðunni þessi texti:
„Getur þú staðfest 5 ára fullt starf í iðninni með opinberum gögnum, svo sem lífeyrissjóðsyfirliti? Ertu 25 ára eða eldri? Langar þig að ljúka námi í þínu fagi?"
En áður en ég sendi mína röflpósta var þessi texti efstur á sömu síðu:
„Raunfærnimati er ætlað að meta þá færni og þekkingu sem þú hefur öðlast í starfi og frítíma. Það getur mögulega stytt skólagöngu þína"
Segið svo að smá kvartanir og röfl skili aldrei neinu.
Góðar stundir.