Setningarræða formanns á aðalfundi SSA

sigrun blondal x2014Ég býð ykkur velkomin á 49. aðalfund Sambands sveitarfélaga á Austurlandi.  Við þökkum Djúpavogsbúum fyrir að taka á móti okkur.

Það hefur verið athyglisvert að fylgjast með málum á Djúpavogi síðustu ár. Þar hafa menn upplifað skin og skúrir,  þ.e. að sjávarbyggð heldur velli, íbúum fjölgar, samfélagið yngist og uppbygging á sér stað en svo í einu vetfangi breytist allt þegar stór atvinnurekandi á staðnum ákveður að flytja starfsemi sína. Djúpivogur er að mörgu leyti byggðarlag sem hefur brugðist mjög skynsamlega við byggðaþróuninni, t.d. með því að leggja mikla áherslu á umhverfismál, endurreisn gamalla húsa, áherslu á listir og skapandi framleiðslu ásamt því að hefðbundin sjósókn og vinnsla sjávarafurða hefur haldist, að nokkru leyti í breyttri mynd. Þar hefur skólastarf verið öflugt og mannlífið dafnað á þann veg að ungt fólk hefur flust til Djúpavogs og nærsveita til að takast á við ný og spennandi verkefni. 

Áfallið sem felst í því þegar stór atvinnurekandi tekur ákvörðun um að flytja starfsemina er hins vegar það víðtækt að erfitt reynist að spyrna við. Þá reynast stofnanir ríkisins, sem ættu að geta komið til aðstoðar, býsna vanmáttugar og kerfið virðist ekki vinna með byggðarlaginu. Íbúar hér hafa hins vegar sýnt að þeir eru úrræðagóðir og leysa verkefni af dugnaði og áræðni.

Í starfi okkar í stjórn SSA fjöllum við um margt sem varðar landshlutann – og gjarnan það sem tengist samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Ákall um aukið fjármagn berst alls staðar að – og auðvitað er það fyrst og fremst hlutverk kjörinna fulltrúa í hverri sveitarstjórn að forgangsraða og taka ákvarðanir um hvernig verja skuli þeim fjármunum sem við höfum milli handa. En í mörgum málum finnast mér vera blikur á lofti og ástæða til að velta fyrir sér hver þróunin er: Við vitum að búskapur er forsenda þess að byggðirnar haldist lifandi en skortur á dýralæknum vekur ugg. Það er afleitt að starfsumhverfi dýralækna sé þannig að ungt fólk fæst trauðla til starfa utan höfuðborgarsvæðisins.

Á sama hátt eru þættir eins og úrbætur í fjarskiptamálum svo brýn að ekki verður beðið lengur. Ákall fólks um betri fjarskipti koma stöðugt inn á okkar borð enda spurning um fýsileika þess að setjast aðog lífsgæðum, möguleikum á menntun, afþreyingu og uppbyggingu atvinnu utan þéttbýlis – beinlínis. Það er þess vegna sem ein málstofan á eftir er helguð fjarskiptamálum og vonandi að þar verði góð og gagnleg umræða.

Samgöngumál eru annað mál sem við fjöllum stöðugt um. Eitt er að sveitarstjórnarmenn hafa mismunandi skoðanir á leiðum  og forgangsröðun,annað er að stjórnvöld ljúki áætlunum og setji fjármagn til uppbyggingar og viðhalds samgöngumannvirkjum.

Á síðasta ári sat fyrrverandi formaður SSA í starfshópi á vegum innanríkisráðuneytisins sem kanna átti verðlagningu á innanlandsflugi. Talsverðar vonir voru bundnar við niðurstöðu hópsins en að sama skapi voru þær vonbrigði. Úr vinnu hópsins kom að hlutur ríkisins í álögum á fargjöld væru um 1400 – 1700 krónur og því lítilvægur þáttur í heildarkostnaði við flugmiða.Flugsamgöngur eru eitt grundvallaratriði í almenningssamgöngum um landið og verður aldrei of oft bent á gildi þeirra. En eins og staðan er, er verðlagning þannig að fólk veigrar sér mjög við að fljúga nema brýna nauðsyn beri til og möguleikar fólks til að skreppa til höfuðborgarinnar til að sækja þjónustu og menningu því verulega takmarkaðir. 

Þetta ræddum við m.a. í tengslum við samning um sóknaráætlun sem skrifað var undir í febrúar sl. Áhersla Austurlands hefur verið á að meta þurfi fjarlægðir inn í þeim útreikningum sem lagðir eru til grundvallar fjárframlögum. Vilji fjögurra manna fjölskylda, hjón og tvö börn, 10 og 13 ára frá Djúpavogi sækja listviðburð í Reykjavík, segjum t.d. að fara á leiksýninguna Hróa Hött – sem er sýndur í Þjóðleikhúsinu - keyrir hún fyrst í klukkutíma – ef Öxi er fær, eða tvo ef hún keyrir um firðina, tekur flug frá Egilsstöðum sem kostar 129 þúsund,þarf aðsetur í Reykjavík (ef hún getur ekki gist hjá ættingjum), og festir sér hótelíbúð sem kostar 27 þúsund (þau sluppu billega) og þá er kostnaðurinn við leiksýninguna orðinn 175.800 fyrir þau fjögur – en leikhúsmiðarnir eru 19.800 af því. Okkur hefur þótt takmarkaður skilningur á þessum aðstæðum okkar. 

SSA hefur undanfarin misseri lagt mikla áherslu á vinnu við markaðsetningu Egilsstaðaflugvallar. Fyrir tveimur árum var ráðinn verkefnisstjóri fyrir framlag úr sóknaráætlun. Árangur þessarar vinnu er nú að verða áþreifanlegur og vonir um að millilandaflug muni fara af stað innan tíðar.  Að mörgu hefur verið að huga í þessum undirbúningi og því hefur samvinna með þjónustuaðilum á svæðinu verið mikill. Það er ekki nóg að fá fulla þotu af ferðamönnum inn á svæðið; þeirra þarf að bíða eitthvað sem heldur í þá og gerir að verkum að þeir kynna það fyrir öðrum og svo koll af kolli. Ég vil nota tækifærið og þakka sérstaklega starfsmönnum Austurbrúar þeirra mikla og góða framlag við þessa undirbúningsvinnu að öðrum ólöstuðum Maríu Hjálmarsdóttur verkefnisstjóra flugvallarverkefnis og Jónu Árnýju Þórðardóttur framkvæmdastjóra Austurbrúar. Á næstu dögum verða væntanlega kynntar niðurstöðu úr vinnu starfshóps sem skipaður var af forsætisráðherra til að kanna hvernig koma mætti af stað reglulegu millilandaflugi frá Egilsstöðum og Akureyri. Vinna hópsins hefur m.a. falist í því að taka saman upplýsingar um kosti og regluverk þessu tengdu.

Undanfarið höfum við rætt við fjárlaganefnd og þingmenn um framlög til menntunar og rannsókna á AusturlandiLagðar hafa verið fram tölur og samanburður sem sýna að verulega hallar á Austurland þegar framlög til háskólanáms og rannsókna eru skoðuð. Framlög á íbúa á Austurlandi miðað við fjárveitingar í ár eru 5.200 kr. en 14.648 kr. á hvern íbúa á Vestfjörðum. Framlag á hvern íbúa í Þingeyjarsýslum er rúmlega 8.000 kr. Augljóst er af þessum tölum að bæta þarf verulega í fjárveitingar til Austurlands í þessum málaflokki. Það er afar brýnt að hægt sé að bjóða fjölbreyttara nám - í fjarnámi og lengi höfum við talað fyrir því að auka verði rannsóknir á svæðinu  - á mörgum fræðasviðum.

Verkefni SSA á næstu mánuðum eru ærin: Við fylgjum eftir verkefnum sem kostuð eru af sóknaráætlun en mikil vonbrigði eru að sjá hve lítið bætist við framlag til sóknaráætlana í þeim drögum að fjárlagafrumvarpi sem nú liggja fyrir Alþingi. Vonum við einlæglega að úr því verði bætt enda til lítils að leggja mikla vinnu í útfærslu á verkefnum sem til er úthlutað andvirði tveggja sæmilegra bíla.

Stjórn hefur farið fram á það við Velferðarráðuneytið, Landlæknisembættið og HSA að hafin verði vinnavið stefnumótun um framtíðaruppbyggingu heilbrigðisþjónustu á Austurlandi. Nauðsynlegt er að horfa til lengri tíma í þeirri uppbyggingu þar sem ýmislegt bendir til að sífellt erfiðara verði að fá lækna til starfa í dreifbýli og að sama skapi er óviðunandi að Heilbrigðisstofnun Austurlands búi við hallarekstur ár eftir ár. Íbúar á Austurlandi verða að geta treyst því að heilbrigðisþjónusta sé örugg og aðgengileg allan ársins hring. Þá höfum við óskað eftir því við Færni- og heilsumatsnefnd heilbrigðisumdæmis Austurlands að unnin verði sameiginlega úttekt á þörf fyrir hjúkrunarrými í landshlutanum. 

Umsjón með rekstri almenningssamngangna tekur talsverðan tíma og flestir hér vita líklega að SSA stendur í málaferlum við fyrirtækið Sternu sem hefur stefnt SSA og krafist bóta að upphæð 475 milljóna vegna meints taps. Á fundi fulltrúa landshlutasamtaka með starfsmönnum innanríkisráðuneytis, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Vegagerðarinnar og Strætó nýverið kom afgerandi fram sú skoðun að nýtt frumvarp til laga um fólksflutninga á landi væri ekki nægilega skýrt og afdráttarlaust þegar kemur að einkaleyfum landshlutasamtakanna. Þau haldi einfaldlega ekki ef til málareksturs kemur. Nokkur umræða hefur verið á meðal landshlutasamtakanna hvort rétt sé að halda rekstri þessa verkefnis áfram, enda ekki um að ræða lögbundin verkefni sveitarfélaganna.

Framundan eru tveir fundadagar hér á Djúpavogi. Nýbreytni er í dagskránni að því leyti að hér á eftir hefjast málstofur sem fulltrúar hafa skráð sig í. Málstofurnar tengjast allar málefnum sem mikið hafa verið rædd á vettvangi sveitarfélaganna undanfarin misseri; almenningssamgöngur, ljósleiðaravæðing, svæðisskipulag, þjónusta við fatlað fólk og umhverfismál. Í hverri málstofu verður innleiðing frá gestum og síðan taka við umræður sem síðar verða teknar saman og kynntar eftir hádegi. Eftir hádegi heyrum við ávörp gesta og síðar í dag hefjast svo nefndastörf sem lýkur 17.45 þegar við tekur óvissuferð í boði heimamanna og loks hátíðarkvöldverður þar sem m.a. verða afhent Menningarverðlaun SSA og heiðurgestur aðalfundarins kynntur.

Á morgun verða venjuleg aðalfundarstörf en að þeim loknum verður farið yfir menningarstarf á Austurlandi og þann árangur sem náðst hefur undanfarin 14 ár. Einnig verður fjallað um nýjan samning um sóknaráætlun og sóknaráætlun Austurlands. Stefnt er að því að ljúka fundi um klukkan eitt.

Ég vænti þess að við notum þessa daga til að vinna markvisst og vel og komumst að sameiginlegri niðurstöðu í ályktunum sem við sendum frá okkur að fundi loknum. Sameiginlegt markmið okkar er að nýta þau tækifæri sem bjóðast á Austurlandi til að efla landshlutann enn frekar þannig að hér sé fýsilegt fyrir fólk að búa og starfa. Við höfum svo margt að bjóða og sameiginlegt verkefni okkar er að styrkja hér innviði og standa saman að þeirri vinnu.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.