Óstjórnstöðin
Það er margsannað að ekkert sameinar menn eins og sameiginlegur óvinur og á stundum virðist hann vera það sem helst heldur ríkisstjórninni saman. Ítrekað hafa komið upp atvik þar sem einn stjórnarliðinn virðist ekki vita hvað annar er að gera og viti hann það á annað borð er allt eins víst að hann setji sig beinlínis upp á móti því. Og það þarf ekkert að vera á milli flokka.Nýjasta dæmið er Stjórnstöð ferðamála. Á fundi Sjálfstæðismanna í Fjarðabyggð spurði Ólöf Nordal innanríkisráðherra hvort þörf væri á öllum stofnunum ríkisins. Tveimur vikum síðar var hún, ásamt flokkssystur sinni Ragnheiði Elínu Árnadóttur úr iðnaðarráðuneytinu búin að koma á fót nýrri stofnun – eða ekki stofnun – heldur meira einhvers konar stjórnsýslulegum bastarði sem eðlilegt er að spyrja hvort ekki hefði verið hægt að finna stað á góðum stað í núverandi kerfi. Og blekið var ekki þornað á fína samningnum þegar formaður fjárlaganefndar sagði nýja apparatið viðsjárvert á tímum aðhalds.
Ráðherrarnir fimm sem myndaðir voru við undirskriftina hafa eflaust hugsað: „Takk fyrir ekkert."
En þetta er ekki eina dæmið. Fjármálaráðuneytið kom í veg fyrir að landfestar húsnæðisfrumvarps Eyglóar Harðardóttur væru leystar síðasta vor, sem formaður atvinnuveganefndar stóð Jón Gunnarsson í vegi fyrir makrílfrumvarpi Sigurðar Inga Jóhannssonar og flest fögur fyrirheit Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra virðast stranda á varaformanni fjárlaganefndar. Því miður mætti telja áfram.
Sjálfdæmi ráðherra – og reyndar stakra þingmanna – hefur verið ríkara hérlendis en víða annars staðar, sem þarf kannski ekki að koma á óvart í landi þar sem einstaklingshyggjan er sterk. Þótt stjórnarskráin kveði á um að þingmenn séu aðeins bundnir af samvisku sinni er það samt þannig að kjósendur velja flokka og í þeim sameinast fólk um meginstefnumál. Í lykilsæti í sínum flokki komast einstaklingar líka eftir prófkjör þar sem þeir safna um sig eigin stuðningsmönnum. Erlendis, til dæmis í Bretlandi, reiða menn sig hins vegar á flokkinn til að komast áfram og þingflokksformaður sér um að halda mönnum í takt.
Innan ríkisstjórnarinnar ætti forsætisráðuneytið að gegna þessu samhæfingarhlutverki en í ljósi dæmanna sem nefnd eru hér að ofan hljóta að vakna spurningar hversu vel það sé rækt. Sífelldur opinber árekstur milli þeirra sem eiga að teljast samherjar dregur úr trúverðugleika stjórnarinnar og þeirra frumvarpa sem hún vill leggja fram. Það er hlutverk þjálfarans að sjá til þess að liðið vinni saman en þegar menn eru farnir að tækla samherjana hitnar undir honum.