Má skálda skáld?

gunnarg april1306Stundum er sagt að allt sé leyfilegt í ástum og stríði og að síðustu virðist þetta líka eiga við um markaðssetningu. Í síðustu viku veitti upplýsingafulltrúi bókaforlags Fréttatímanum viðtal við rithöfund sem reyndist ekki til í alvörunni. Það var hins vegar hvergi tekið fram að skrifað væri undir dulnefni og blaðamaðurinn taldi sig vera í góðri trú þar til hið sanna kom í ljós og myndin, sem sögð var framsend af rithöfundinum, reyndist vera úr myndabanka.

Blaðamaðurinn fer reyndar ekki alsaklaus úr þessum leik. Að taka viðtal með að senda spurningalista í tölvupósti alfarið í gegnum upplýsingafulltrúa fyrirtækis eru letileg vinnubrögð. Einhvers staðar hefðu mögulega mátt hringja bjöllur. En þetta markast líka af starfsskilyrðum blaðamanna. Kröfur um framleiðni umfram gæði leiðir til þess að mönnum liggur á og þá er hentugt að fá svörin skrifleg.

En í grunninn snýst þetta um trúverðugleika, traust og hversu langt mönnum þykir við hæfi að ganga í að selja vöruna sína. Traust er gagnkvæmt og unnið í þrepum. Trúverðugleiki er eitt það mikilvægasta sem blaðamaður hefur. Lesendur hans þurfa að geta treyst því að það sem hann skrifi sé rétt. Og blaðamaður Fréttatímans þarf núna nokkurn tíma til að vinna sér trúverðugleika á ný.

Þetta er ekki fyrsta dæmið þar sem menn segja fjölmiðlum ósatt til að selja sig. Auglýsingastofa skáldaði fyrir nokkrum árum upp vinslit tveggja þjóðþekktra einstaklinga og kom þeim þannig í fréttirnar til að selja vöru þeirra. Fyrstu fréttinni var síðan fylgt eftir með fleiri fréttum um hvernig þeir náðu saman aftur – og þegar upplýst var um lygina þótti hún víst bara fyndin.

Þeir sem koma fram í fjölmiðlum þurfa á þeim að halda til að selja sig, vörur sínar og upplýsingar. Þegar skrifað er um þá eiga allir að græða. Þeir koma vöru sinni á framfæri, blaðamaðurinn fær gott efni sem selur blaðið hans og neytandinn fær ánægju út úr að lesa viðtalið og mögulega upplýsingar um vöru sem hann vill kynna sér nánar. Þannig geta allir unnið.

En um leið og fyrsti aðilinn í keðjunni verður uppvís að segja vísvitandi ósátt í hagnaðarskyni rofnar traustið í keðjunni. Afleiðingin gæti orðið sú að blaðamenn þurfi almennt að fara að kanna hverja einustu fullyrðingu. Það er í raun brjálað að ætla mönnum að kanna hvort viðmælandinn sé til í einföldu bókaviðtali.

Dæmið sýnir líka hversu langt menn eru tilbúnir að ganga í ókeypis markaðssetningu. Alltof margir álíta fjölmiðla tæki til að koma sínu auglýsingaefni á framfæri án greiðslu í formi fréttatilkynninga, uppfullum af lýsingarorðum og hæpnum fullyrðingum. Af áralangri reynslu getum við sagt að það er ekkert gaman að fá senda illa unna fréttatilkynningu með tilætlunarsemi um fría birtingu en sjá hana síðan keypta í næsta miðli fyrir tugi þúsunda og heitir þá auglýsing. Það eru stundirnar þar sem maður neglir höfðinu í vegginn og spyr til hvers maður sé að þessu.

Viðtali Fréttatímans verður ekki breytt og Eva Magnúsdóttir, sem aðeins örfáar manneskjur vita hver er í raun, er orðinn umtalaðasti rithöfundur landsins þrátt fyrir að vera aðeins að senda frá sér sína fyrstu bók. Sú umræða verður ekki stöðvuð og höfundurinn og forlag hans græða trúlega á því. Hins vegar er ekkert að því að setja forlagið í þagnarbindindi þar til það hefur sýnt og sannað að það bæti ráð sitt.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.