Höfuðstaður Austurlands - Egilsstaðir

Sigrun holmÍ kjölfar niðurstöðu könnunar sem Austurbrú gerði í sumar vegna áfangastaðarins Austurlands hef ég verið spurð af mörgum „Hver eru viðbrögð Þjónustusamfélagsins á Héraði við þessum niðurstöðum?". En þátttakendur í könnuninni nefna þjónustu á Egilsstöðum sem eitt hið slæma við Austurland. Það er nú minnsta mál að greina frá okkar viðbrögðum og ákvað ég að koma þeim hér niður á blað til að deila sem víðast.

Þjónustusamfélagið á Héraði var stofnað í febrúar árið 2014 eða fyrir rúmlega ári síðan. Ástæða fyrir stofnun félagsins var niðurstaða íbúafundar sem haldinn var 2012 þar sem fram kom að það vantaði samstöðu milli þjónustuaðila á svæðinu og vegna sívaxandi ferðamennsku og gesta sem heimsækja svæðið. Það þyrfti samstarfsvettvang þar sem fyrirtækin og sveitarfélögin á Héraði gætu komið saman til skrafs og ráðagerðar. Undirbúningur að félaginu stóð yfir í rúmt ár en upphaflega var settur saman hópur bæði úr atvinnulífinu og frá sveitarfélaginu sem sá um að vinna aðgerðaráætlun til eflingar ferðaþjónustu og verslunar á Héraði.

Byrjað á miðbænum

Það voru því um 2 ár sem tók að koma Þjónustusamfélaginu á Héraði af stað en allir aðilar sáttir með skrefið sem tekið var í að vinna betur að atvinnu-, ferða- og menningarmálum á Héraði. Strax í upphafi beindum við sjónum okkar að miðbænum á Egilsstöðum því hann hafði löngum verið til vandræða á háannatíma yfir sumarið og þar eru nokkrir þættir sem skipta mestu máli.

Það fyrsta er að það hefur verið erfitt fyrir rútur og stór ökutæki með aftanívagna að fá bílastæði, auk þess sem Fagradalsbrautin er með of margar inn- og útkeyrslur sem skapa öngþveiti á ákveðnum tímum. Þetta vandamál hefur verið þekkt lengi. Þjónustusamfélagið kom með tillögur að úrbótum til sveitarfélagsins og vildi að það yrði unnið strax að því að leysa þennan mikla vanda.

Þar að auki hafa verslanir ekki verið nægjanlega sveigjanlegir með opnunartíma því oft eru bílar byrjaðir að koma í bæinn um kl. 8:00 á morgnana (þá er ég sérstaklega að tala um ferjudaga), en þá er aðeins einn staður opinn. Flestir bíða eftir að staðir byrja að opna á milli 9:00 og 10:00, en það skapar ennþá meiri troðning og óreiðu. Bærinn er einnig fullur af fólki sem er að fara í ferjuna daginn eftir á miðvikudagskvöldum á sumrin. Það kemur oft seint og þá er spurning hvort það sé hægt að bæta opnunartíma. Þetta vandamál er ekkert nýtt, þótt það leggist nú á okkur af sívaxandi þunga og má geta þess að ferðamenn og heimamenn töluðu m.a. um troðning í miðbæ Egilsstaða, í fyrrnefndri könnun.

Hvað getum við gert?

Þegar kemur svona mikið fólk í okkar litla bæ á stuttu tímabili þ.e. júlí – ágúst (þá er háannatími á Héraði) þá ósjálfrátt getur myndast bið á veitingastöðum, vöruskortur verður í verslunum og þrengsli eru meðal viðskiptavina. En það var einnig meðal þess sem gestir og heimamenn töluðu um í könnuninni, sem gerð var á þessu tímabili í sumar eða júlí – ágúst 2015.

En þessa hluti verður að skoða. Hvernig getum við haft þjónustuna skilvirkari þegar við fáum stóran hóp af fólki á skömmum tíma? Hvernig má koma í veg fyrir vöruskort í verslunum? Þetta eru meðal spurninga sem Þjónustusamfélagið hefur verið að ræða innan sinna raða. Við viljum og ætlum að vera þekkt fyrir framúrskarandi og fjölbreytta þjónustu og vera öðrum bæjarfélögum til fyrirmyndar. Tek það fram að við fórum strax í samstarf við Austurbrú varðandi þjálfun og kennslu fyrir framlínufólk og settum á laggirnar ýmis námskeið á fyrsta starfsári og munum halda því áfram.

Ekki einkamál Egilsstaða

Það er ekkert einkamál að Egilsstaðir eru (m.a. vegna landfræðilegrar legu) höfuðstaður Austurlands. Hingað sækja Austfirðingar og gestir okkar ekki bara þjónustu, heldur er hér er bæði innanlands- og alþjóðaflugvöllur. Hér liggja krossgötur Austurlands og þeir sem heimsækja Austurland á annað borð, keyra hér í gegn. Það er því okkar allra sem búum á Austurlandi að vilja bænum það besta og að undirbúa hann vel undir þá flóðbylgju sem framundan er í ferðamennsku (tek það fram að ALLIR hafa hag af því).

Við viljum gera hlutina vel og taka ákvarðanir að vel skoðuðu og ígrunduðu máli í samstarfi við alla hagsmunaaðila. Egilsstaðir er upplýsingamiðstöð Austurlands, anddyri Austurlands og þjónustumiðstöð Austurlands og gegnir því mikilvægu hlutverki sem við megum ekki gera lítið úr. Vegna þessa eru líka gerðar meiri kröfur til verslunar og þjónustu á staðnum, en víða annars staðar. En til þess að ná tilætluðum árangri verðum við að fá fleiri í lið með okkur. Sem dæmi þá hafa stærstu verslanirnar/stórmarkaðirnir á Egilsstöðum ekki séð hag sinn í að styðja við bakið á félaginu eins og er og þykir okkur það miður.

Ekki fyrsta könnunin

Þjónustusamfélagið gerði sambærilega könnun og Austurbrú, í fyrra um áfangastaðinn Egilsstaði og þar kom þetta einnig skýrt fram að fólk vill breytingar á miðbænum, það vill geta komið og gert sín innkaup og fengið þá þjónustu sem það þarf án þess að festast með bílinn sinn í þvögu eða eyða löngum tíma í biðröð í verslunum og veitingahúsum.

Félagsmenn komu saman strax eftir að niðurstöður Austurbrúar voru kynntar (eins og í fyrra þegar við kynntum könnunina sem gerð var á vegum Þjónustusamfélagsins) og ræddum hana af yfirvegun. Þetta er verkefni sem er alls ekki lokið og klárast ekki á einum degi. Við vinnum áfram að okkar markmiðum og erum sátt með það sem afrekast hefur á þessum stutta tíma sem félagið hefur verið starfandi.

Á síðustu mánuðum hefur verið í undirbúningi breyting á miðbæjarskipulaginu og er Þjónustusamfélagið á Héraði með fulltrúa í þeirri vinnu. Einnig er vinna við uppbyggingu áfangastaða á Fljótsdalshéraði sem Þjónustusamfélagið tekur þátt í. Verkefnin eru því fjölmörg, ásamt því að markaðssetja svæðið og vinna að innra starfi verslunar og ferðaþjónustu í samstarfi við fjölmarga aðila.

Við þurfum þinn stuðning til að halda áfram! Hægt er að skrá sig í félagið á heimasíðu okkar www.visitegilsstadir.is

Framtíðin er björt á Egilsstöðum. Framtíðin er björt á Austurlandi.

Höfundur er formaður Þjónustusamfélagsins á Héraði

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar