Ég finn lykt af Guði

Jólin nálgast, það finnum við í öllu umhverfi okkar. Þessi hátíð sem er svo sérstök, við finnum nálægð hennar í litunum, ljósunum, ilminum, hlýjunni og síðast en ekki síst í andlitum barnanna sem kunna svo vel að taka á móti því undri sem aðventan og jólin boða. Og við hin fullorðnu minnumst bernskujóla.

Ert þú mikið jólabarn? Þetta er spurning sem oft heyrist í nálægð jóla. Og margir, jafnvel þau sem maður síst á von á, viðurkenna jólabarnið í sér. Ekki aðeins börnin heldur einnig við hin fullorðnu, karlar jafnt sem konur. Það virðist mörgum líka það vel að vera jólabarn.

En líklega eru ekki allir á sama máli um hvað það merkir að vera jólabarn og eiga erfitt að lýsa hvað felst í því orði.

Fyrir nokkrum árum var ég með fimm ára sonarsyni á fallegum sumardegi og við vorum umvafin fallegri náttúru og nýlega hafði rignt en sólin var að brjótast fram og allt ilmaði vel eftir gróðrarskúr. Friðsæld og jafnvægi yfir öllu. Lífið var ljúft, heimurinn góður, bjartur og öruggur og litli drengurinn glaður.

Þá sagði sá stutti: „Ég finn lykt af Guði."

Þetta er minnisstæð setning og í nánd jólanna kemur mér hún oft í hug. „Ég finn lykt af Guði." Barnið lýsir því vel, hvað er að finna nálægð Guðs.

Orðið varð hold. Guð varð maður. Það er boðskapur jólanna.

Það hefst með fæðingu barns í dimmu, lágu fjárhúsi í Betlehem. Valdsmenn heimsins eru nefndir til sögunnar: Kýreneus landstjóri, Ágústus keisari, en kastljósið beinist ekki að þeim stóru og miklu, heldur er vísað til hins viðkvæmasta og veikasta í kaldri og myrkri veröld. Lítið barn í fjárhúsi. Jólabarnið. Við þekkjum þá frásögn.

María og Jósef á ferð frá Nasaret til Betlehem. Vald heimsins kallaði þau úr öryggi heimahaganna, þau verða að leggja á sig langt og hættulegt ferðalag og María þunguð og komin að því að fæða barn. En í Betlehem var ekkert rúm fyrir þau, varla að nokkur tæki eftir þeim. Barnið fæðist í gripahúsi og er lagt í jötu.

Þekkjum við ekki fólk í heimi nútímans sem lifir við þannig aðstæður? Fólk á ferð, fólk á flótta.

Og það voru fjárhirðar úti í haga, menn sem voru á jaðri samfélagsins, fjarri mannabyggðum og gleði heimsins, sem gættu hjarðar sinnar í köldu næturmyrkri. Yfir þeim opnast himinn og englar syngja: „Yður er í dag frelsari fæddur."

Það er sem jólabarnið sé lagt í hendur okkar í þessari frásögn. Kyrr stund og friður. Hvar finnum við þessu barni stað í lífi okkar, umhverfi og heimi? Það er verkefni okkar, það er fegurð jólanna, að vera hvert öðru jólabarn. „Friður á jörðu, fagni þú maður." Guð finnur okkur, hann leitar og finnur og ekkert myrkur er svo dimmt að hann reyni ekki að komast inn og lýsa með ljósi sínu.

Verum jólabörn og finnum lyktina af Guði, nálægðina í kyrrð og friði og látum góðan Guð umvefja góða hátíð og líf allt með kærleik sínum.

Guð gefi okkur öllum fagnaðaríka friðarins hátíð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar