Snjóflóðavarnir fyrir ofan Neskaupstað

ingibjorg thordardottir nov15Nú styttist í enn frekari framkvæmdir við snjóflóðavarnargarða fyrir ofan Neskaupstað. Búið er að reisa mikla garða fyrir ofan innbæinn og miðbæinn en hinn nýji garður er til að verja útbæinn. Þá verður allur kaupstaðurinn kominn undir varnargarð. Flestum kann að þykja eðlilegt að ég sem bý í efsta húsi bæjarins í útbænum ætti að gleðjast yfir því að 2,5 milljörðum verði varið í að verja nágranna mína og mig og mína fjölskyldu fyrir snjóflóðum. En svo er ekki. Ég hugsa til þess með hryllingi að hið mikla rask sem átt hefur sér stað fyrir ofan stóran hluta bæjarins í mörg ár haldi áfram.

Einn helsti kostur þess að búa í Neskaupstað er nálægðin við hina óspilltu náttúru. Náttúran sem við ölumst upp í hefur tilfinningalegt gildi fyrir okkur. Ég tala gjarnan um „fjallið mitt" því þar lék ég mér sem krakki og þar léku börnin mín sér. Ég veit hvar bestu berjastaðirnir eru, ég veit hvar rjúpnakarrinn stendur uppi á steini og ropar og ég hef fylgst með náttúrulegum breytingum á fjallinu. Ég þekki þetta fjall betur en önnur fjöll og tengist því tilfinningaböndum

Gísli Marteinn fékk alla landsbyggðina á móti sér þegar hann tísti: „Hefur einhver spurt hvort þetta fólk myndi kannski bara vilja þessar 10 milljónir á mann og flytja í bæinn?". Ég er ánægð með umræðuna sem fór af stað í kjölfar tístsins hans Gísla Marteins en mér finnst galið að stinga upp á því að flytja alla Norðfirðinga til Reykjavíkur. Norðfirðingar búa í Neskaupstað af því þeir vilja búa þar, ekki af því þeir eru of blankir til að flytja til Reykjavíkur.

Gætum við mögulega bjargað „fjallinu mínu" og tryggt öryggi okkar? Ég er enginn sérfræðingur í snjóflóðavörnum en ég hef trú á að með því að stórauka vöktun í fjallinu megi auka öryggi til muna. Ef snjóhengjur myndast væri þá jafnvel hægt að fella þær áður en hengjurnar verða hættulega stórar?

Eins og fram hefur komið er það einkum ást mín á náttúrunni sem veldur því að ég set spurningarmerki við snjóflóðavarnargarða en auðvitað velti ég einnig fyrir mér þeim gríðarlegu upphæðum sem sett eru í verkefnið. Hugsum þetta vandlega áður en farið verður í óafturkræf náttúruspjöll.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar