Af litlu tísti verður oft mikið brjál
Gísla Marteini Baldurssyni tókst að fá alla landsbyggðina, og blessunarlega fleiri, upp á móti sér með færslu á Twitter þar sem hann spurði hvort ekki hefði verið nær að gefa hverjum íbúa Norðfjarðar 10 milljónir króna og flytja í borgina fremur en byggja snjóflóðavarnagarða.Ummælin hafa eiginlega fengið takmarkalausa fordæmingu. Gísli Marteinn reyndi fyrst að draga í land með því að hann hefði verið að vitna í fólks af flóðasvæðum sem hefði óskað eftir að ríkið kaupi af þeim fasteignir sínar.
Síðan hefur hann beðist afsökunar og reynt að gera sig að fórnarlambi með því að kveinka sér undan þeim sem hellt hafa úr skálum reiði sinnar yfir hann. Þeim til varnar má segja að tíst Gísla Marteins er þannig að erfitt er að svara því af stillingu.
Sennilega uppfylla ummæli Gísla Marteins skilyrðið sem Forrest Gump setti þegar hann sagði: „Heimskur er sá er heimsku fremur." Í þeim felast hroki, fáfræði og fordómar og eru þau álíka málefnaleg og skoðanakannanir Útvarps Sögu.
En það vinnst ekkert með því að svara með skætingi. Það er ekki málsstaðnum til framdráttar og þaðan af síður sannfærir það þann sem átti upphaflegu fullyrðinguna.
Spurningu Gísla Marteins verður að svara með rökum og henni verður að svara, því staðreyndin er að hann er ekki einn um að spyrja spurninga af þessu tagi, þótt hann sé meira áberandi persóna en flestir eða hirðir ekki um að fela það.
Hús er ekki heimili
Í fyrsta lagi má benda á að það er óvíst að 10 milljónirnar dugi. Munurinn á einbýlishúsi í borginni og í Neskaupstað er einar 20-30 milljónir og eykst þegar komið er í Vesturbæinn. Þótt þetta séu ekki einu garðarnir og þeir séu rándýrir eru líkur á að þeir séu ódýrari ráðstöfun.
Það má velta því fyrir sér hvort sú stefna að afhenda mönnum hlut þeirra í varnargarðinum og flytja geri ekki að verkum að verð eigna í Neskaupstað hríðfalli eða þær verði beinlínis verðlausar. Fyrir tíu milljónir fæst lítið annað en hesthús í úthverfi höfuðborgarsvæðisins.
Gísli hefur bent á að fólk á flóðasvæðum hafi óskað eftir að ríkið kaupi af þeim eignirnar. Það á sennilega frekar við um svæði þar sem eftirspurn eftir húsnæði er lítil og fasteignir fjötra fólkið niður á stað sem það óskar sér ekki að vera lengur á. Austfirski fasteignamarkaðurinn hefur virst það líflegur að það er vart dæmið á Norðfirði og trúlega auka ný Norðfjarðargöng frekar eftirspurnina.
Einhverjir vilja kannski ræða hreina hagfræði og halda tilfinningarökunum í lágmarki. Samt er það reyndin að fólk velur sér ekki endilega búsetu eftir hreinni hagfræði, ekki frekar en það velur sér maka. Tilfinningar skipta líka máli þegar málin eru rædd.
Skattpeningar af himnum ofan?
Í öðru lagi hljómar spurning Gísla eins og skattborgarar landsins fyrirfinnist vart utan Reykjavíkur. Það er ekki nýtt því yfirleitt er reynt að stimpla sérhverja stórframkvæmd utan borgarsvæðisins sem „kjördæmapot."
Sem á ekki við rök að styðjast. Háskólaprófessorar á Akureyri, með Þórodd Bjarnason í broddi fylkingar, tóku fyrir nokkrum árum saman skýrslu sem benti til þess að fjárflæðið væri akkúrat í hina áttina. Norðausturkjördæmi fái engan veginn til baka í þjónustu það sem það leggi til samfélagsins í skattfé.
Benda má á að talsverð þjónusta ríkisins sé til staðar í Neskaupstað með framhaldsskóla, sjúkrahúsi og framkvæmdum í varnargörðum og jarðgöngum. En þar er líka Síldarvinnslan, sem samkvæmt nýjum lista Keldunnar, er nr. 32 yfir veltuhæstu fyrirtæki landsins. Neðar koma fyrirtæki eins og Advania, VÍS, Samskip, WOW og Actavis. Eins er hægt að framvísa listum um tekjur íbúanna, sem eru hvað hæstar í Fjarðabyggð á landsvísu.
Skylda ríkisins
En mikilvægast er hins vegar að á svæðinu er samþykkt íbúabyggð í skipulagi staðfestu af Skipulagsstofnun og ráðherra. Ríkinu ber að leitast við að tryggja öryggi borgaranna. Í þessu tilfelli felst það í umfangsmiklum og dýrum framkvæmdum.
Sem samfélag höfum við lagst á eitt um aðgerðir til að verja íbúabyggðir fyrir ofanflóðum, eins og gert hefur verið undanfarin ár á stöðum eins og Flateyri, Siglufirði og Norðfirði.
Okkur líkar ekki alltaf forgangsröðun eða ráðstöfun skattpeninga okkar. Það er hins vegar hluti af því að búa í lýðræðislegu samfélagi að sætta sig annað slagið við það að peningum sé ráðstafað í þágu annarra en okkar sjálfra gegn því að þeim sé þannig búið betra líf.
Jafnframt að við sýnum hvert öðru og mannlegri reisn meiri virðingu en svo að henda í suma ölmusu í þeirri von að við þurfum ekki að hugsa til þeirra framar.