Hugleiðingar um byggðamál í kjölfar tísts
Það er þessi gjá á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Það er misjafnt í hverju hún speglast hverju sinni en einhverra hluta vegna virðast kaffihúsaferðir og hjólreiðar vera ásteytingarsteinn.Ég hef nú alltaf átt frekar auðvelt með að stíga yfir gjána, kannski af því að ég kalla bæði Reykjavík og Austurland heima. Sem getur verið ruglandi, því ég er alltaf á leiðinni heim. Svo er ég mikil áhugamanneskja um kaffihúsaferðir en fæ mér samt yfirleitt uppáhellt, með mikilli mjólk. Ég á líka hjól og hef jafnan háleit markmið um hvað ég ætli að nota það mikið sem ferðamáta, úr því hefur samt leiðinlega lítið ræst.
Gjáin galopnaðist síðan um helgina og ég datt ofan í hana. Tíst Gísla Marteins Baldurssonar olli miklum jarðhræringum með tilheyrandi skjálftum og skildi eftir breiðari gjá. Því miður. Tístið fór fyrir brjóstið á mér eins og mörgum öðrum. Mér leiddist engu að síður hversu mikið umræðan fór í að ræða persónu Gísla Marteins, kaffidrykkju, póstnúmer og hjálmanotkun. Það skiptir ekki máli hvernig við Gísli viljum kaffið okkar eða hvort við notum hjólin okkar.
Mér leiðast líka þau rök að opinber fjárútlát til framkvæmda í Fjarðabyggð séu réttlætanleg af því að þar verði til svo miklar tekjur. Auðvitað er gott að við séum meðvituð um að fjárútlát út um landið séu ekki ölmusa frá Reykjavík en það hvar tekjurnar verða til á ekki að ráða því hvar þeim er ráðstafað. Ef svo væri þá myndum við bjóða þeim sem borga hærri skatta vegna hærri tekna betri heilbrigðisþjónustu. Opinber fjárlútlát eiga að fara í framkvæmdir og þjónustu þar sem þörfin er.
Tekjur í ríkissjóð verða til útum allt land og við höfum nú þegar fjárfest í innviðum hringinn í kringum landið. Þess vegna er auðvitað gáfulegast að byggð haldist útum allt land, sterk höfuðborg og sterk landsbyggð. Sameinaðir stöndum vér. Ég trúi því að um þetta séu í raun allir sammála. Við þurfum bara einhvern vegin að reyna að brúa bilið í umræðunni og hætta að kalla annað fólk lattelepjandi hálfvita.
Þarf að bjarga okkur til Reykjavíkur?
Viðbrögð margra sem tóku ummæli Gísla óstinnt upp urðu til þess að tíst var mikið um að það mætti bara ekki ræða byggðamál án þess að „út-á-landi-liðið" tapaði sér alveg. Hvílík takmörkun á tjáningarfrelsinu og allt það. En það er auðvitað snilld að fá tækifæri til að ræða byggðamál. Ef við hefðum ekki rætt þau á Twitter um helgina þá hefði mér ekki gefist tækifæri til að leiðrétta það að utan höfðaborgarinnar biði fólk á milli vonar og ótta eftir að einhver bjargaði þeim úr vosbúðinni, til Reykjavíkur. Í umræðunni afhjúpaðist nefnilega viðhorf sem mig grunaði ekki að væri svona útbreytt. Það virðist vera algengur misskilningur að fólk búi eingöngu úti á landi vegna einhverskonar alvarlegra átthagafjötra og komist ekki í burtu.
Þetta er auðvitað alrangt. Ég hef ekki komist í að spyrja alla Norðfirðinga persónulega en fullyrði að hverfandi minnihluti þeirra sem þar búa hafi áhuga á að flytja þaðan. Ef svo væri myndu þau bara gera það, búseta er val á Íslandi. Atvinnustig á Norðfirði er líka með besta móti og þar hefur íbúum fjölgað stöðugt frá 2011.
Er byggðastefna gamaldags?
Svo virðist sem allt sem nefnist byggðastefna eða aðgerðir í byggðamálum birtist sumum sem einhverskonar gamaldags framsóknarleg forræðishyggja og í henni hljóti að felast ósanngjarnt kjördæmapot. Það þarf alls ekki að vera svoleiðis en ástæðan fyrir þessu viðhorfi er kannski að aðgerðirnar sem gripið er til eru oft á tíðum gamaldags.
Að rífa upp stofnun með rótum á höfuðborgarsvæðinu og gróðursetja á Akureyri eða byggja fleiri ríkisstyrkt álver er ekki lausnin. Við þurfum að fara að horfa á byggðamál sem jafnréttismál. Jafnt aðgengi að þjónustu. Samgöngur og fjarskipti skipta okkur máli. Reykjavík er og verður kjarni, hún er höfuðborg og það er lykill að lífsgæðum út um landið að geta átt greið samskipti þangað.
Ég vil meina að þörf sé á heilsteyptari byggðastefnu svo aðgerðir í byggðamálum verði síður fálmkennd fjárútlát og tilviljanakenndir flutningar opinberra stofnana. Við þurfum skýr markmið og skýrar leiðir að þeim. Er markmiðið að halda öllum þeim þorpum sem voru í byggð um síðustu aldamót í byggð um ókomna tíð? Eða er markmiðið að styrkja nokkur vaxtarsvæði hringinn í kringum landið og búa til sterka kjarna?
Tækifærin í fjallagrösunum og máttur bjartsýninnar
Vinir mínir og menntaskólafélagar að austan tala mikið um að flytja austur. Við erum vel menntuð kynslóð, fólk á þrítugsaldri sem er að ljúka formlegri menntun og vill leita leiða til að flytja aftur heim fyrr eða síðar. Við erum bjartsýn á að geta nýtt okkar menntun og tækifærin sem liggja í heimabyggð okkar.
Ég tel að það sé hægt að tala möguleika og tækifæri byggðalaga niður og upp. Alveg eins og það er víst hægt að tala gengi gjaldmiðla og hlutabréfa upp og niður. Þegar álvers- og virkjanaframkvæmdir hófust á Austurlandi með tilheyrandi uppsveiflu held ég að uppsveiflan hafi ekki einungis haft með álverið og virkjunina sjálfa að gera. Áhugi ungs fólks á því að flytjast austur jókst einfaldlega vegna þeirrar bjartsýni sem framkvæmdunum fylgdi.
Fram að því hafði Austurland líka verið talað niður um nokkurt skeið, það var náttúrulega hluti af pólitíkinni til að fá álver að fullyrða að tækifærin væru engin án þess. Fjallagrös og hundasúrur. Mikið lifandis ósköp held ég að það felist mörg tækifæri í fjallagrösum og hundasúrum og öllu hinu „einhverju öðru" sem hlegið var að fólki fyrir að nefna.
Það má ekki láta neikvæða umræðu um landsbyggðina verða ráðandi, þegar ummæli sem kalla á rökræðu eru sett fram verður að svara með rökum og jákvæðu viðhorfi. Ef einu svörin sem við eigum gegn neikvæðni eru persónuárásir þá lítur ekki útfyrir að málstaðurinn sé góður. Við vitum alveg hvað er að frétta, við vitum um tækifærin og við vitum að ástæðan fyrir búsetuvali okkar er ekki að við séum hlekkjuð niður og komumst ekki burt.