Ég er sek
Átakið #lítumupp hefur fangað huga minn síðustu daga, en þar opnaði 19 ára menntskælingur umræðuna um yfirgengilega netnotkun almennings.Sjálf lýsti hún sér sem neyslufíkli samfélagsmiðla. Velti einnig fyrir sér orðinu „Social Media" (samfélagsmiðlar) og sagði nær að nefna þá „Anti Social Media" því fyrirbærið væri alger andstaða hugtaksins „social" (félagslegur).
Það hvarflar ekki að mér að tala á móti netmiðlum eða standa með heykvísl út í vegkanti eins og steinaldarmaður og orga að „netið sé bara bóla" eða óþarfi. Sjálf er ég neytandi og það vita flestir að netheimurinn er orðinn stór hluti af okkar tilveru og er að mestu jákvæð bylting.
Vinnudagurinn minn, sem og ansi margra, fer að mestu fram gegnum internetið. Ég hef til dæmis komist að því að ef ég vil ná í fólk fljótt og örugglega, þá er Facebook besta leiðin, mun vænlegri til árangurs en sími eða tölvupóstur.
Ég hef þó í flækju minni við samfélagsmiðlana reynt að vera meðvituð um mína eigin netnotkun í mínum frítíma. Hvað er ég að gera þarna, í hvað er ég að eyða tíma mínum og hve miklum?
Snjallsímafíkn hefur nú verið skilgreind en það er þegar fólk skoðar símann 60 sinnum eða oftar á dag. Rannsóknir sýna hinsvegar að fólk skoðar símann sinn allt að 150 sinnum á dag og að meðalnotkunin er um þrjár og hálf klukkustund. Miðað við þetta fara tæplega tveir mánuðir á ári í stanslausa símanotkun.
Þá má benda á að foreldri sem ver þeim tíma í símanum eyðir því sem samsvarar einu ári af fyrstu sex árum barnsins síns við þá iðju. Já, ég veit – þetta er hræðilegt! Gersamlega.
Snjallsímar ógna fjölskyldulífi, ég held við getum öll verið sammála um það þegar dæmið er sett svona upp.
Ég hef oft lent í rökræðum um þetta við fólk í kringum mig. Fullyrðingar á borð við „þetta er bara mín kynslóð" og „ég verð nú bara að fylgjast með fréttum og því sem vinir mínir eru að gera," finnast mér bara ble.
Þrátt fyrir að vera af „snjallsímakynslóðinni" finnst mér það ekki gefa mér rétt á því að stimpla mig út á tíu mínútna fresti, hvar og hvenær sem er.
Ég fór út að borða á dögunum. Sat í beinni sjónlínu við ungt par og komst bara ekki hjá því að fylgjast með þeim. Mikið var að gera á staðnum og um klukkustundarbið eftir matnum. Allan tímann meðan þau biðu sátu þau hvort í sínum símanum. Eftir að þau voru komin með sushi-diskinn fyrir framan sig voru þau í símanum. Á leiðinni út voru þau í símanum.
Hvernig viljum við hafa þetta? Viljum við eiga innihaldsrík og góð samskipti við fjölskyldu okkar og vini sem skapa góðar minningar eða svona með hangandi hendi og hálfri athygli? Hvernig fyrirmyndir viljum við vera? Eru þetta skilaboðin sem við viljum senda til barnanna okkar? Skiptir okkur meira máli að læka í hvert einasta skipti sem vinur okkar í netheimum fer á klósettið heldur en að vera til staðar fyrir fólkið í kringum okkur?
Væri ekki bara svolítið næs að setja okkur það núna á komandi aðventu að vera til staðar fyrir fólkið okkar hér og nú? Sleppa því að vera á staðnum af hálfum hug. Sýna börnum okkar, fjölskyldu og vinum þá virðingu að gefa þeim óskipta athygli meðan við erum í kringum þau. Ég hvet ykkur til þess að prófa og get lofað því að það gefur ykkur meira en að skrolla yfir fréttamiðla og Facebook í fertugasta skipti í dag.
P.s. Að skrifa skilaboð eða kíkja á netmiðla undir stýri er eins og að aka með augun lokuð í fimm sekúndur í senn. Ég myndi ekki vilja að börnin mín væru í þeim bíl, eða mæta einum slíkum. En þú?