Rjúfum vetrareinangrun Seyðisfjarðar

Fyrir 10 árum voru Austfirðingar nokkuð sammála um að næsti áfangi í veggangamálum fjórðungsins væru Samgöng, fern göng milli Eskifjarðar, Norðfjarðar, Mjóafjarðar, Seyðisfjarðar og Héraðs. Heilborun við Kárahnjúka gaf fyrirheit um að hægt væri að bora þessi göng í einum áfanga með verulega lægri kostnaði en með gömlu sprengiaðferðinni. Sparnaðurinn gæti orðið allt að 40%. Með Samgöngum yrði Mið-Austurland eitt atvinnu- og þjónustusvæði, eitt samfélag með 8 – 10 þús. íbúa.

Fjarðarbyggðarmenn vildu auðvitað byrja á Norðfjarðargöngum en Seyðfirðingar og Héraðsmenn á Fjarðarheiðargöngum. Þessi skoðanamunur skipti þó litlu því hægt væri að ljúka allri framkvæmdinni á 4 – 5 árum með heilbor. Ríkisvaldið ákvað svo að næstu göng skyldu verða sprengd Norðfjarðargöng. Austfirðingar lýstu því þá yfir að þeir litu á þetta sem fyrsta áfanga Samganga.

Valkostir í umræðu

Seyðfirðingar hafa barist fyrir veggöngum í 50 ár. Síðustu 30 árin hafa þeir gert sér vonir um að röðin væri að koma að þeim og ríkisvaldið hefur margoft gefið fyrirheit um að „þarnæstu" göng verði til Seyðisfjarðar. Tveir kostir eru í umræðunni, annars vegar göng undir Fjarðarheiði til Héraðs og hins vegar strandtenging um Mjóafjörð að Norðfjarðargöngum. Báðir kostir eru góðir.

Fjarðarheiðargöng tryggja vetrarsamgöngur við Hérað, tryggja og aðgang að þjónustu, flugi og menntaskólanum og vetrarflutninga þegar fært er til Egilsstaða. Auk þess auðvelda göngin atvinnuskipti milli Seyðisfjarðar og Héraðs og þegar fært er um Fagradal til Farðabyggðar. Með göngunum styttist leiðin um 4 – 6 km og leiðin til Egilsstaða og til Reyðarfjarðar um 4– 10 km. Meiri stytting fæst ef göngin enda við Eyvindardalsá.

Strandleiðin opnar hins vegar algerlega nýja samgönguæð við byggðir Mið-Austurlands og göngin munu rjúfa vetrareinangrun bæði Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar til suðurs og til Héraðs þegar fært er um Fagradal. Auk þess að tryggja vetrarsamgöngur þá munu vegalengdir til Fjarðarbyggðar og strandleiðina Suður styttast verulega. Vetraraðgangur mun opnast að sjúkrahúsinu og Verkmenntaskólanum á Neskaupstað, að útflutningshöfninni á Reyðarfirði, álverinu og þjónustu í allri Fjarðabyggð. Álíka langt verður t.d. í álverið frá Neskaupstað og frá Seyðisfirði. Þá opnast greiðfær leið milli sameiginlegrar útgerðar, fiskvinnslu og bræðslu. Nú starfa um 25 Seyðfirðingar í Fjarðarbyggð og nokkrir starfa þar hluta úr ári


Strandleið, stytting vegalengda í km
   
 
Áður

Eftir

Stytting

Seyðisfjörður
- Neskaupsstaður

97

31

66

Seyðisfjörður
- Eskifjörður

74

27

47

Seyðisfjörður
- Álver

67

35

32

Seyðisfjörður
- Eskifjörður

67

28

39

Neskaupsstaður
- Egilsstaðir

72

48

24

Eskifjörður
- Egilsstaðir

49

44

5


Með strandleiðinni opnast líka hringleið um Mið-Austurland sem mun verða vinsæl af ferðamönnum og sem mun styrkja Seyðisfjörð sem miðstöð skemmtiferðaskipa í fjórðungnum. Þá mun styttingin suður og nálægðin við útflutningshöfnina og fiskiðnað strandbyggðanna styrkja ferjuflutningana. Göngin opna í raun nýjar víddir fyrir samfélagið á Seyðisfirði. Áfram verður svo greiðfær leið 10 mánuði á ári um Fjarðarheiði til Héraðs og þegar heiðin er lokuð verður oftast hægt að fara um Fagradal þó svo leiðin lengist um 45 km.

Samstaða

Bæjarstjórn Seyðisfjarðar berst nú af öllum mætti fyrir Fjarðarheiðargöngum og leggur mikla áherslu á að samstaða sé meðal bæjarbúa. Skilaboðin eru að ef Seyðfirðingar standi ekki saman sem einn maður um þá leið þá séu þeir að vinna gegn því að göng verði boruð til byggðarlagsins. Hart er gengið fram og menn teknir eintali séu þeir opinberlega þeirrar skoðunar að strandleiðin sé betri kostur.

Ég er þessu algerlega ósammála og því fer víðs fjarri að allir Seyðfirðingar séu sammála stefnu bæjarstjórnar. Ef umræða væri opin og skoðanamyndun frjáls efast ég um að Fjarðarheiðin hefði meira fylgi. Og þó svo Seyðfirðingar væru sammála um Fjarðarheiðar valkostinn þá er ekki þar með sagt að einhugur ríki í fjórðungnum. Fjarðarbyggðarmenn vilja ólmir að byrjað verði á strandtengingunni. Þeir hafa mikilla hagsmuna að gæta. Þeim er í mun að rjúfa vetrareinangrun Mjóafjarðar sem er hluti sveitarfélagsins. Þá vilja þeir bæta samgöngur alls fjórðungsins við sjúkrahúsið og þeir vilja stytta vegalengdir milli Eskifjarðar og Norðfjarðar annars vegar og Seyðisfjarðar og Héraðs hins vegar. Ég er líka viss um að strandleiðin myndi efla Egilsstaði sem þjónustumiðstöð fyrir allt Mið-Austurland.

En þó Austfirðingar séu ósammála um hvert skuli borað fyrst frá Seyðisfirði þá eru þeir nánast allir sammála um að næsta verkefni í veggangagerð eigi að vera að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar. Umræðan á Seyðisfirði á því ekki að vera um það hvort bora eigi undir Fjarðarheiði eða ekki heldur um það hvora leiðina á að fara við að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar. Þannig næst víðtæk samstaða í málinu í héraði og vænlegri leið að hjarta þjóðarinnar.

Ég hef tengst veggangaumræðu á Austurlandi í 30 ár. Sem sveitarstjóri á Fáskrúðsfirði barðist ég fyrir Fáskrúðsfjarðargöngum og í stjórn og samgöngunefnd SSA fyrir veggöngum á Austurlandi. Ég veit vel að mörgum landsmönnum og þá ekki síst embættis- og stjórnmálamönnum finnst Fjarðarheiðargöng dýr biti þó svo allir sjái þarfir Seyðfirðinga. Göngin verða 13 km löng, næst lengstu veggöng í Evrópu. Kostnaður við hvern km. er líka meiri eftir því sem göngin eru lengri ef notuð er sprengiaðferðin, uppáhalds aðferð Vegagerðarinnar. Áætlaður kostnaður er 22 milljarðar króna. Strandleiðin verður hins vegar 6 – 8 milljörðum ódýrari. Það er álíka upphæð og samanlagðar skuldir allra sveitarfélaga á Austurlandi.
Sumir Seyðfirðingar halda því fram að þegar Fjarðarheiðargöng verða í höfn þá sé hægt að halda áfram baráttunni fyrir Samgöngum og að í framhaldinu verði Strandleiðin boruð. Það tel ég mjög ólíklegt.

Þriðji valkosturinn

Ég hef alltaf verið sannfærður um að besti kosturinn við tengingu strandbyggðanna við Hérað væri um Fjarðarheiði. Hugmynd um stutt göng úr Mjóafirði upp á Slenjudal er óraunhæf, munninn í Slenjudal yrði í of mikilli hæð og snjóþyngslum.

Nú var hins vegar verið að kynna fyrir mér hugmynd um 9 km löng göng milli Mjóafjarðar og Eyvindardals neðarlega á Fagradalsleið. Mér segja fróðir að þaðan sé snjólétt og greiðfær leið til Egilsstaða. Ef í stað Fjarðarheiðarganga yrðu boruð 5 km göng í Mjóafjörð og þaðan í Eyvindardal þá væri kominn kostur sem leysti bæði vetrareinangrun Seyðisfjarðar og Mjóafjarðar. Þessi kostur yrði ódýrari en Fjarðarheiðargöng. Með þessum göngum styttist leiðin milli Seyðisfjarðar og Reyðarfjarðar um 16 -17 km en lengist milli Seyðisfjarðar og Egilsstaða um 2 – 3 km. Áfram er auðvitað opið megnið af árinu um Fjarðarheiði. Ef þessi leið yrði farin þá ætti einungis eftir að bora 6,4 km göng frá Mjóafirði í Fannardal til að tengja Seyðisfjörð við Fjarðarbyggð og til að ljúka heilsárs tengingu alls Mið-Austurlands.

Vegalengd frá fjörðum til EgilsstaðaNúverandi vegurMjóafjarðarheiði - göngFjarðarheiði - göng
Reyðarfjörður 33 56 54
Eskifjörður 49 44 43
Norðfjörður 72 48 47
Seyðisfjörður 28 36 22
Tafla: Efla

Ég tel líklegt að þessi valkostur fengi víðtækan stuðning í fjórðungnum enda tryggir hann nánast að lokið verði við strandtenginguna við Norðfjarðargöng í beinu framhaldi. Hún styttir líka veggangatengingu Fjarðarbyggðar og Héraðs um nokkra km. miðað við að fara undir Fjarðarheiði og yrði 6 – 8 milljörðum ódýrari. Að auki eru 9 km göng mun líklegri til að ná eyrum stjórnvalda heldur en 13,5 km göng. Þá er samstaða Seyðisfjarðar, Fjarðarbyggðar og Héraðs um valkost að mínu mati forsenda þess að nokkur árangur náist í náinni framtíð.

Það eru sem sagt fleiri en ein leið til að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar. Sú leið sem sveitarfélög á Mið-Austurlandi sameinast sameinast um mun ná eyrum stjórnvalda. Ég legg því til að sveitarstjórnir Seyðisfjarðar, Héraðs og Fjarðarbyggðar fundi um málefnið og leggi í framhaldinu fram sameiginlega tillögu.

Höfundur býr á Seyðisfirði

Kort: Efla fyrir Vegagerðina af Samgöngum með hugsanlegri tengingu fjarða og Héraðs um Mjóafjörð.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar