Menntun og erlent starfsfólk í ferðaþjónustu

Ferðaþjónustan hefur heldur betur hjálpað okkur að rétta úr kútnum eftir hrunið 2008. En ýmis vaxtarverkir fylgja 20-30% fjölgun gesta milli ára. Jafnvel hér á Austurlandi sjáum við orðið ferðamenn allt árið um kring sem krefst þess að við höfum opna þjónustu lengur en aðeins yfir sumarmánuðina.

Ýmissa úrbóta er þörf eins og komið hefur fram í umræðunni síðustu misseri og nú er kominn Vegvísir í ferðaþjónustu og sérstök stjórnstöð ferðamála hefur verið sett á stofn til að fá alla hlutaðeigandi til að vinna saman í að bæta íslenska ferðaþjónustu. Vonandi gengur það eftir.

Við erum yfirleitt upptekin af samgöngum, merkingum og salernisþörf þegar innviðina bera á góma í kaffispjalli. En einn mikilvægasti þátturinn sem oft vill gleymast er að til að taka á móti gestum þurfum við starfsfólk.

Ferðaþjónusta á Austurlandi fremur en annars staðar getur ekki lengur stólað á íslenskt skólafólk heldur er þörfin fyrir starfsfólk yfir vor, haust og vetur orðin meiri en svo.

Og við þurfum menntað starfsfólk. Það er mýgrútur til af útskrifuðum ferðamálafræðingum en mun færri útskrifast í faggreinum í veitingageiranum, leiðsögn eða öðrum þjónustugreinum. Í umræddum Vegvísi er nefnt að koma verði á fót styttri námsbrautum til að mennta fleira fólk í þjónustustörfum.

Það er brýnt verkefni en á sama tíma er skorið niður í framlögum til framhaldsskóla og ekkert stutt við fjarnám á þeirra vegum. Vonandi tekst stjórnstöð ferðamála að fá menntamálaráðuneytið til að breyta sínum fjárveitingum til að opna þennan möguleika. Þá getum við dustað rykið af ferðaþjónustubrautinni sem eitt sinn var búin til í ME.

En eigum við fólk til að mennta sig í þjónustu og til að vinna öll þessi störf? Við virðumst stundum gleyma því að á Íslandi er ekki nema 3-4% atvinnuleysi og til að halda úti heilsársþjónustu á hótelum, veitingastöðum og annars staðar þar sem ferðamenn koma þurfum við því að leita annað. Við þurfum að sjálfsögðu að mennta fleiri Íslendinga í störfum ferðaþjónustunnar en við munum einnig þurfa að stóla á erlent vinnuafl.

Ástæðan fyrir því að ég drap niður fingrum á lyklaborðið tengist þessu. Það virðist lenska hérlendis að tala niður til allra erlendra starfsmanna sem hingað koma og hjálpa okkur við að reka samfélagið, hvort heldur er innan ferðaþjónustu eða annarra atvinnugreina. Jafnvel alþingismenn láta út úr sér ummæli um að í ferðaþjónustunni starfi jafnvel kauplausir sjálfboðaliðar, ævintýragjarnir unglingar utan úr heimi.

Staðreyndin er hins vegar sú að víða í ferðaþjónustunni er að finna erlent starfsfólk sem er fagmenntað eða með bæði reynslu og nám að baki í þjónustustörfum. Þetta starfsfólk mætir hins vegar oft lítilsvirðingu hjá okkur Íslendingum fyrir að geta ekki talað íslensku eða yfirhöfuð vera af erlendu þjóðerni.

Ég hef heyrt af góðu starfsfólki sem jafnvel í fámenninu hér austan lands verður fyrir slíku aðkasti oft í viku, jafnvel á hverjum degi. Og góðir starfsmenn sem þurfa að þola að viðskiptavinirnir geri lítið úr þeim eða hreyti í þá ónotum dag eftir dag, þeir endast ekki lengi og við missum þá frá okkur. Ekki bætum við þjónustuna með því.

Nú þegar framundan er beint flug á Egilsstaði og viðvarandi vöxtur í þessari atvinnugrein verðum við að breyta þessu viðhorfi. Hvar væri fiskvinnsla á Íslandi ef ekki hefðu komið til erlent starfsfólk? Sama er með ferðaþjónustuna, við erum ekki nógu mörg til að taka móti öllum sem vilja heimsækja okkar.

Við þurfum hjálp frá fólki sem er reiðubúið að koma og starfa í okkar norðlæga landi við að taka á móti okkar gestum. Þeir starfsmenn eru okkur jafnmikilvægir og íslenskir starfsmenn. Við eigum að sýna þeim virðingu og hætta að tala niður til erlends vinnuafls, hvort heldur er á Alþingi eða þegar við förum út að borða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar