Það kólnar líka í Kanada

„Landið heitir Ísland en þar er ekki kalt. Ég kem frá Ottawa og þar vorum við stundum með snjóinn upp í mitti,“ sagði Alice Olivia Clarke frá Kanada í #viðöll jóladagatalinu á sunnudagskvöld. Sama dag gekk um netið samanburður Kvennablaðsins á íslensku og kanadísku ráðherrunum.

Ég vil helst ekki nota orð mín og þennan vettvang til að gagnrýna starfssystkini mín í fjölmiðlastétt. Annars vegar óttast ég hefndir í minn garð þegar ég misrita eitthvað (hefur gerst, gerist og mun gerast). Hins vegar eykur það ekki traust til íslenskra fjölmiðla, sem virðast vera meðal þeirra stofnana sem Íslendingar bera minnst traust til, að níða aðra.

Í samanburði Kvennablaðsins undir yfirskriftinni „Það er grænna grasið í Kanada“ eru bornir saman lykilþættir úr nýrri ríkisstjórn Frjálslynda flokksins í Kanada og samsteypustjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks.  Einkum er litið til menntunar ráðherra, eða réttara sagt litið til menntunar ráðherra í Kanada en framhjá menntun íslensku ráðherranna. 

Ritstjórnargreinar unnar af hlutdrægni og fúski bæta ekki ímynd fjölmiðla. Í raun ætti framsetning greinarinnar að dæma sig sjálf en því miður varð ég bit yfir vel gefnu fólki sem tók greininni sem sannleik og deildi gagnrýnislaust.

Íslandi til varnar er hægt að benda á að þjóð sem telur rúmar 35 milljónir manna á að eiga auðveldara með að finna sér sérhæft fólk heldur en sú sem hefur 330 þúsund. Stóra þjóðin þarf hins vegar að fylla fleiri ráðherrastóla, þó ekki það marga að það skekki hlutfallið verulega.

Líkindi forsætisráðherra

Kvennablaðið vísar í Facebook færslu kanadísks lausapenna og Wikipediu sem heimildir. Strax í þriðju setningu klúðrar þýðandi blaðsins og fullyrðir að hinn nýi forsætisráðherra Kanada, Justin Trudeau, sé með þrjár háskólagráður: í bókmenntum, verkfræði og umhverfislandafræði. Að auki mun hann hafa áhuga á vísindaskáldsögum.

Í fyrsta lagi er erfitt að sjá hvernig nokkur þessara háskólagráða eða áhugamálið nýtist forsætisráðherra sérstaklega þótt fjölbreytt reynsla eigi alltaf að vera kostur. Vandamálið er hins vegar að Trudeau hefur ekkert lokið umhverfislandafræðinni. Hann stundaði þó nám í henni á meistarastigi.

Neðar er íslenski forsætisráðherrann sagður hafa logið því að hann væri með doktorsgráðu frá Oxford. Vissulega hefur menntun Sigmundar Davíðs verið á reiki en bestu upplýsingar eru að hann hafi verið í framhaldsnámi í Oxford, sama skóla og nokkrir ráðherrar kanadísku stjórnarinnar gengu í, í ein fimm ár. Inntökuskilyrði í skólann eru ströng sem gefa til kynna að Sigmundur Davíð hafi fengið ágætis einkunn þegar hann útskrifaðist með BA-próf frá viðskipta- og hagfræðideild Háskóla Íslands með fjölmiðlafræði sem aukagrein. Hann er einnig liðtækur listmálari.

Þetta skilur hins vegar eftir að forsætisráðherrarnir eru álíka menntaðir, báðir með háskólagráður á grunnstigi en óloknar framhaldsgráður. Það mun einnig vera sama menntun og ég er með. Ég vil líka nota tækifærið til að vekja athygli á áhuga mínum á Star Trek og Dr. Who. Ég býð mig samt ekki fram til að stjórna þjóðinni.

Spilað á óbó úr ráðherrastólnum

Miðað við kanadíska fjölmiðla, heimasíðu Frjálslynda flokksins og Wikipediu virðast aðrar fullyrðingar um kanadísku ráðherrana halda, enda beinþýddar upp úr kanadísku Facebook-færslunni. Þar gefur að líta innflytjendur, frumbyggja, mannréttindafrömuði, Nóbelsverðlaunahafa, geimfara og slatta af lögfræðingum með gráður frá fínum og dýrum háskólum. Þeir hafa flestir þjónað nærsamfélagi sínu dyggilega, ýmist í gegnum atvinnulíf, stjórnmála-, félags-, eða fræðastörf og jafnvel verið verðlaunaðir.

En þrátt fyrir allan mannauðinn virðast ekki allir menntaðir beint í starfið, frekar en hérlendis. Ráðherra skattamála er til dæmis félagsráðgjafi, ráðherra atvinnumála er jarðfræðingur, ráðherra innkaupamála er með gráðu í kennslu og blaðamennsku, ráðherra alþjóðaviðskipta með próf í rússneskri sögu og bókmenntum og framhaldspróf í slavneskum fræðum, ráðherra náttúruauðlinda var áður óbóleikari en náði sér í kennararéttindi í gegnum endurmenntun, innanríkisráðherrann virðist aðeins vera með stúdentspróf og sá sem fer með málefni smáfyrirtækja og ferðamála er með próf í vísindum.

Þannig er líka gaman að segja frá John McCallum sem fer með málefni innflytjenda og flóttamanna. Hann er doktor í hagfræði og fyrrum varnarmálaráðherra. Sem slíkur gerði hann sig sekan um að þekkja ekki til helstu hernaðarafreka Kanadamanna. Eins komst hann í fréttirnar fyrir að vera hleypt um borð í vél Air Canada þrátt fyrir að vera angandi af áfengi.

Annað smáatriði í þýðingu er þegar Kvennablaðið þýðir „veterans" sem sá sem sér um málefni hermanna og tengd hernum. „Veterans" eru fyrrum hermenn og viðkomandi er aðstoðarvarnarmálaráðherra. Hann er hins vegar vissulega lamaður nánast frá öxl og niður og hefur afrekað margt stórkostlegt á ævinni.

Ekki má heldur gleyma ráðherranum Dominic Leblanc sem passaði Trudeau þegar forsætisráðherrann nýi var barn.

Það skal hins vegar sagt að nær allir þessir einstaklingar hafa afrekað eitthvað annað í lífinu en nám eða bara pólitík. Námið gerir þig samt ekki endilega góðan.

Eru menn orðnir svona blindir eða sjá þeir bara það sem þeir vilja sjá?

Í samanburði Kvennablaðsins á íslensku ráðherrunum er hins vegar ítrekað litið framhjá menntun íslensku ráðherranna og þannig gert lítið úr þeim. 

Í einu tilfelli er jafnvel hægt að halda því fram að Íslendingar séu með menntaðri ráðherra. Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, er menntaður dýralæknir frá Kaupmannahöfn og fyrrverandi bóndi. Lawrence MacAulay, starfsbróðir hans í vestri, er fyrrum kartöflu- og mjólkurbóndi. Ekki fundust hins vegar upplýsingar um menntun hans, en hann er þrautreyndur þingmaður, fyrrum ráðherra og á kjördæmismetið fyrir flest faðmlög á einum degi!

Sigrún Magnúsdóttir, umhverfisráðherra, er sögð útskrifuð úr Húsmæðraskólanum. Það er fyrsta gráðan hennar. Hún lauk síðar prófi úr öldungadeild MH og 62 ára að aldri kláraði hún BA gráðu í þjóðfræði- og borgarafræðum frá Háskóla Íslands. Ekki er heldur minnst á menntun Eyglóar Harðardóttur félags- og húsnæðismálaráðherra, sem er með BA próf í listasögu frá Stokkhólmi.

Þá eru Bjarni Benediktsson, Ólöf Nordal og Illugi Gunnarsson öll með annað hvort meistaragráður ofan á sitt grunnnám eða MBA próf. Ólöf hefur meira að segja sinnt góðgerðamálum með því að leiða samtök um byggingu barnaþorpa í Afríku.

Hinn svokallaði frjálsi heimur byggist meðal annars á réttinum til að hafa skoðanir og láta þær í ljósi, þótt þær kunni að vera óvinsælar. óþægilegar og jafnvel órökréttar. Að stimpla þá sem eru pólitískt ósammála þér sem vonda og heimska en þá sem eru þér sammála sem greinda og góða er álíka barnalega einfalt og persónusköpunin í Mighty Ducks 2. Að ætla sér bara að hlusta á þá sem eru sammála manni, því hitt er óþægilegt, endar sjaldnast vel.

Eins og skáldið orti: „Eru menn orðnir svona blindir eða sjá þeir bara það sem þeir vilja fá eða sjá?“

Sérfræðingur eða pólitíkus?

Ríkisstjórn Trudeau er allrar athygli verð, meðal annars því ráðherrarnir koma úr afar ólíkum áttum. Sumir fæddust með silfurskeið í munni, aðrir alls ekki. Það sama á við um íslensku ríkisstjórnina.

En allir ráðherrarnir eiga það sameiginlegt að vera manneskjur af holdi og blóði.

Í ríkisstjórnum líkt og almennt í lífinu þurfum við vel samsetta hópa. Mikilvægur eiginleiki leiðtoga er að fá gott fólk með sér og það virðist Trudeau hafa tekist. Það er síður en svo sjálfgefið að fólk sem náð hefur langt á öðrum sviðum lífsins gefi kost á sér í pólitík.

En þrátt fyrir afrekin og menntunina eru kanadísku ráðherrarnir meira en bara sérfræðingar. Í flestum fræðigreinum eru nokkrir mismunandi kenningagrunnar sem menn aðhyllast. Valið byggir meðal annars á persónulegri reynslu, lífsgildum og viðhorfum sem aftur speglast í þeirri pólitísku stefnu sem þeir aðhyllast. Þórólfur Matthíasson og Ragnar Árnason eru báðir með doktorspróf í hagfræði. Þeir eru hins vegar síður en svo sammála um fiskveiðistjórnunarkerfið.

Stjórnmálamenn eru kosnir til að framfylgja stefnu sem kjósendur þeirra vilja. Menntun eða afrek á öðrum sviðum skipta þar ekki öllu máli heldur hæfileikarnir til stjórnunar, forustu, ákvarðanatöku, framkvæmdar og samninga.

Fyrsta prófið

Rétt rúmur mánuður er síðan ríkisstjórn Trudeau var mynduð. Hún hefur gefið mörgum von en hún á eftir að sanna sig með raunverulegum afrekum. Reyndar hefur hún þegar þurft að bakka með eitt helsta stefnumál flokksins sem var að taka á móti 25 þúsund flóttamönnum fyrir áramót. Þeir verða sennilega ekki nema 10.000. 

Hörfað var til að „geta staðið rétt að málum“ en tölunni á að vera náð í febrúar. Hlutfallslega eru það samt færri flóttamenn en Íslendingar taka við í ár. Ákvörðun kanadísku stjórnarinnar að forðast einhleypa karlmenn hefur einnig verið gagnrýnd á þeim forsendum að hún kunni að kynda enn frekar undir ófriðarbálinu í Sýrlandi því hópurinn hafi þá ekki annað að sækja en á vígvöllinn

Fyrsta flugvélin með flóttamenn kom til Kanada um helgina. Forsætisráðherrann mætti með hlý orð, föt og bros. Það er hægt að kalla eðlilegt embættisverk en líka sýndarmennsku.

Menn eru dæmdir af verkum sínum

Trudeau er sonur fyrrum forsætisráðherra og fáir deila um persónutöfra hans og útlitið en andstæðingar hans reyndu að mála hann sem heimskan í kosningabaráttunni. Hann snýtti þeim hins vegar duglega og margt sem hann hefur gert bendir til að hann sé afar klókur og framsýnn stjórnmálamaður.

Það skal reyndar tekið fram að Sigmundur Davíð kom líka ungur fram á sjónarsviðið sem vonarstirni síns flokks og komst á sínum tíma á blað yfir kynþokkafyllstu karlmenn landsins. Hann komst líka til valda eftir óvæntan kosningasigur. Vonandi fyrir Trudeau hverfur kjörþokkinn ekki jafn hratt af honum og Sigmundi.

Ríkisstjórn Trudeau á hvorki að dæma frábæra né gagnslausa strax. Hana á að dæma af verkum sínum á komandi misserum. Hún vekur vonir en þær geta umturnast í vonbrigði. Eins og Dr. Gunni benti nýverið á, jafnvel þeir sem gera ótal margt gott eru dæmdir af því versta.

Ríkisstjórn Trudeau á eftir að lenda í að þurfa að velja milli erfiðra kosta. Hún á eftir að taka flóknar ákvarðanir. Hún á eftir að taka rangar ákvarðanir. Hún á eftir að verða fyrir harkalegri gagnrýni og innflytjendaákvörðunin hefur þegar fengið hana. Kannanir í Kanada benda til dæmis til að meirihluti þjóðarinnar sé á móti móttöku flóttamannanna.

Alice Olivia sagði að í Ottawa gæti frostið farið allt niður í 30 gráður. Þótt grasið sé kannski grænna fyrr í Kanada geta veturnir þar orðið svakalega kaldir. Kvennablaðið verður líka að huga að því.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.