„Sameinaðir stöndum vér...“

edward_huijbens_vg13.jpgÞeir sem gátu botnað titil þessa greinarstúfs ættu þar með að hafa rifjað upp aldagamlan sannleik sem t.d. verkalýðsbárátta 20. aldar snérist um. Samtakamáttur er ótrúlegt breytingarafl. Ekki bara fyrir það að við sækjum styrk til hvors annars, heldur ekki síður vegna þess að góð hugmynd verður oft betri þegar fleiri koma að útfærslunni. 

Hvers vegna er ég að rifja upp þennan fyrri part af aldagömlu slagorði? Jú, það blasir svo sem við hverjum þeim sem skoðað hefur niðurstöður skoðanakannana fyrir komandi alþingiskosningar. Fjöldi framboða, sem mörg hver setja jafnvel bara eitt mál á oddinn, er umhugsunarefni. Þessi framboð sækja ekki fylgi sitt til íhaldssamari flokka í samfélaginu heldur virðast nýju framboðin ætla að fá fylgi sitt frá þeim flokkum sem fyrir eru og þau eiga helst málefnalega samleið með. Það er alveg ljóst að flest þessara nýju framboða munu ekki ná að klífa hinn ólýðræðislega 5% múr til að komast á þing. Umtalsvert magn atkvæða á eftir að falla dauður og gagnast það helst hinum tveimur stóru íhaldssömu flokkum.

„... sundraðir föllum vér“

Öll þau góðu og gegnu réttlætis- og lýðræðismál, sem hvert framboðið á fætur öðru hefur nú komið fram með, eiga á hættu að missa vægi sitt í komandi kosningum. Að þeim málum verður torvelt að vinna í sundraðri og veiklaðri hreyfingu þeirra sem vilja breytingar á íslensku samfélagi í átt til virkara lýðræðis, jöfnuðar, manngilda ofar auðgilda, náttúruverndar og sjálfbærni.

Árangur í baráttu fyrir þeim málefnum sem eru í öndvegi þessarar kosningabaráttu mun aðeins nást með samstöðu þeirra sem ætla sér breytingar á samfélaginu. Þær breytingar eru ekki auðsóttar og munu ekki nást á einni nóttu, einu ári eða jafnvel einu kjörtímabili. Að þeim þarf að vinna skref fyrir skref með heilsteypta sýn á samfélagið og framtíð þess að leiðarljósi. Á þeirri leið verða mörg skref tekin í rétta átt en önnur skref gætu verið ill nauðsyn sem rekur fólk tímabundið af leið. Um þetta ættu síðastliðin fjögur ár að vera nægur vitnisburður, en það sem máli skiptir er að sýnin sé skýr og til langs tíma.

Það sem síðustu fjögur ár ættu umfram annað að hafa kennt okkur er gildi samstöðu. Hvað mig varðar og félaga mína í Vinstri grænum, þá þarf enginn að efast um það hvert stefnt er og hvernig samfélag við viljum sjá. Um það geta kjósendur valið þann 27. apríl og ættu þeir að kanna hug sinn vandlega gagnvart þeim málum sem ný framboð bjóða. Er þau ekki flest að finna í heilsteyptri stefnu Vinstri grænna?

Höfundur skipar 3. sæti á lista Vinstri grænna í Norðausturkjördæmi

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.