Að komast eða komast ekki, það er spurningin.
Ég hef ekki á reiðum höndum hversu marga daga á þessu ári hefur verið ófært yfir Fjarðarheiði, en þeir eru orðnir nokkuð margir. En nú er heiðin búin að vera ófær meira og minna síðan á mánudag. Fjöldi manns bíður báðum megin við heiðina eftir að komast yfir. Þetta er fólk sem stundar vinnu handan heiðarinnar, þetta er fólk sem stundar nám handan heiðarinnar, þetta er fólk sem þarf að komast í eða úr flugi á Egilsstöðum. Þetta er venjulegt fólk sem þarf að komast yfir heiðina til að sinna erindum sínum, misjafnlega hversdagslegum.Hér hefur ekki verið minnst á þá sem þurfa að komast á milli vegna bráðatilfella, þá sem þurfa að komast á sjúkrahús, verðandi mæður sem erum komnar að fæðingu barna sinna, þá sem þurfa að fá lyf og fleira mætti telja.
Vegurinn yfir Fjarðarheiði er hluti af samgöngukerfi Evrópu og með ferjunni Norrænu sem kemur vikulega til Seyðisfjarðar eru flutningar fisks og annarrar vöru. Þungaflutningabílar þurfa því einnig að komast yfir heiðina.
Áhrif þessara lokana á heiðinni eru víðtæk og stöðug óvissa um hvort færð haldist kemur illa við alla sem þurfa að treysta á þessa samgönguleið. Dögum saman getur verið óvíst um hvort fært sé yfir og því fylgja ýmis vandkvæði með að undirbúa ferðir t.d. með flugi eða ef keyra á í annan landshluta. En það er EKKERT ANNAÐ í boði. Við höfum ekki annan kost en þessa heiði ef við þurfum að komast á milli.
Ég er orðin þreytt á þessu ástandi, að segja „æi þetta fylgir því að búa á þessum stað“. Þetta er hugsunarháttur sem á ekki við á okkar tímum. Við eigum ekki að þurfa að sætta okkur við þessar takmarkanir, við borgum okkar skatta til samfélagsins og tímabært er að það skili sér til okkar í formi ganga undir Fjarðarheiði. Það er ekki eins og stjórnvöld hafi ausið í Seyðfirðinga fjármagni í gegnum tíðina. Við höfum lagt mikla áherslu á þörfina fyrir bættar samgöngur og það þarf að flýta þessum aðgerðum.
Þetta er ekki spurning um þægindi heldur almenn réttindi, fólk á rétt á að komast leiðar sinnar heim og að heiman, til og frá vinnu, og síðast en ekki síst aðgang að heilbrigðiskerfinu þegar nauðsyn ber til.