Árangurinn liggur fyrir
Opinberar hagtölur sýna, hvað sem öllu niðurrifstali líður, að umtalsverður árangur hefur náðst í efnahagsmálum, ekki síst ríkisfjármálum. Blönduð leið tekjuöflunar og sparnaðar sem núverandi ríkisstjórn valdi hefur reynst vel og dreift byrðunum eins sanngjarnt og mögulegt var. Hinum tekjulágu var sérstaklega hlíft og velferðarkerfið varið. Meginverkefnið tókst að mínu mati og Ísland er á réttri leið. Það er líka mat þeirra sem fjalla almennt um efnahagsmál, alþjóðastofnana, greiningaraðila og markaðarins. Áfram þarf af ábyrgð og festu að treysta batann í sessi á komandi misserum. Það verður verkefni næstu ríkisstjórnar. Vissulega bíða krefjandi verkefni, m.a. við afnám hafta og enn eiga margir við erfiðleika að glíma. En, við munum alltaf njóta þess árangurs sem náðst hefur, ekki síst í ríkisfjármálum frá árinu 2008. Myndin að neðan sýnir vel hversu verkefnið var krefjandi en einnig hversu árangurinn er mikill.Skuldatryggingarálagið aldrei lægra frá hruni
Mat umheimsins á Íslandi sem skuldara birtist hvað skýrast í svokölluðu skuldatryggingarálagi (e. CDS). Erlendir aðilar verða sífellt bjartsýnni á stöðu efnahagsmála á Íslandi. Hinir ólíkustu spekingar eru sammála, hvort sem þeir heita Lars Christensen, Paul Krugman, IMF, OECD eða markaðurinn sjálfur. Skuldatryggingarálagið hefur ekki verið lægra frá því nokkru fyrir hrun. Það er nú 155 stig en fór hæst í 1.100 stig. Myndin að neðan sýnir þessa þróun svart á hvítu.
Atvinnuleysið á niðurleið
Atvinnuástand hefur farið batnandi síðustu misserin. Þetta er augljóst þegar vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar og skráð atvinnuleysi Vinnumálastofnunar er skoðað. Atvinnuleysið hefur minnkað um allt land. Vitaskuld er ástandið mismunandi eftir greinum en áberandi er hversu mikill kraftur er í ferðaþjónustutengdri starfsemi, nýsköpun og margskonar skapandi greinum. Stjórnvöld hafa enda beitt sér sérstaklega í þágu vaxtargreina með margvíslegum aðgerðum. Allar spár gera ráð fyrir áframhaldandi lækkun atvinnuleysis á næstunni og eru horfur ekki síst góðar í útflutningstengdum greinum.
Lokaorð
Af öllum þeim viðfangsefnum sem hrunið færði okkur í hendur að kljást við er það mat undirritaðs að glíman við hallarekstur ríkissjóðs hafi verið afdrifaríkust. Með ríkissjóð á hliðinni, áframhaldandi skuldasöfnun og síhækkandi vaxtagreiðslum ár eftir ár hefði allt annað orðið vonlítil barátta. Þar stóð mikilvægasta orustan um framtíð Íslands og sú orusta er að vinnast.
Höfundur er atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra og 1. þingm. Norðausturkjördæmis.