Að drekka kaffi er ekki það sama og að drekka kaffi.

2 mynd kaffi webNú eru páskarnir liðnir, þessi mikla súkkulaðiveisla með unaðslegu kaffi-ívafi. Ég ætla að trappa mig hægt niður. Mjög hægt.


Á páskadagsmorgunn settist ég niður í góðum félagsskap með páskaeggið mitt. (málshátturinn minn var; misfullir þrífast best, ég veit ekki enn hvernig ég á að taka því). 

Mamma var búin að hella uppá kaffi í sterkara lagi í tilefni dagsins, ég valdi mér bolla – mars gerðina af mánaðarbollum, páskaliljuskreyttan með skelplötuáferð og gyllingu.

Það er nefnilega ekki vandalaust að drekka kaffi - ónei! Ég hef lesið mér aðeins til í þeim efnum (að vísu ekki í nýjustu vísindabókunum). Leiðbeiningar úr bókinni Tízkubókin hafa hjálpað mér mikið og eru eitthvað á þessa leið:

Haldið bollanum yfir undirskálinni á meðan þér drekkið. Þetta gerið þér annað hvort með því að halla yður fram yfir undirskálina, eða halda á bolla og undirskál. Á þann hátt komist þér hjá þeim leiða sið (sem oft sézt nú á dögum) að strjúka bollanum við brúnina á undirskálinni, og sveifla því næst bollanum, án undirskálar, hálfan meter eða svo í loftinu, áður en þér berið hann að vörum yðar.
- (Tízkubókin – Mary Young)

Til að svona hreyfingar við kaffidrykkjuna njóti sín er all miklu skemmtilegra að notast við leirtau í takt við íburðarmiklar og fágaðar hreyfingar. Það er því ekkert því til fyrirstöðu að draga fram mávastellið á þriðjudags eftirmiðdegi eða konunglega múslingamynstrið á gráum vetrarmorgni. Einn kaffibolli getur dimmu í dagsljós breytt.

Þið hafið kannski ekki öll setið á skólabekk í Hússtjórnarskóla, en þar lærði ég marga mikilvæga lexíuna, meðal annars þessa; skinka er ekki það sama og skinka. Þessi staðreynd hljómaði hátt yfir matsalinn, við námsmeyjarnar litum hver á aðra og svo á kennarann, og hugsuðum að sjálfsögðu hvílíkur vitleysingur væri þarna við kennslu. Við botnuðum bara ekkert í þessu. Og þar að auki var farið með þessa staðreynd á norðlenskunni einni saman.

Í dag finnst mér að þessi setning ætti að vera á fyrstu blaðsíðu námskrár grunnskólanna.

Snúum þessu yfir í kaffi; „Að drekka kaffi er ekki það sama og að drekka kaffi“ - einmitt!

- Katý

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.