Um Austurfrétt og austfirska fjölmiðlun

Gunnar GunnarssonSegja má að Austurnet hafi verið stofnað utan um fréttavef haustið 2007. Vefurinn fór í loftið nokkrum mánuðum síðar en honum var haldið úti í samstarfi við Austurgluggann.

Í byrjun árs 2010 voru blaðaútgáfa og fréttavefur í nafni Austurgluggans skilin í sundur. Austurglugginn sagði sig alveg frá vefnum og afhenti hann Austurnetsmönnum. Ég kom inn sem ritstjóri en hafði áður sinnt Austurgluggavefnum sem sumarstarfsmaður þar. 

Við litum á það sem samfélagslega skyldu okkar að taka við vefnum. Ótækt væri að skilja Austurland eftir án fréttavefs og við vildum ekki að sú vinna sem unnin hafði verið yrði að engu ef vefurinn visnaði upp og dæi.

Ég var í námi í Reykjavík og í hlutastarfi á Pressunni á þessum tíma. Ég vonaðist til að fréttavefurinn gæfi mér sterkari tengsl austur sem ég gæti nýtt á Pressunni en fann að ég hafði í raun meiri áhuga á að sinna bara austfirskum fréttum. Það var erfitt að halda úti vefnum án þess að vera á svæðinu.

Ákveðið var að gera engar breytingar að sinni þótt skilið hefði verið við Austurgluggann og Útgáfufélag Austurlands. Austurglugginn.is var vefslóð og vörumerki sem allir þekktu. Einnig var til styttingin Agl.is. Við færðum okkur síðar í hana til að reyna að aðgreina okkur aðeins frá blaðinu.

Félagið var rekið sem kúla innan Austurnets í byrjun. Ákveðna formfestu vantaði samt. Eignarhald fjölmiðla verður að vera gagnsætt og skýrt hverjir standa að baki því. Það, ásamt fleiri ástæðum, varð til þess að stofnað var félag utan um fréttavefinn undir nafninu Austurfrétt í ársbyrjun 2012.

Eigendur Austurfréttar ehf. eru Gunnar Gunnarsson (50%), Tjörvi Hrafnkelsson (45%) og Unnar Erlingsson (5)%. Stefán Bogi Sveinsson hefur verið varamaður í stjórn frá upphafi og tók við sem markaðsstjóri félagsins 1. febrúar síðastliðinn.

Austurfrétt varð vörumerki vefsins síðasta haust. Dagur Skírnir Óðinsson var markaðsstjóri á þeim tíma. Vefurinn er rekinn á auglýsingatekjum. Að safna auglýsingum er ákveðið hark. Við erum nýir á markaðinum og þurfum að ryðja okkur til rúms. Við erum líka alveg nýr miðill, nýtt form.

Þegar við byrjuðum settum við okkur það markmið að byggja upp fyrirtæki sem skapaði atvinnu. Við höfum ekki náð því marki enn, eiginlega alla vinnu höfum við unnið í sjálfboðavinnu og auglýsingarnar á vefnum aðeins dekkað kostnað. Við finnum samt að við erum á leið í rétta átt.

Stundum finnst manni eins og Austfirðingar hafi ekki gert sér grein fyrir mætti netsins sem auglýsingamiðils. Bæði íslenskar og erlendar tölur sýna okkur samt árangur af rétt staðsettum netauglýsingum og auglýsingavelta á netinu hefur aukist gríðarlega.

Ég held að pappírinn hverfi ekki en allar kannanir segja okkur að hann sé á afar hröðu undanhaldi, eiginlega flótta. Í Bandaríkjunum hefur blaðaútgáfa verið í hópi þeirra atvinnugreina sem hraðast hafa dregist saman en útgáfa á netinu er á hinum endanum, ásamt endurnýjanlegri orku þær atvinnugreinar sem vaxa hraðast.

Íslenskir markaðsstjórar setja netið – og utan samfélagsmiðla – í annað sætið á eftir sjónvarpinu sem áhrifaríkasta auglýsingamiðilinn. Fjárfesting þeirra endurspeglar þetta sjónarmið.

Við tökum líka eftir því að vefurinn vekur athygli á Austurlandi. Ef eitthvað gerist hér og við segjum frá því er eftir því tekið. Landsmiðlarnir pikka upp fréttirnar eftir okkur og þær dreifast manna á milli til dæmis á Facebook.

Við segjum líka alltaf að markmið vefsins er að tengja saman Austfirðinga, sama hvar í heiminum þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Þegar útsendingar svæðisútvarpsins hættu hvarf að miklu leyti hin daglega fjölmiðlun og umræða af svæðinu. Þeir staðarmiðlar sem eftir eru hafa barist í bökkum. Ef Austfirðingar vilja að starfandi séu fjölmiðlar sem flytja fréttir af svæðinu þá verða þeir að styðja þá í verki.

Við getum ekki beðið eftir að aðrir geri hlutina fyrir okkur eða kvartað yfir að sjoppunni sé lokað þegar við höfum fulla burði til að gera hlutina sjálf.

Austurfrétt er lifandi miðill í örri þróun. Við erum opin fyrir nýjum leiðum, vinnubrögðum og framsetningu. Við viljum heyra þitt álit á vefnum, hugmyndir, uppástungur – og að sjálfsögðu fréttahugmyndir.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.