Fréttir af LungA
Eitt af mínum uppáhaldsverkefnum er að undirbúa og framkvæma LungA- Listahátíð ungs fólks, Austurlandi. Þá fæ ég tækifæri til þess að vinna með ungu, bjartsýnu og kröftugu fólki. Fólki sem samþykkir ekki hindranir og tekur lífinu hæfilega alvarlega.Auk mín skipa LungA ráðið 6 ungmenni, ég er lang elst en flest eru á aldrinum 22 – 29 ára. Ég er sú sem fæ stressköstin en er snarlega dregin út úr þeim með góðum rökum um að allt sé nú í réttum farvegi.
Hátíðin verður haldin í 14. sinn á Seyðisfirði dagana 14. – 21. júlí. Skemmtilegt er frá því að segja að skráningar í smiðjur LungA hófust mánudaginn 10. júní og það seldist upp í eina smiðju á innan við sólarhring, en skráningar ganga mjög hratt fyrir sig. Í fyrra seldist upp á tveimur vikum. Alls er hægt að taka um 100 – 120 ungmenni í þær sjö smiðjur sem eru í boði nú í ár.
Nú í fyrsta sinn bjóðum við upp á eins dags smiðju sem verður föstudaginn 19. júlí. Þá geta þeir sem langar að taka þátt en geta ekki verið alla vikuna fengið eitthvað við sitt hæfi.
Dagskrá LungA er vönduð og fjölbreytt að venju með fyrirtaks leiðbeinendum og listamönnum sem koma víða að. LungA leggur mikla áherslu á að allir geti tekið þátt, hvort sem ungmennin komi frá efnuðum heimilum eða ekki.
Þess vegna er verðinu haldið eins mikið niðri og mögulegt er hverju sinni. Helstu styrktaraðilar hátíðarinnar er Seyðisfjarðarkaupstaður og Menningarráð Austurlands, auk þess styrkir Evrópa unga fólksins sérstakt ungmennaskiptiverkefni sem verður starfrækt samhliða LungA . Í því verkefni taka þátt um 44 ungmenni frá Íslandi og Danmörku.
Dagskráin er að týnast inn á vefinn okkar www.lunga.is og ég hvet fólk til þess að kynna sér hana . Fjölmargir ungir listamenn hafa sótt um pláss til að sýna, fremja gjörninga, taka þátt í hönnunarsýningu eða annað.
Tónlistin á sinn stóra sess en tónleikar á útisviði verða haldnir laugardaginn 20. júlí . Sjö ólík bönd munu stíga á svið, flestir þekkja þau íslensku en eitt danskt band; Rangleklods kemur einnig fram. Sú hljómsveit lék fyrir fullu tjaldi á Hróarskeldu í fyrra og er mikill spenningur fyrir henni, enda frábær hljómsveit.
Ávallt komast færri að en vilja og það hefur færst í aukana að listamenn mæti í byrjun vikunnar til þess að taka þátt í gleðinni. Segja má að LungA sé einskonar hústöku hátíð því við nýtum hvert rými, krók og kima sem gefst til þess að setja upp sýningar, smiðjur eða uppákomur.
Gistirýmið í bænum er löngu fullbókað (nóg pláss þó á tjaldsvæðinu) og bæjarbúar í óða önn að undirbúa innrás unga fólksins. Með ungu fólki kemur gleði og gáski sem svo sannarlega bætir litum í lífið.
Gleðilegt þykir mér að hátíðin Pólar á Stöðvarfirði sé að fara af stað. Þarna er sproti sem þarf að hlúa vel að, falleg hugsjón og listrænn metnaður. Ég hvet austfirðinga til þess að gefa Pólar festival gaum. Þau eru í samstarfi við LungA sem er okkur afar ánægjulegt.
Megi listir og menning blómstra sem víðast.
Fyrir hönd LungA 2013
Alla Borgþórs
(mamma LungA)