Ævintýri á gönguför: Raunir hundeigandans

vilborg stefansdottirÉg er hundaeigandi, á tvo stóra hunda, borga gjöldin mín, fer með þá í hreinsun, passa að láta fólk sem minnst vera vart við þá, reyni að vera eins löghlýðinn hundaeigandi og frekast er unnt.

Ég hef þó haft það fyrir reglu að leyfa hundunum að hlaupa frjálsum eins og hægt er á þeim svæðum sem upp á það bjóða. Fer í sveitina, helst seint svo enginn sé á ferli og reyni að velja eins fáfarin svæði og unnt er.

Svo sá ég auglýsingu í Dagskránni þar sem segir að þar sem varptíminn væri hafinn væri okkur hundeigendum bent á að nota hundasvæði hvers kjarna til að trufla ekki varpfuglana.

Lagt af stað

Ég tók þetta náttúrulega til mín, fór inn á vef Fjarðabyggðar og eftir langa mæðu fann ég kort af svæðinu. Ég skoðaði það vel, prentaði það út og svo lagði ég af stað eftir vinnu. Ég rýndi í vegkantinn en fann ekkert merki.

Ég gerði aðra tilraun en það voru bílar á eftir mér svo ég gat nú ekkert verið að lúsast áfram enda keyrt á 70 km.hraða þarna. Í þriðju tilraun rakst ég svo á slóða.

Ég gaf stefnumerki og vonaði að nú væri ég loksins búinn að finna þetta. Hrósaði happi þar sem enginn enginn bíll var á eftir mér því ég hafði engan aðdraganda að beygjunni. Bara stefnuljós og beygja allt í sömu andránni.

Ég var kominn á sendna slóð. Vá, hvað ég vildi eiga jeppa hugsaði ég og keyrði varlega upp þennan slóða, sem reyndist þá bara vera um það bil tvær bíllengdir. Þá kom ég á einhvers konar plan. Nei, vá! Hvað ég er fegin að vera ekki á jeppa, ég gæti aldrei snúið hér.

Svæðið fundið

En út fórum við, ég og hundarnir. Ég setti þá í taum því rétt hjá blússuðu bílar og mótorhjól og svo var malbikunarbíll skammt frá. „Halda áfram að vera ósýnileg, passa að valda ekki ónæði og sleppa þá kannski við kæru,“ hugsaði ég.

Fikra mig af stað með kvikindin í taumi. En hvað? Þetta er rafmagnsgirðing! Blót, ragn bölv, er ég ekki á réttu svæði? Kíki á kortið sem ég hafði prentað út. Jú þetta hlýtur að vera það.

En þetta er hestagirðing! Og hestar í næstu girðingu. Sem betur fer eru hundarnir mínir vanir hrossum og vaða ekki í þau.

„Ókei, ég fer ekki inn í girðinguna ég verð bara að reyna að klofa kerfilinn sem þarna er mannhæðar hár.“ Klöngrast yfir kerfil, rabbarbara og gamalt drasl sem er nokkurn vegin á kafi í grasi. Kemst á gilbarm og hann ansi brattan!

„Nei takk, nú bara fer ég inní andskotans girðinguna!“ Ég klöngrast undir hana og sleppi hundunum lausum. Frelsinu fegnir hlaupa þeir af stað upp túnið og eru komnir talsvert á undan mér. Nei, nei, ekki skíta þarna! Þið eruð svo langt í burtu að ég finn örugglega ekki góssið!

Upp í mót

Hleyp við fót. Ekkert nema brekka. Eins gott að ég er í ágætu formi. Finn aðra klessuna og set hana í poka. Leita og leita að hinni en finn ekkert nema uppþornaðan hrossaskít. Jæja. Vona bara að hún finnist síðar þar sem ég, löghlýðni hundeigandinn, mun náttúrulega nota þetta svæði til að hlífa varpfuglunum.

En hvað er að gerast. Allt um kring fljúga upp fuglar. Jaðraki, spói, tjaldur og lóa skrækjandi og vælandi yfir þeirri vá sem að þeim steðjar. Úbbs, ég verð bara að flýta mér hærra til að reyna að trufla þá ekki og fara eftir þeim reglum sem sveitarfélagið setur. Ég reyni að flýta mér sem mest og strunsa upp hlíðina með skítapokann í hendinni.

„Andskotinn! Ég hefði átt að fara í betri skó.“ Ekkert nema hátt gras, mýri og nú stefnir þetta allt í fjallgöngu. Ég brölti yfir rafmagnsgirðinguna ofarlega í fjallinu og sprengmóð sest ég niður á stein og nýt útsýnisins. Ég rölti svo um og reyni að átta mig á hvort einhversstaðar séu hælar eða merki sem segi mér hvort ég sé á réttum stað, eða þá bara „á góðum stað“ en hvergi er neitt að sjá.

Með góssið heim

Eftir góða stund held ég niður eftir og ákveð að taka bara sénsinn og vera innan girðingarinnar þó að ég kunni að fá skammir frá einhverjum. Og enn er ég með skítapokann í hendinni. Við nálgumst bílinn og fuglarnir garga allt í kringum mig. Ég vona bara að hundarnir reki ekki trýnið í egg eða unga.

Þegar ég kem á bílastæðið (eða ég held að þetta eigi að vera bílastæði) leita ég að ruslafötu. En viti menn, ekkert slíkt er að finna. Ég keyri því af stað með illa lyktandi pokann heim og hugsa með með mér:

„Segjum sem svo að það séu 100 hundar í Neskaupstað og gjald fyrir hvern þeirra er 15 þúsund krónur, þá er innkoman 1,5 milljón krónur. Hvað væri hægt að kaupa margar ruslafötur fyrir þann pening?“

Höfundur er hundaeigandi í Neskaupstað
- Millifyrirsagnir eru Austurfréttar

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar