Vondi karlinn í Matrix

Sigrún Halla UnnarsdóttirMér finnst gaman að troða mjög mikið af nammi uppí mig í einu, mér finnst gaman að ganga á fjöll, mér finnst gaman að fara á fyrirlestra, mér finnst gaman að hlaupa í gegnum úðara, mér finnst gaman að horfa niður Hofsvallagötuna og út á sjó, mér finnst gaman að hlusta á Frakka tala saman, mér finnst gaman að vera í kringum fólk sem hefur brennandi áhuga, mér finnst gaman að sjá hluti sem eru öðruvísi en það sem ég hef séð áður, mér finnst gaman að skrifa.

Mér finnst gaman að skrifa. Ég þurfti að hugsa mig töluvert um þegar að ég var beðin um að vera með pistla hérna á Austurfrétt. Aðallega vegna þess að mér datt enginn rauður þráður í hug, þema eða bara hvað ég ætti að skrifa um. Þessi leiðinlegi karakter dúkkaði upp. Þessi gaur sem að lítur út eins og vondi kallinn í Matrix, sagði mér að ég ætti ekkert erindi með að skrifa eitt né neitt. Ég hef ákveðið að hunsa hann.

Ég ætla bara að bíða og sjá, rauði þráðurinn hlýtur að detta inn þegar að hugmyndin er búin að fá að hristast í hausnum á mér í einhvern tíma. Kannski kemur hann ekki, kannski verða þetta pistlar sem verða útum allar trissur. Það verður þá bara að hafa það.

Það er nefnilega þannig að við erum alltof dómhörð á hugmyndirnar okkar. Við leyfum þeim varla að komast út um nefið á okkur. Ég held að hugmyndir komi út með andardrættinum, en þær þurfa sinn tíma til að hringsóla í kollinum í þó nokkurn tíma, mislengi þó.

Svo er líka bara fínt að láta stundum eitthvað heimskulegt gossa. Núna finnst mér þetta til dæmis frekar leiðinlegur pistill (Þarna er vondi kallinn úr Matrix aftur byrjaður að tala). Ég ætlaði ekki að skrifa sjálfshjálparpistil. Held ég.

Ég mæli eindregið með því að skrifa eina A4 blaðsíðu af hlutum sem að þér þykir skemmtilegt að gera.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar