Hrein jakkaföt með nýjum skammstöfunum
Í hádegisfréttum RÚV 18. júní síðastliðinn var enn ein neikvæða fréttin um Egilsstaði. Í þetta sinn var það byggingin Leikskólinn við Skógarland. Í fréttinni voru talin upp mörg atriði sem ekki voru í lagi við byggingu leikskólans; komin væri sveppur, húsið lekur á ákveðnum stöðum og loftræsting ekki í lagi.Lítið annað hefur heyrst í fréttum frá Egilsstöðum í vetur en um illa byggðar byggingar. Þetta er alveg óþolandi og gefur bænum mínum ekki góða ímynd út á við. Umræðan í vetur vatt uppá sig og þeir sem ekki þekkja til sögðu þetta ver álverinu og virkjuninni að kenna, 20 auðar sveppablokkir væru á Egilsstöðum og fleira bull. Þetta er virkilega slæmt fyrir okkar litla samfélag og getur hindrað það að hingað flytji ungt fólk með börn.
Þegar ég hlustaði á þessa frétt bölvaði ég stuttlega en svo fór ég að hugsa.
Hverjir voru það sem stjórnuðu þessum byggingum aftur? Og hvert fóru svo sprenglærðu verkfræðingarnir sem stjórnuðu þessum byggingum, eftir að fyrirtækið hætti hér störfum?
Getur verið að þeir séu komnir í hrein jakkaföt með nýja skammstöfun og stjórni nú nýrri byggingu, hjúkrunarheimili á Egilsstöðum?
Sennilega eyddu menn tímanum í vinnunni á MSN þegar Leikskólinn við Skógarland var byggður á sínum tíma. Ætli Facebook muni valda sömu mistökum?
Vonandi ekki. Ég hef trú á að hreinu jakkafötin séu betri.
Höfundur er stjórnmálafræðinemi og áhugakona um samfélagið.