Veghleðslur á Breiðdalsheiði

hrafnkell larusson headshotEinhvern tíma heyrði ég að algengt væri að maður hætti ósjálfrátt að taka eftir ýmsu sem er fyrir augun ber dagsdaglega. Hlutir sem í raun skipti máli verði „ósýnilegir“ og maður enduruppgötvi þá ekki fyrr en um seinan, þ.e. þegar þeir skemmast eða hverfa. Það hafa því miður í gegnum tíðina alltof oft orðið örlög menningarminja.

Í rúma þrjá áratugi hef ég reglulega ferðast um þann hluta þjóðvegar 1 sem liggur um Breiðdal yfir Breiðdalsheiði og til Héraðs. Ég er þekki því leiðina orðið nokkuð vel, þ.m.t. hlykkjóttan veginn í Grófinni innst í Skriðdalnum sem mér var eitt sinn sagt að hafi á sínum tíma verið lagður ofan á gömlu hestagöturnar sem þar voru fyrir. En nóg um það. Þessi pistill er ekki um nauðsyn vegaframkvæmda á þessum slóðum, þó þörfin fyrir þær sé augljós. Nei, hann er um minjar vegaframkvæmda fyrri tíðar og varðveislu minja sem bæði eru merkar og enn vel greinilegar.

veghledslur1 webÉg nefndi hér í upphafi að stundum hætti maður að taka eftir hlutum í umhverfinu. Ágæt dæmi um slíkt er að finna á Breiðdalsheiðinni. Eitt af því sem þar ber fyrir augu vegfarenda eru gamlar veghleðslur sem m.a. sjást í Þrönginni (þar sem keyrt er upp á háheiðina Breiðdalsmegin) og eins í brekkunum Héraðsmegin í heiðinni (sjá myndir). Þessar hleðslur eru mjög greinilegar og óskemmdar. Þegar bílfær vegur var lagður yfir Breiðdalsheiði á fjórða áratug síðustu aldar var vegstæðið uppi á heiðinni fært til og því eru hleðslurnar (eða a.m.k. hluti þeirra) enn til staðar.

En hvað er svona merkilegt við þessar hleðslur? Fyrir það fyrsta eru þær óvenju vel varðveittar minjar um handverk og samgöngumannvirki fyrri tíma. Eitthvað sem víða hefur spillst við seinni tíma framkvæmdir. Annað er svo aldur hleðslanna. Þær eru líklega að stofni til frá því um 1870 og eru því orðnar yfir 140 ára gamlar. Þó engin þeirra heimilda sem ég kannaði fyrir ritun þessa pistils geti nákvæms ártals, varðandi byggingu hleðslanna, eru heimildirnar samdóma um að þær séu frá því fyrir 1900. Ástæða þess að ég tel hleðslurnar geta verið um eða yfir 140 ára gamlar eru orð í sóknarlýsingu Eydalasóknar frá árinu 1873. En þar segir að á Breiðdalsheiðina sé nú kominn „besti vegur fyrir nýgjörða vegbót.“

Fyrir skömmu bar ég upp fyrirspurn um veghleðslur á póstlista safnmanna. Í svörum sem bárust komu fram upplýsingar um hleðslur á ýmsum stöðum á landinu. Þær hleðslur sem safnafólk tilgreindi í svörum sínum voru þó allar frá 20. öld, einkum frá tímabilinu 1910-1940, og flestar því hlaðnar undir bílvegi. Hleðslurnar á Breiðdalsheiðinni eru hins vegar upprunar frá því löngu fyrir tíma bílsins og eru því hlaðnar með umferð manna og hrossa í huga.

veghledslur2 webAð samgöngumannvirki sem eingöngu voru byggð með handverkfærum og berum höndum séu enn svo heilleg eftir svo langan tíma er eftirtektarvert, bæði með tilliti til slits vegna umferðar en ekki síður vegna veðrunar og snjóþyngsla. En hver er staða slíkra minja gagnvart friðun?

Í svari við fyrirspurn sem ég sendi vegna þessa segir Inga Sóley Kristjönudóttir, minjavörður Austurlands:
Hleðslurnar eru sjálfkrafa friðaðar vegna aldurs en allar minjar hljóta sjálfkrafa friðun þegar þær ná 100 ára aldri (sbr. aldursákvæði 3. gr. Minjalaga nr. 80/2012) og umhverfis þær er 15 m friðhelgi, þ.e. ekki má raska svæðinu í kring án leyfis Minjastofnunar. Það er í raun ekki þörf á að gera neitt til þess að friðun taki gildi, það gerist sjálfkrafa. Friðlýsing er svo hins vegar eitthvað sem fer fram með þinglýsingu og felur í sér meiri verndun. Umhverfis friðlýstar minjar gildir 100 m friðhelgi og viðhald þeirra er á ábyrgð ríkisins. Þetta er í raun annað stig friðunar, annars vegar er sjálfkrafa friðun sem tekur til allra minja, skráðra sem óskráðra, sem eru eldri en 100 ára og svo friðlýsing sem er með sterkari verndunarákvæði og er þá yfirleitt um að ræða minjar sem teljast einstakar eða einkennandi á einhvern hátt.
Það stendur því upp á viðkomandi sveitarfélög, Breiðdalshrepp og Fljótsdalshérað, að ákvarða hvort sóst verður eftir friðlýsingu þessara minja, en þær eru beggja vegna hreppamarka á heiðinni.
Mig langar að hvetja forsvarsmenn sveitarfélaganna að huga að friðlýsingu og merkingu þessara veghleðslna. Þær hafa augljóst menningarsögulegt gildi og eru líklega einstæðar á landinu. Einnig væri þörf á að merkja hleðslurnar, bæði til að vekja athygli ferðamanna á þeim og ekki síður til að leitast við að afstýra mögulegum skemmdum á þeim, t.d. vegna vetraraksturs bíla eða snjósleða.

Myndir: Veghleðslur á Breiðdalsheiði. Myndirnar tók Lárus Sigurðsson þann 18. júní sl.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar