Laun heimsins
Þetta er orðin plága. Svona álíka pirrandi og roðamaurinn sem ryðst nú inn um alla gluggakarma og gerir mörgum gramt í geði. Þessi plága getur brostið á nokkurn veginn hvenær sem er, tröllriðið öllu í dálítinn tíma og horfið síðan aftur alveg án þess að nokkuð sitji eftir annað en pirringurinn. Þessi plága er umræðan um listamannalaun.Við skulum hafa alveg á hreinu að ég er ekki á móti því að það sé rætt um listamannalaun. Þau verðskulda umræðu alveg eins og öll önnur samfélagsmál. En það sem gerir þessa umræðu að plágu er að það er aldrei, og ég stend við það, aldrei nokkurt vit í henni. Þetta er orðið eitt af þessum málum sem ekki má minnast á án þess að menn skipti snarlega í tvö lið og hoppi gráir fyrir járnum í skotgrafirnar.
Ef taka ætti mark á þessari umræðu þá erum við öll annaðhvort vinnandi fólk, kjósum Hægrigrænaframsóknarsjálfstæðisflokka heimilanna, búum úti á landi í líkamlegum eða andlegum skilningi og fyrirlítum þetta lið sem hengslast um og þykist vera listamenn á meðan að það hangir á ríkisspenanum og mergsýgur þjóðina, tekur mat úr munnum fátækra og myrðir gamalmenni með því að neita þeim um heilbrigðisþjónustu. Hins vegar erum við víðsýna, frjálslynda og skapandi fólkið sem kýs Bjartavinstrigrænasamfylkingarframtíð fyrir börnin okkar og fyrirlítum kvótakónga og stjóriðjusinna sem ganga um nauðgandi fjallkonum og skiljum ekki af hverju allir hinir eru svo vitlausir að fatta ekki að framtíðin liggur í hönnun og hugviti og því að elska og virða náttúruna og njóta hennar í öræfakyrrðinni, eða þá úr hæfilegri fjarlægð lepjandi latté í hundraðogeinum með rándýra design lopatrefilinn okkar um hálsinn.
Og það er þetta sem gerir umræðuna að óþolandi plágu. Hún fær aldrei að verða að skoðanaskiptum. Þeir sem taka þátt í henni fá aldrei að vera þeir sjálfir og með eigin skoðanir, heldur er þeim skipað í liðin og þurfa að gangast við öllum vitlausustu upphrópunum „síns liðs“. Þetta er skrílræði í sinni hreinustu mynd. Sá sem hefur hæst hefur rétt fyrir sér.
Það virðist heldur enginn hafa áhuga á því að koma þessu upp á hærra plan. Jafnvel ágætustu menn eins og Jens Garðar Helgason formaður bæjarráðs í Fjarðabyggð ákveður að draga listamannalaunin inn í umræðu um auðlindagjald í sjávarútvegi. Mér fyrirgefst vonandi að vera svo takmarkaður að ég skil ekki ennþá hvers vegna eða hver tengingin var. En það var nóg að nefna orðið „listamannalaun“ og þá varð allt vitlaust í athugasemdakerfunum. Þetta hjálpaði hvorki umræðunni um auðlindagjald né listamannalaun, svo mikið er víst.
Ég er framsóknarmaður, ég hef stutt og mun án efa í framtíðinni styðja virkjanaframkvæmdir og ég bý úti á landi. Ég er samt fylgjandi listamannalaunum, ótrúlegt en satt, og ég skal segja nákvæmlega hvers vegna.
Listir og menning gefa samfélögum gildi. Listir og menning auðga mannsandann og listamenn eru hverju samfélagi nauðsynlegir því þeir hafa getu til þess að koma í annað form tilfinningum og lítt áþreifanlegu eðli samfélaga og miðla því áfram. List getur líka verið skemmtileg og gagnleg á margan hátt og við eigum að fagna því og hvetja til þess að þeir sem hafa hæfileika sem listamenn feti þann veg og leggi listina fyrir sig. Það er einfaldlega hluti af því að búa í góðu samfélagi að hver og einn einstaklingur geti nýtt hæfileika sína til fulls og njóti hamingju í viðfangsefnum sínum.
Heilt yfir þá vitum við þetta og skiljum. Við erum stolt af listamönnum okkar þegar þeir gera það gott og við hreykjum okkur af því að vera bókmenntaþjóð. Við gefum nefnilega sannarlega út ótrúlegt magn af rituðu máli og stöndum fyrir ótrúlega öflugu tónlistarlífi miðað við hvað við erum lítill markaður. Af þessu erum við réttilega stolt, en í þessu liggur líka vandinn.
Markaðurinn getur aldrei staðið undir öllu þessu framboði og það er þarna sem hið opinbera kemur inn. Ef við viljum þetta öfluga lista- og menningarlíf þá þarf að styðja við það. Og við viljum það gjarnan, jafnvel þó við sjáum það ekki alltaf öll við fyrstu sýn og það endurspeglist ekki alltaf í þeirri einfölduðu og gagnslitlu umræðu sem á sér stað um málið.
En þetta er alls ekkert séríslenskt fyrirbæri. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að á öllum tímum og allsstaðar hafa opinberir aðilar stutt við listamenn með einum eða öðrum hætti. Meistaraverk endurreisnarinnar voru unnin meðan að listamönnunum var haldið uppi af furstum og aðalsfólki eða kirkjuhöfðingjum. Shakespeare skrifaði verk sín með stuðningi frá bresku krúnunni. Starf listamanna hefur alla tíð verið hluti af og notið stuðnings frá samfélögunum sem þeir tilheyra.
Þetta þýðir ekki að það megi ekki ræða listamannalaun og fyrirkomulag þeirra. Hversu mikið af fjármunum ríkisins eigi að fara í málaflokkinn og hvernig er þeim best úthlutað. En þegar menn standa á hljóðunum um að það eigi hreinlega að afnema þau með öllu finnst mér ástæða til þess að staldra við og hugsa hvort það er nákvæmlega það sem við viljum.
Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, var á svonefndri Beinni línu á dv.is um daginn. Þar lét hún hafa eftir sér að stefna Framsóknarflokksins væri að leggja niður listamannalaun, en tók jafnframt fram að peninginn ætti að nýta til að styrkja unga listamenn. Það er ekkert skrýtið að þessi ummæli hafi hlotið nokkra eftirtekt. Þarna talar jú alþingismaður úr flokki forsætisráðherra. Margir urðu til að bregðast við og umræðan varð með svipuðum hætti og jafnan um þennan málaflokk, eða nánast alveg gagnslaus. Þar ber reyndar þingmaðurinn allmikla sök því hún fór nefnilega rangt með stefnu flokksins. Það er alvarlegt mál.
Mörgum hættir til að slá saman undir heitinu listamannalaun öllum greiðslum ríkisins sem renna beint til listamanna. Listamannalaun eru hins vegar laun sem veitt eru tímabundið og listamenn sækja um. Það er úthlutunarnefnd sem metur umsóknirnar og tekur síðan ákvörðun um það hverjir fá úthlutun og til hve langs tíma. Listamennirnir mega ekki sinna öðrum störfum nema að mjög takmörkuðu leyti þennan tíma og afköst þeirra á meðan þeir njóta listamannalauna hefur áhrif á framtíðarúthlutanir.
Síðan er til fyrirbæri sem heitir heiðurslaun listamanna. Það eru laun sem Alþingi ákveður að sæma einhverja tiltekna listamenn fyrir vel unnin störf um dagana. Ný lög voru samþykkt um heiðurslaunin árið 2012 og á Alþingi nú að veita þau 25 manns árlega, en þau nema sömu fjárhæð og listamannalaunin framangreindu. Sé viðtakandi þeirra orðinn sjötugur nema þau síðan 80% þeirra. Þessi laun voru veitt til æviloka og skerðast ekki af öðrum tekjum. Í nýju lögunum er á því byggt að þingið velji þessa 25 einstaklinga árlega og þannig njóti menn þeirra ekki sjálfkrafa ævina á enda, en einnig er þar tilgreint að þeir sem nutu þeirra árið 2012 njóta þeirra áfram.
Framsóknarflokkurinn samþykkti á flokksþingi sínu í ár ályktun þess efnis að leggja beri niður þessi heiðurslaun listamanna. Heiðurslaunin athugið, ekki listamannalaunin. Þessa ályktun styð ég heilshugar. Mér hafa alltaf þótt þessi heiðurslaun vera vandræðalegt fyrirbæri. Lengi vel var mikill pólitískur fnykur af veitingu þeirra og sannarlega ekki nokkur trygging fyrir þau að þau færu á þann stað sem þeirra væri mest þörf eða að þau fengju þeir sem verskulduðu þau helst. Síðast en ekki síst gera þessi laun ekkert til að styðja og efla listalífið í landinu. Þessum fjármunum er margfalt betur varið til þess að styðja unga listamenn eins og er stefna Framsóknarflokksins. Vonandi sjáum við þessa breytingu sem allra fyrst.
En listamannalaunum skulum við fyrir alla muni halda og heldur efla en hitt ef möguleiki er. Það hefur verið nefnt að því miður þá njóta fáir listamenn sem búa í landsbyggðunum listamannalauna. En í stað þess að falla í þá gildru að líta svo á að kerfið sé fjandsamlegt landsbyggðunum ættum við sem hér búum að velta fyrir okkur hvort og hvernig við gerum okkar samfélög aðlaðandi fyrir listamenn að búa og starfa í. Það er spurning sem er virkilega þess virði að ræða.