Hvar er aðgengi fyrir alla?

sigurlaug gisladottirSem réttindagæslumaður fatlaðs fólks á Austurlandi síðustu 2 ár hef ég farið víða um og víða komið. Fengið frábærar móttökur hvar sem er og fengið að hitta alveg óskaplega marga, hverjum öðrum skemmtilegri sem alltaf eru að kenna mér eitthvað nýtt. Vonandi hef ég eitthvað getað lagt til á móti, og svo sannarlega vona ég að hafa eitthvað orðið að gagni.

En tilefni þessarar greinar eru ekki alveg eins ánægjuleg en það eru aðgengismál í víðum skilningi.

Í upphafi starfs mín þegar leitað var að húsnæði fyrir skrifstofu mína kom upp mikið vandamál því það leit út fyrir að ekkert húsnæðið fyndist, því réttindagæslumaður fatlaðs fólks verður auðvitað ekki í húsnæði nema sem allir geta komist að og í. 

Hugsið ykkur að þarna árið 2011 var tæplega hægt að finna húsnæði með aðgengi fyrir alla. Það hefur því miður ekkert breyst.

Fyrir nokkrum mánuðum tók ný byggingareglugerð við hlutverki þeirra gömlu og fékk ég tækifæri á að koma með ábendingar um hvað betur mætti þar fara. Það gerði ég og lagði mikla áherslu á að opinberar stofnanir ríkis og sveitarfélaga yrðu að gera eldra húsnæði sitt þannig úr garði gert að þar gætu allir komið án vandkvæða. Ég vildi auðvitað að allir sem þjóna almenningi á einhvern hátt hvort heldur væri við verslun, veitingar, söfn eða aðrir fengju slíka kröfu á sig, en það er jú lágmark að ríki og sveitarfélög sýni gott fordæmi í þessum málum sem öðrum, því eftir höfðinu dansa jú limirnir er það ekki?

En það var því miður ekki gert. Þessum aðilum eru jú sett mörk í nýrri reglugerð með það fyrir hvaða tíma þau eigi að vera búin að gera áætlanir um breytingar á því húsnæði, en þau geta því miður ákveðið að það taki þess vegna 100-200 ár í viðbót og í raun alveg hummað það fram af sér að gera nokkuð í þeim málum fyrr en þörf er á nýju bara ef áætlun er til um það. Sem sagt gjörsamlega tilgangslaus klausa og hefði mátt spara stofnunum sveitarfélaga og ríkis vinnu við þá áætlanagerð. Þessi grein í reglugerðinni er því „bölvuð hrákasmíð“ eins og einn komst svo vel að orði við mig.

Margir þurfa að fara skoða þau stæði sem ætluð eru fyrir fólk með fötlun. Við skulum muna að þau eru ekki bara fyrir fólk í hjólastólum og ekki setja okkur á háan hest þó við sjáum kannski að því er okkur virðist, alheilbrigðan einstakling stíga þar út. Hjarta-, gigtar- og astmasjúklingar bera veikindin ekki utan á sér, svo dæmi séu tekin. Ef viðkomandi er hins vegar ekki með merkið sitt er sjálfsagt að leggja eitthvað til málanna og benda á villu vegar.

Þessi stæði eru mörg hver of mjó fyrir nútímabílinn ef tekið er tillit til þess hvernig þau eru staðsett og að allir bílar eru ekki smábílar eins og virðist vera reiknað með þegar merkingar eru gerðar á bílastæðum. Sum þessi stæði eru einnig fáránlega staðsett og margt fleira má betur fara í þessum málum. Allt er það spurning um vilja.
En aðgengi er ekki bara aðgengi fyrir fólk sem er í hjólastólum eða á hækjum. Og aðgengi er ekki bara tröppur, stigar og aðrar slíkar hindranir.

Götuskilti bæja eru stundum og allvíða svo lág að blindir og sjónskertir eiga það til að ganga á þau og það getur hreinlega valdið slysi. Runnar og tré sem standa út á göngustíga og gangstéttar eru stórhættulegir og ættu allir að kanna hvert greinar þeirra liggja og bæta úr málum ef þörf er á og það er víða.

Merkingar eru líka aðgengi og það fyrir alla. Ekkert er eins leiðigjarnt og lélegar merkingar sem varla sjást þeim er hafa fulla sjón, hvað þá þeim sem sjá illa.

Það er jú óþarfi að hafa smáaletrið á því sem við viljum að allir viti er það ekki. Látum ekki flottheitin koma niður á aðgenginu. Ég nefni flottheitin því einn aðili bar því við að það liti svo illa út að hafa merkinguna stærri, það færi alveg með hönnunina á lógóinu.

Og svo er það veraldarvefurinn og allar heimasíðurnar.

Þar er svo sannarlega frumskógur og hreint ekki aðgengi þar fyrir alla, merkilegt nokk, það er ekki sama hvernig aðgengið er þar heldur.

Ljósgrár grunnur á heimasíðu með gráu letri útilokar marga frá skoðun á viðkomandi síðu. Tökum sem dæmi hér heimasíðu Fljótsdalshéraðs en hún er dæmigerð fyrir mjög margar með sömu vandamál. Á forsíðu eru fréttir og þar fyrir neðan viðburðir. Ef ég set upp gleraugun, þessi sterkari, get ég með naumindum séð að þar er ljósgrátt letur sem sýnir hvenær fréttin er sett inn og ef við skrollum neðst á síðuna til að finna síma, heimilisfang og aðrar nauðsynlegar upplýsingar um hvernig beri að hafa samband eru þær með sama nánast ósýnilega letrinu.

Og ef við förum svo inn á málefni er varða félagsþjónustuna þá er þar gefinn kostur á að skoða ákveðna samninga um hitt og þetta. Með örlítilli litabreytingu á textanum er gefið til kynna hvar þá samninga og reglur er að finna. Því er það háð því að sá sem leitar að þessu sjái þessa litabreytingu. Því miður eru þeir bara mjög margir sem það ekki gera og teljast ekki einu sinni sjónskertir, lögblindir eða neitt nálægt því. Sumir eru einfaldlega bara með litblindu, ýmist litla eða mikla.

Ég vil ítreka að þótt ég nefni hér heimasíðu Fljótsdalshérað er hún eins og áður sagði langt frá því að vera eitthvað einsdæmi, svona er þetta mjög víða á netinu.

Aðgengi að efninu er svo allt önnur ella og öllu lengra mál en svo að ég fari út í það núna en læt nægja að segja að þar er líka víða pottur brotinn, eiginlega margbrotinn.

Nú hef ég stiklað á stóru hér sem ég vona að skili einhverjum árangri, þó ekki væri nema að einn færi út og athugaði runnann sinn, nokkur skilti yrðu hækkuð, þröskuldur lækkaður, nú og eða merkingar bættar. Þó bara einn gerði eitthvað er það skref í rétta átt.

Takk fyrir að lesa.

Sigurlaug Gísladóttir
Réttindagæslumaður fatlaðs fólks á Austurlandi
Vonarlandi ( Tjarnarbraut 39 ) S 858-1964
700 Egilsstaðir
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.