Ömurlegt sumar! ... eða hvað?

hrafnkell larusson headshotEitt er það umræðuefni sem allir Íslendingar, sem komnir eru til vits og ára, hafa skoðanir á og tjá sig um reglulega. Ég er hvorki að tala um sjónvarpsdagskrána né stjórnvöld heldur um íslenska veðráttu. Hún er jafn sveiflukennd og margbreytileg og lundarfar landsmanna og getur stundum kúvent ítrekað innan sama dags. Við höfum sífellt væntingar til veðurfarsins, bæði næstu daga og komandi árstíða, óskum okkur t.d. snjóléttra vetra eða hlýrra og bjartra vora. 

Gott veður eykur möguleika í tómstundum og svo má auðvitað ekki gleyma því að lífsafkoma margra, t.d. bænda, er beintengd veðurfari. Um slíkt þarf síst að fjölyrða við þá sem nú takast á við afleiðingar síðasta vetrar í formi uppskerubrests vegna umfangsmikils kals í túnum.

Væntingar okkar til veðurs eru mestar þegar kemur að sumrinu. Íslenska sumarið er stutt og því langþráð þegar það kemur. Margir stytta sér stundir í skammdeginu við að ráðstafa frídögum komandi sumars. Flestar slíkar áætlanir miðast við að veðrið sé gott – sólskin og blíða – eða a.m.k. þurrt. Rigning að sumri er því allajafna óvinsæl meðal þeirra sem vilja njóta lífsins í fríinu.

Ísland er í braut lægða sem renna sér norður Atlantshafið. Hvaða leið þær fara yfir landið ræður svo því hvernig viðrar í einstökum landshlutum. Hin klassíska og vel þekkta þumalputtaregla er að áþekkt veður sé annars vegar á suður- og vesturhelmingi landsins og hins vegar á norður- og austurhelmingnum. Af þessu leiðir að oftar en ekki er annar hlutinn sólríkur en hinn úrkomusamur. Við gæðametum svo sumur jafnan af hitastigi og fjölda sólardaga, sem er svo sem rökrétt eftir langa, kalda og dimma íslenska vetur. En þessum gæðum er oftar en ekki misskipt milli landshluta og verða sumur því oftast ýmist metin góð annað hvort á suðvestur- eða á norðausturhelmingum landsins en að sama skapi slæm á hinum.

Það hefur ekki farið framhjá neinum sem fylgst hefur með fréttum að undanförnu að það sem af er sumri hefur væta og lágt hitastig verið einkennandi á suður- og vesturhelmingnum. Sjálfur get ég borið vitni um veðurfarsmun milli landshluta í sumar þar sem ég hef það sem af er sumri dvalið álíka lengi á höfuðborgarsvæðinu og hér eystra. Viðvarandi rigning og sólarleysi á sumri er auðvitað hvimleitt ástand sem ergir fólk þó ekkert sé við því að gera. Aðrir geta glaðst. Nú þegar þetta er skrifað er spáð suðlægum áttum, sólskini og hita á bilinu 15-20 gráður á Austurlandi næstu vikuna.

Eftir langa bið eftir sumri er viðbúið að væntingarnar séu hátt stilltar. Þá getur verið stutt í vonbrigðin ef út af bregður. Gremja frétta- og dagskrárgerðarmanna á stærstu fjölmiðlum landsins yfir veðurfarinu á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess hefur opinberast landsmönnum nær daglega nú að undanförnu. Sami vonleysis- og pirringstónninn er þar kveðinn aftur og aftur. Veðrið getur vissulega verið fréttaefni en þessar sífelldu endurtekningar hins sama bera þó fremur vott um gremju sem leitar útrásar. Þetta virðist reyndar virka í báðar áttir því að þegar vel viðrar á höfuðborgarsvæðinu má ganga að því vísu að sömu fjölmiðlar geri því ítarleg skil. Á tíðum einkennist sú umfjöllun af allt að því barnslegri kæti. Myndir af flatmagandi fólki í Nauthólsvík eða á Austurvelli fylla skjái og síður um leið og sólin skín og hitinn stígur. Þá er líka talað um blíðviðri „um allt land“.

Við yfirferð yfir fréttir á vefnum láta margir nægja að skima yfir fyrirsagnir en lesa fáar fréttir. Fyrirsagnirnar skipta því miklu máli og geta einar og sér verið skoðanamyndandi. Fréttir undir fyrirsögnum eins og „Kaldur júlí“ og „Rigning um allt land næstu daga“ hafa verið tíðar á vefmiðlum undanfarið (síðari fyrirsögnin átti við lítil rök að styðjast). Þær tvær fréttir sem hér eru tilgreindar (en eru aðeins brot af fjöldanum) eru teknar af ruv.is, fréttavef Ríkisútvarpsins. Þær eru um margt dæmigerðar fyrir fréttir af tíðarfari í sumar sem snúast nær eingöngu um bleytutíð og kulda á suðvesturhorninu, en aðeins er vikið að tíðarfari annarsstaðar á landinu í framhjáhlaupi – sé það yfirleitt gert.

Það sem eftir situr í mínum huga af þessum fréttaflutningi er að hann virðist einkum opinbera þröngt sjónarhorn viðkomandi fréttamanna og ritstjóra. Slæmt veðurfar í sumar á suðvesturhluta landsins er þar ítrekað yfirfært á landið allt. Ríkisútvarp allra landsmanna fjallar um kaldan júlí á Suður- og Vesturlandi en nefnir ekki einu orði aðra landshluta. RÚV er þar raunar aðeins ein rödd í margradda kór stærstu fjölmiðla landsins. Orðfæri fyrirsagna og þögn um aðrar aðstæður en þær sem er lýst yfirfærir kuldann og rigninguna yfir allt landið. Hér er vert að benda á að hér á Austurfrétt birtist fyrir skömmu frétt þar sem fram kom að nýliðinn júnímánuður hefði verið einn sá heitasti á Austurlandi frá því að mælingar hófust.

Ég skil vel að íbúar sem og aðilar í ferðaþjónustu norðanlands og austan séu gramir við stóru fjölmiðlana þessa dagana þegar þeir keppast við að halda því að sólþyrstum landslýð að rigning og kuldi sé á landinu öllu, þegar sú er ekki raunin. Því er ekki að leyna stóru fjölmiðlarnir hafa með beinum og óbeinum hætti lagt sitt af mörkum að undanförnu til að hvetja til sólarlandaferða frekar en ferðalaga innanlands. Ég ætla ekki fjölmiðlafólki að gera þetta viljandi. Held að þetta sé einfaldlega afleiðing vonbrigða, gremju og takmarkaðs sjóndeildarhrings sem um of miðist við það sem sést út um glugga vinnustaðarins.

Annað umhugsunarefni er svo hvort þau efnistök sem hér hefur verið rætt um séu e.t.v. lýsandi fyrir sjóndeildarhring og almenn viðhorf innan ritstjórna stærstu fjölmiðla landsins? Að þrátt fyrir yfirlýsta stefnu (a.m.k. sumra þeirra) að þjóna landinu öllu sé það sem gerist austan Árnessýslu og norðan Mýrasýslu almennt álitið skipta litlu máli?

Hvort sem sú er raunin eður ei er ágætt að hafa í huga orð Þorbjörns Broddasonar prófessors í félagsfræði við Háskóla Íslands í bókinni Ritlist, prentlist, nýmiðlar sem kom út árið 2005. En þar segir hann eftirfarandi (í umfjöllun um hlutlægnisvanda fréttamanna, bls. 32): „Traust almennings til fjölmiðils byggist í ákaflega ríkum mæli á því að hann hafi orð á sér fyrir hlutlægni.... Hlutlægni byggist á því að leitast sé við að mæta ákveðnum kröfum. Meðal þeirra eru efnislega rétt og nákvæm frásögn, jafnvægi, aðgreining túlkunar frá sjálfum fréttaflutningnum, opin heimildaöflun og óvilhöll afstaða.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar