Plönturnar í glugganum
Ég byrjaði að rækta kryddjurtir og tómata í vor. Eitt leiddi af öðru og þessi ræktun mín var allt í einu komin algjörlega úr böndunum. Allir gluggar eru orðnir yfirfullir af blómapottum og ég er sífellt að vökva og sjá til þess að allir pottarnir fái nú nægilega mikið sólarljós. Mér finnst ég þurfa að afsaka mig við þá gesti sem koma á heimilið, eða allavega útskýra að ég sé alveg ennþá með öllu mjalla þó ég sjái ekki útum gluggana fyrir rósmarín og myntu.Mitt stærsta áhyggjuefni fyrir sumarfríið mitt var að koma plöntunum í pössun og ég fékk hálfgert kvíðakast á erlendri grundu þegar að ég frétti frá heimildarmanni á Íslandi að plönturnar mínar væru orðnar gular í umsjón plöntu-píunnar.
Mér er sumsé mjög annt um plönturnar mínar. Nýjasta áhyggjuefnið er það að basilíkan mín stækkar ekki nógu mikið. Eftir að hafa kynnt mér málið betur er ég búin að komast að því að ég er með alltof margar plöntur í einu potti. Ræturnar fá hreinlega ekki nóg pláss. Það skiptir engu máli þó að ég vökvi og að þær fái besta "spottið" í glugganum, þær þurfa einfaldlega meiri mold.
Mér finnst samfélagið á Austurlandi hlúa vel að sínum plöntum á sviði skapandi greina um þessar mundir. Áform um stofnun LungA skólans á Seyðisfirði, endurbætt listabraut í Menntaskólanum á Egilsstöðum, og Þorpið-skapandi samfélag, eru nokkur dæmi um frábæra þróun sem Austfirðingar eru og eiga að vera mjög stoltir af. En nú er um að gera að hjálpast að við að gera hlutina vel. Þó ekki sé nema að tala um hlutina af jákvæðni og með bjartsýni.
Eins og allir vita þá ættum við ekki afreks íþróttafólk ef ekki væri fyrir þrotlausa óeigingjarna vinnu góðs fólks og fyrirtaks yngri flokka starfs. Við fáum heldur ekki „afreks“ hönnuði og listamenn ef að við styrkjum ekki skóla, frumkvöðlastarf og pössum uppá utanumhald í skapandi greinum. Og ég fæ ekki afreks basilíku plöntu ef ég set hann ekki fljótlega í stærri pott. Pössum okkur gott fólk að ausa ekki bara vatni og sólskyni.
Munum eftir því að umpotta.