Sumarið sem gleymdi Íslandi

elin karadottirEða hvað? Gleymdi sumarið Íslandi?

Eitt er víst að sumarið gleymdi ekki mér og vinum mínum sem eyddu sumrinu á besta stað landsins – á landsbyggðinni.

Kalli heitinn á Galtastöðum fram var veislustjóri á þorrablóti í Tungubúð nokkrum sinnum. Hann kom oft með skemmtilegar setningar og sagði þær af sinni einstöku snilld. Eftirminnilegast fannst mér þó þegar hann sagði „það er ekkert þorrablót skemmtilegra en það sem maður situr hverju sinni“. Ég tek heilshugar undir orð Kalla heitins, þetta var virkilega vel mælt hjá honum og ætla ég að leyfa mér að taka þessi orð hans og heimfæra þau yfir á sumarið sem nú er að enda og segja: „það er ekkert sumar skemmtilegra en það sem maður upplifir hverju sinni“.

Sumarið 2013 var sumar landsbyggðarinnar, þá sérstaklega Norður- og Austurlands

Það er svo gaman að keyra um sveitir landsins, sjá öll gömlu félagsheimilin lifna við nánast um hverja helgi vegna ættarmóta; sjá hvernig eitt lítið hús hverfur nánast í draghýsaborg sem myndast um eina helgi allt í nafni skyldleika. Ættarmót eru séríslenskt fyrirbrigði sem fær algjöra útrás á hverju sumri; fólk fer landshornana á milli til þess eins og rækta frændgarðinn, sumar ættir syngja en aðrar segja sögur af sjálfum sér. Magnað er að sjá hvað Íslendingar eru stoltir af sínum ættum og það líður varla það sumar sem menn fara ekki á minnst eitt ættarmót.

Ættarmót er ekki það eina sem prýðir sumarið, því bæjarhátiðir fá líka sína útrás. Bæjarhátiðir hafa hver sín séreinkenni og þær dreifast jafnt og þétt yfir allt sumarið. Segja má að hægt sé að pakka saman í draghýsið starx í byrjun júní og þræða allt landið sem er umvafið bæjarhátíðum þar til í lok ágúst.

Fallegast við bæjarhátíðir að mínu mati er krafturinn sem skín í gegn hjá heimamönnum og samheldnin sem byggir á því að gera sjálf eitthvað skemmtilegt, en ekki vera mataður af afþreyingu. Hver og ein hátíð byggir á sínu landsvæði, náttúruperlum og gæðum sem verða að einu flottustu samkomum landsins. Freistandi væri að hampa einni hátíðinni umfram aðra, en það ætla ég ekki að gera. Í sumar komst ég á nokkrar hátíðir en lét myndir og frásögn hjá vinum og vandamönnum duga fyrir hinar. Heilt yfir þá byggja hátíðirnar á gleði, samheldni og ótrúlegri orku.

Sumarið á Austurlandi 2013 bauð uppá stóran pakka af gönguferðum um náttúruperlur, útivist af ýmsu tagi, tónleikum, fjöldan allan af flottum menningarviðburðum, góðu veðri og gleði.

Sumarið 2013 er frábært – takk!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar