Hlaðspretturinn, skiptir hann máli?

stefan thorarinsson 0010 webVænta má að fleiri en ég hafi orðið hugsi í byrjunar vikunnar eftir að hafa hlustað á umræður í RÚV um framtíð Reykjavíkurflugvallar. 

Bakgrunnur þeirrar umfjöllunar eru þau áform stjórnenda Reykjavíkurborgar að láta flugvöllinn í Vatnsmýrinni víkja fyrir byggð á næsta áratug og undirskriftasöfnun sem fengið hefur um 60.000 undirskriftir gegn þeim áformum. Þessi sterku viðbrögð koma flutningsmönnum vallarins illa en helstu rök þeirra eru að borgin þurfi nauðsynlega að nýta þetta land undir annað og þarfara, þétta þurfi byggð í Vesturbænum og tryggja samkeppnishæfni borgarinnar um unga fólkið gagnvart umheiminum í framtíðinni.

Á móti þessum rökum þarf að vega það hlutverk sem flugvöllurinn gegnir sem helsta samgöngumiðstöð borgarinnar við þá íbúa landsins, fyrirtæki og þjónustu sem eru að nýta innanlandsflugið dags daglega. Reykjavíkurflugvöllur hefur þróast undanfarna áratugi sem hverfipunktur borgarinnar við það sem gerist á þeim hluta landsins sem völlinn nýtir. Á sama hátt er fjölþætt þjónusta, fyrirtæki og stjórnsýsla sem byggst hefur upp innan vébanda höfuðborgarinnar einnig að nota völlinn mikið. Er bara hægt að kasta þessum hagsmunum fyrir róða án þess að forsvarsmenn borgarinnar sýni fram á að rök þeirra vegi þyngra en ókostirnir sem af munu leiða? 

Það er hlutverk Reykjavíkurflugvallar sem sjúkraflugvallar sem er mér sérstaklega hugleikið og er tilefni þessara skrifa, enda verið í áratugi þátttakandi í heilbrigðisþjónustunni á Austurlandi. Heilbrigðisþjónustan úti á landi nýtir flugsamgöngur mikið, bæði fyrir sjúkraflug með veikasta fólkið til Landspítalans en einnig fyrir allan þann fjölda sjúklinga sem leitar á eigin vegum með áætlunarflugi í viku hverri til hinnar sérhæfðu heilbrigðisþjónustu sem byggst hefur upp í höfuðborginni.

Í gær var einkum tvennt sem var í brennipunkti umræðunnar; að staðsetning flugvallarins geti skipt sköpum fyrir líf eða dauða og að öryggi bráðaþjónustunnar við íbúa dreifbýlisins verði ógnað leggist völlurinn af. Þóttu það ómerkileg rök að draga þetta fram í umræðuna og gera að miklu máli.

Í umfjölluninni gætti bæði misskilnings og vanþekkingar. Borgarstjóri taldi mínúturnar frá flugvelli að Landspítalanum ekki skipta máli í heildarsamhenginu. Tíminn frá bráðum veikindum eða slysi langt úti á landi og þar til lent væri með sjúkling í Reykjavík væri hvort sem er svo langur að hlaðspretturinn inn á Landspítalann skipti ekki máli þótt eitthvað lengri verði. Þetta er bara ekki rétt því mínúturnar í lok flutnings geta vegið miklu þyngra en hinar fyrstu gera.

Maðurinn hefur getu til þess að bregðast við veikindum og slysum upp að vissu marki og í tiltekinn tíma eftir eðli máls og alvarleika. Varnarviðbrögð líkamans og sá stuðningur sem hægt er að veita á fyrstu stigum á leið til sérhæfðrar hjálpar getur verið takmarkaður í tíma og áhættan vaxið með margfeldishætti því lengur sem dregst að koma við varanlegri hjálp. Síðustu mínútur flutningsins geta því vegið mikið meira en þær fyrstu. Viðbragðstíminn í upphafi ræðst af því hvar viðkomandi er staddur þegar ógæfan dynur yfir og þar er auðna sem ræður en ekki manna verk, en þegar sjúklingur er kominn undir læknishendur og upp í sjúkraflugvél fer umgjörð og skipulag neyðarþjónustunnar að skipta máli og staðsetning flugvallar á áfangastað er hluti þess.

Um það bil 50% af beiðnum um sjúkraflug sem Mýflugi berast er metinn af þeim sem biður um flugið í Forgangi 1 eða Forgangi 2, tafarlaust eða sem fyrst. Þegar um borð í flugvélina er komið metur fagfólk í flutningnum að í 25% tilfella eða í um 120 flugum á ári sé sjúklingurinn í alvarlegu eða lífshótandi ástandi samkvæmt alþjóðlegu flokkunarkerfi (NACA). Þetta er marktækur fjöldi sem ekki má skauta framhjá af léttúð.

Fari svo að innanlandsflug og sjúkraflug flytjist til Keflavíkurflugvallar sem er eini raunhæfi valkosturinn við Reykjavíkurflugvöll, leiðir það til þess að það mun taka nálægt því tvöfalt lengri tíma að koma sjúklingi með sjúkraflugi utan af landi inn á Landspítalann en er í dag. Þar með getur bráðaþjónusta Landspítalans færst áratugi aftur í tímann frá þeim landsmönnum sem lengst þurfa að sækja. Er nema von að við þeirri óheillaþróun sé reynt að sporna?

Ákvörðun sem þessa má ekki taka án þess að skoða allar hliðar málsins af alvöru og skilningi. Vega verður kosti og galla í hinu stóra samhengi því framtíð og hlutverk Reykjavíkurborgar verða ekki skilin frá því sem varðar íslenskt samfélag í heild.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.