Hvað er til ráða?

hakon hansson sept13Í vikunni birtist grein Kára Stefánssonar í Mogganum og hefur orðið talsverð umræða um hana. Greinin er beitt og ekki skafið utan af hlutunum og að mörgu leyti tímabært að áhrifamenn tali svona opinskátt um vandamálin. Ég er þó ekki sammála öllu sem Kári segir. Sem þjóð verðum við líka að leggja fé í menningu og listir, þar með taldar byggingar. Harpa og Hof á Akureyri eru menningarverðmæti, sem eiga eftir að færa íslenskri þjóð mikla ánægju og gleði. 

Kári fjallar fyrst og fremst um heilbrigðiskerfið sem vissulega er í miklum vanda. Það er svo margt sem hægt er að velta fyrir sér í því sambandi. Ég les mikið um að víðast í nágrannalöndum okkar séu vandamál í heilbrigðiskerfinu. Alls staðar vantar peninga. Sjónvarpsstöðin Sky News í Bretlandi var til dæmis með sólarhrings beina útsendingu um síðustu helgi, þar sem ræddur var vandi breska heilbrigðiskerfisins.

Að mínu mati eigum við aðra leið en að loka Hörpu, Hofi, hætta við Vaðlaheiðargöng og jafnvel Norðfjaðrargöng, sem alls ekki má gerast.

Meirihluti Íslendinga hefur það mjög gott. Og sá meirihluti spjarar sig ágætlega án þess að fá niðurgreiðslur á húsnæðislánum frá ríkinu. Og þeir hinir sömu ættu líka að þola að borga í nokkur ár enn þá skattprósentu sem nú er í gildi. Hugsanlega mætti hækka mörkin varðandi hátekjuskattinn og svo taka upp eitt skattþrep þegar þjóðin hefur unnið sig út úr mesta vandanum.

En þar er jafn augljóst, að fjöldi fólks ræður ekki við skuldbindingar sínar.

Þessu fólki þarfa að hjálpa fljótt og vel og þá er ég að tala um alla sem eru í miklum vandræðum. Ekki bara þá sem eru með há húsnæðislán, heldur einnig tekjulága leigjendur, aldraða og öryrkja.

Ég er nokkuð viss um að þeir sem fá lækkun skulda án þess að þurfa á slíku að halda munu nota þá fyrirgreiðslu í aukna neyslu. Nýjan bíl, hjólhýsi, fleiri utanlandsferðir svo eitthvað sé nefnt, nú eða kannski nýjan flatskjá!

Hvernig væri nú að við sem höfum það gott og úr nógu að spila legðum til við stjórnvöld að í stað þess að úthluta okkur peningum í formi niðurgreiðslna á skuldum, sem við ráðum við að borga, yrði sá peningur sem sparaðist notaður til að greiða niður skuldir ríkisins.

Rætt hefur verið um að ríkið greiði 90 milljarða, ég endurtek níutíuþúsund milljónir í vexti árlega. Þetta eru miklir blóðpeningar og ef hægt væri að lækka þessa upphæð um t.d. 25 % með því að nota svigrúmið gagnvart vogunarsjóðunum, sem oft hefur verið talað um til þess að lækka skuldir ríkisins, ættum við árlega 20 milljarða, sem hægt væri að nota í heilbrigðiskerfið og bæta öldruðum og öryrkjum skerðingar síðustu ára.

Væri þetta ekki göfugt markmið? Vinnuveitendur yrðu svo að sjá til þess að bæta kjör hinna tekjulægstu. Og stjórnvöld að standa sig í því að halda verðbólgunni í lágmarki. Og breyta húsnæðiskerfinu þannig að ungt fólk eigi möguleika á að eignast þak yfir höfuðið, nú eða að leigja til langs tíma, með sanngjörnum kjörum, ef menn vilja það frekar.

Mér finnst sjálfsagt að Hagstofan fái leyfi til að safna gögnum til að greina nákvæmlega hvar vandinn er. Ef það verður ekki leyft er næstum öruggt, að ekki verður sanngirni í þeirri aðstoð sem nauðsynlegt er að veita þeim sem verst standa.

Og við hin, sem höfum það ágætt og náum endum saman án sérstaks stuðnings frá ríkinu eigum að sætta okkur við það sem við höfum. Líka þær stéttir sem hafa aðstöðu til að pressa á stjórnvöld og atvinnurekendur varðandi launahækkanir.

Niðurgreiðsla á skuldum ríkisins kemur öllum landsmönnum til góða, með betri heilbrigðisþjónustu, og betri afkomu aldraðra og öryrkja og jákvæðara samfélagi. Vonandi er enn hægt að ná þjóðfélagssátt á grunni samvinnu og jákvæðs hugarfars.

Ég legg til að sá hluti þjóðarinnar sem hefur allt til alls, eins og sagt var í gamla daga, sýni nægjusemi en ekki græðgi, og auðmýkt en ekki skeytingarleysi gagnvart þeim sem minna mega sín.

Getum við ekki sameinast um þau markmið?

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.