Trunt trunt og tröllin í fjöllunum

stefan bogi mai2012 webÞað er vel þekkt í heimi sveitarstjórna að mætustu sveitarstjórnarmenn geta verið fljótir að gleyma fortíð sinni þegar sá dagur kemur að þeir fara yfir um, skipta um lið, fara yfir móðuna miklu, eða hvað annað sem menn í hálfkæringi kalla það þegar sveitarstjórnarmaður sest á Alþingi. Stundum er talað um að menn gangi í björg og er þá vísað til þjóðsagnaminna um menn og konur sem hurfu til fjalla til sambýlis við huldufólk og vætti eða tóku trúna á trunt trunt og tröllin í fjöllunum eins og segir í sögunni. Urðu það oft hin verstu flögð og fordæður sem þannig háttaði um.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra, og þar með ráðherra sveitarstjórnarmála, var í stuttu viðtali í fyrstu útgáfu Kjarnans og ræddi þar meðal annars stöðu sveitarfélaganna. Hanna Birna er reynslubolti af sveitarstjórnarstiginu, fyrrverandi borgarstjóri og stjórnarmaður í Sambandi sveitarfélaga. Þess vegna mætti ætla að ráðherra sveitarstjórnarmála gæti tjáð sig af mikilli reynslu og innsýn um málaflokkinn. Ummæli hennar ollu mér vonbrigðum.

Lausnir ráðherra vöktu furðu

Mikið púður fór í að ræða um skuldastöðu sveitarfélaganna og það er sannarlega rétt að mörg sveitarfélög á landinu skulda of mikið. Það er líka rétt sem fram kom hjá ráðherranum að mikilvægt er að takast á við skuldavandann og lækka þannig fjármagnskostnað. Þetta hafa velflest sveitarfélög verið að gera undanfarin ár og gengið afar vel. Það má líka halda því fram að sveitarfélögin hafi tekið á sínum fjármálum af meiri festu en ríkið á þessum sama tíma, en sveitarfélögin studdu heilshugar og fögnuðu því þegar settar voru sérstakar fjármálareglur í ný sveitarstjórnarlög sem kveða meðal annars á um hámarksskuldsetningu. Ekki verður séð að alþingismenn hafi jafn mikinn áhuga á að setja slíkar reglur um ríkisfjármál.

En það voru lausnir ráðherrans sem vöktu furðu mína. Í fyrsta lagi var kveðinn upp sá stóridómur að yfirbygging og stjórnsýsla sveitarfélaganna sé of umfangsmikil og of mikill kostnaður liggi í rekstri kerfisins sjálfs. Það getur verið að Hanna Birna dragi þennan lærdóm af reynslu sinni hjá Reykjavíkurborg, en þegar verið er að ræða um sveitarstjórnarstigið í heild er betra að fara varlega í alhæfingar.

Í þeim sveitarfélögum þar sem ég þekki til hefur frá hruni verið skorið niður í rekstri eins og framast er kostur og gildir það alveg jafnt um yfirstjórn sem og annað. Það hefur skapað mikið álag á starfsfólk vegna þess að íbúar sveitarfélaganna gera að sjálfsögðu kröfu um góða þjónustu og er reynt að veita hana eftir sem áður. Það hlýtur því að vera svekkjandi fyrir þá sem hafa reynt að standa sig undir auknu álagi á undanförnum árum að heyra ráðherra sveitarstjórnarmála tjá sig með þessum hætti.

Hin lausnin sem kynnt var til sögunnar af hálfu ráð-herrans var síðan aukin einkavæðing. Raunar hvatti hún sveitarfélögin til að vera „óhrædd“ við að skoða aðra kosti við rekstur almannaþjónustu en rekstur sveitarfélaganna. Ég held að sveitarstjórnarmenn láti almennt ekki ótta ráða för við ákvarðanatöku sína. En það skyldi þó aldrei vera að það væri full ástæða til að hafa í það minnsta ákveðnar áhyggjur af því þegar einkaaðilum er falið að reka grunnþjónustu eins og skóla, leikskóla og þjónustu við aldraða.

Sveitarstjórnarmaður klórar sér í höfðinu

Einkaaðilar vilja arð af starfsemi sinni. Það þýðir að hluti þess fjármagns sem hið opinbera leggur til rennur í vasa eigenda fyrirtækisins en ekki til þess að bæta þjónustuna við íbúana. Mér hefur ekki virst vera einn einasti fótur fyrir því sem fullyrt hefur verið, meðal annars í framangreindu viðtali, að einkarekstur sé hagkvæmari eða hvað þá að einkarekstur bæti þjónustuna.

Þvert á móti má finna dæmi þar sem ekki verður annað séð en að gæðin hafi mátt víkja fyrir hagnaðarkröfu og er skemmst að minnast málefna leikskóla eins í Vesturbæ Reykjavíkur því til stuðnings. Þegar um einkarekstur er að ræða er líka þeim mun lengri leið fyrir yfirvöld sveitarfélaga að kippa í taumanna þegar eitthvað ber út af í gæðum þjónustunnar.

En ráðherra vill að sveitarfélögin hagræði. Það kemur hins vegar líka fram í máli hennar að hún vill að sveitarfélögin lækki útsvarið. Og nú er einn einfaldur sveitarstjórnarmaður austur á landi farinn að klóra sér í höfðinu. Því þessi sömu sveitarfélög og eru skuldsett og eiga að einsetja sér að greiða niður þessar skuldir eiga jafnframt að skera niður þá tekjustofna sem ríkisvaldið hefur náðarsamlegast skammtað sveitarfélögunum og duga rétt svo mátulega til að halda uppi því þjónustustigi sem þeim er ætlað að gera.

Sveitarfélög úti um landið sem eru fjölkjarna, landmikil og dreifbýl geta ekki leyft sér slíkan munað. Þau sveitarfélög sem geta mögulega farið niður úr því sem í dag er lágmarksútsvar, og hefur lengi verið draumur sjálfstæðismanna að losna við, eru örfámenn sveitarfélög sem einhverra hluta vegna búa við tekjur af atvinnustarfsemi sem kalla má gríðarlegar þegar þeim er deilt niður á hvern íbúa. Sveitarfélög með um eða innan við 100 íbúa sem njóta til að mynda verulegra fasteignagjalda af stóriðju eða orkuvinnslu en veita oft á tíðum takmarkaða þjónustu af eigin rammleik.

Það eina sem þetta skringilega áherslumál Sjálfstæðisflokksins mun gera er að skapa aukinn möguleika á litlum skattaparadísum hér og þar um landið og gera enn ólíklegra að íbúar þessara sveitarfélaga muni nokkurn tíma verða viljugir til að sameinast inn í sæmilega starfhæfar einingar.

Og það er furðuleg framtíðarsýn ef menn á annað borð vilja sjá öflugt og farsælt sveitarstjórnarstig.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.