Eru allir að fara?

elin karadottirAllir hafa gott af því að ferðast, bæði innan lands og utan. Margir velja að stunda nám erlendis, aðrir fara í heimsreisu, en sumir fara til að vinna og svo mætti lengi telja. „Heimskt er heimaalið barn“ sagði einhver snillingur og mikið til í þessum gamla málshætti. Ég hef lengi sagt að ef ALLIR myndu fara í sirka eitt ár til einhvers annars lands, þar sem menn þekkja engan, þurfa gjöra svo vel að bjarga sér – eignast nýja vini, læra nýtt tungumál og menningu, þá væri heimurinn töluvert betur settari en hann er í dag. 

Af hverju? Jú með því að fara til annarra landa og kynnast nýrri menningu þá hefurðu betri skilning á þörfum og hegðun annarra. Stríð hafa að mörgu leyti verið vegna vanþekkingar fólks á menningu og trúarbrögðum annarra þjóða. Ef þú átt tengsl eða vini í öðrum löndum, viltu ekki stríð á milli þeirra landa - vinaþjóðir fara síður í stríð hvor við aðra. En ég ætlaði ekki að ræða stríð heldur atgervisflóttann.

Atgervisflótti er þegar fólk fer til útlanda í nám en sér ekki hag sinn í því að koma aftur heim til Íslands og vinna hér á landi. Að sama skapi þurfa lítil þéttbýli út á landi að hugsa til þess að skólafólk, sem fer til Reykjavíkur eða útlanda í nám, vill mögulega koma aftur heim og ala sín börn upp þar sem „best“ er að vera, en hafa ekki tækifæri til þess.

Hverjum er um að kenna? Er það ríkisstjórninni? Er það peninga- og efnahagsmálum þjóðarinnar? Vantar byggðastefnu? Er ekki nægilega gott netsamband? Eða vill fólk vera matað þegar það þarf í raun að skapa og vera hugmyndaríkt í að búa til sína eigin atvinnu sjálft?

Hvað hefur Ísland uppá að bjóða? Að mínu mati svo margt, alveg endalaust margt. Við verðum samt að sameinast um það að hafa fjölbreytt störf í boði og launin í landinu verða að vera sambærileg við það sem gerist í nágrannalöndum okkar. Við verðum að vera með byggðastefnu sem eitthvað vit er í og efnahagsmálin þurfa að vera stöðugri. Það er ekki hægt að bjóða fyrirtækjum uppá það, að ekki sé hægt að gera langtímaáætlun í neinum rekstri – það mun aldrei mynda neinn stöðuleika, hvorki fyrir atvinnurekendur né launafólk og þar að leiðandi ekki fyrir heimilin í landinu.

Alltaf þegar ég frétti af skólafólki sem flytur „heim“ og fær eða býr sér til atvinnu sem hæfir menntun þeirra þá gleðst ég ógurlega og fyllist bjartsýni um framtíð landsins og/eða heimabyggðar minnar.

En fyrst og fremst, þá tel ég að Ísland hafi það umfram aðrar þjóðir að vera með gott og ókeypis vatn, og fólk ætti að íhuga að koma „til baka“ þó ekki væri nema fyrir það.

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.