Bölsýni biturs námsmanns
Menntamál voru áberandi í umræðunni fyrir kosningar. Mikið var rætt um þann niðurskurð sem orðið hefur í menntakerfinu á árunum eftir hrun og flestir flokkar lofuðu bót og betrun, eins og gengur og gerist í kosningabaráttu. Voru núverandi ríkisstjórnarflokkar þar ekki undanskildir. Framsóknarflokkurinn vildi „styrkja [menntakerfið] og efla með hagsmuni nemenda sem og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi“. Sjálfstæðisflokkurinn talaði um það að leggja „áherslu á mikilvægi menntakerfisins enda er fjárfesting í menntun mikilvæg í framsókn til bættra lífskjara.“Ég, sem háskólanemi, hef fylgst með fréttum undanfarinna vikna og mánuða með reiðiblandinni sorg í hjarta. Með fjárlagafrumvarpi núverandi ríkisstjórnar var stytt í snöru menntamála í landinu og má segja að þau hangi á bláþræði þess sem berst fyrir sínum síðasta andardrætti. Hörð barátta Stúdentaráðs Háskóla Íslands gegn breyttum kröfum Lánasjóðs íslenskra námsmanna nú í sumar sýndi best hversu illa menntakerfið hefur orðið á barðinu á niðurskurði. Fyrir þá sem ekki fylgdust með málinu voru kröfur um námsframvindu hækkaðar úr 18 einingum yfir í 22 á önn. Slíkar breytingar hefðu leitt til þess að þeir, sem ekki geta stundað fullt nám í háskólanum einhverra hluta vegna (t.a.m. einstæðir foreldrar, fólk með námsörðugleika eða fjarnemar) gætu að öllu jöfnu ekki fengið námslán, sem aftur leiðir til þess í mörgum tilfellum að skólaganga er einfaldlega ekki möguleiki. Til eru margar námsleiðir innan skólans sem byggjast eingöngu upp á 10 eininga áföngum. Hefði námsmaður fallið í slíkum áfanga hefði hann þar með staðið uppi með um hálfa milljóna króna skuld í formi yfirdráttar. Varla til þess hvetjandi að fólk drífi sig í nám.
Sem betur fer endaði þessi barátta með því að Stúdentaráð HÍ unnu sigur gegn LÍN og íslenska ríkinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. LÍN var ekki heimilað að breyta reglum sínum þetta misserið. En nú standa stúdentar enn frammi fyrir nýrri baráttu. Með tilkomu fjárlagafrumvarps þessa árs boðar núverandi ríkisstjórn lækkun á fjárframlagi til Háskóla Íslands um 321,8 milljónir króna á næsta ári. Á sama tíma boða þeir hækkuð skrásetningargjöld, en þau fara úr 60 þúsundum í 75 þúsund. Þessar breytingar hafa án nokkurs vafa áhrif á gæði náms og kennslu innan skólans.
Líkt og margir hef ég mikið velt fyrir mér forgangsröðun ríkisstjórnarinar í tengslum við nýútgefið fjárlagafrumvarp. Í sumar fór ríkisstjórnin í aðgerðir til þess að lækka auðlindagjald á Íslandi. Jón Steinarsson, dósent í hagfræði við Colombia-háskóla í New York gagnrýndi þessa ákvörðun harðlega og bendir á að með lækkun auðlindagjalds lækki tekjur ríkissjóðs um ríflega þrjá milljarða króna á þessu ári. Nú skulum við leggjast í smá reikningsdæmi, til gagns og gamans. Fyrir svipaða upphæð og tapast úr ríkissjóði eingöngu á þessu ári í tengslum við lækkað auðlindagjald hefði verið hægt að:
- veita Landsspitalanum framlag til tækjakaupa - 600 milljónir
- hætta við legugjald á LSH - 200 milljónir
- sleppa því að lækka barnabætur - 600 milljónir
- sleppa því að lækka lækka vaxtabætur - 169 milljónir
- sleppa því að skera niður til kvikmyndasjóðs - 400 milljónir
- halda skólagjöldum við HÍ óbreyttum - 39 milljónir
- byggja Hús íslenskra fræða - 800 milljónir
- halda framlögum til háskóla annarra en HÍ óbreyttum - 218 milljónir
- halda framlögum til lista og menningar óbreyttum - 346 milljónir
Þetta gera samtals 3,37 milljarða króna. Tölurnar eru fengnar úr fréttum af vísi.is og setja hlutina í nokkuð gott samhengi. Nú spyr ég: Hvernig getur þetta mögulega verið réttlætanleg skerðing? Hvar ætti forgangsröðunin raunverulega að liggja?