Sameinumst um það sem við erum sammála um
Því miður eyðum við allt of miklum tíma í að þrasa um hluti sem við erum ósammála um í stað þess að nýta tíma okkar og orku í það sem við erum sammála um. Ef við vinnum því framgang sem sameinar okkur á Austurlandi, styrkir það allan landshlutann svo um munar.Íbúar Austurlands eru aðeins um 3% þjóðarinnar. Við þurfum virkilega á því að halda að standa saman. En þó við séum fá þurfum við ekki að hafa minnimáttarkennd gagnvart búsetu okkar. Við getum af sanngirni sóst eftir stærri hluta skatttekna svæðisins til að bæta lífskjör og lífsgæði hér á Austurlandi.
Fyrirtæki á Austurlandi skapa um þriðjung af gjaldeyristekjum þjóðarinnar. Þegar við biðjum um sanngjarnan hlut af þeim fjármunum sem hér verða til, erum við ekki að biðja um ölmusu. Við viljum byggja upp sterkari landshluta, þar sem lífsgæði og tækifæri eru til staðar fyrir ungt fólk, svo það vilji og geti sest hér að. Þannig munum við vaxa og dafna, og skila enn meiri tekjum til samfélagsins.
En hvað eigum við að sameinumst um? Hvað er það sem getur skipt sköpum fyrir aukin lífsgæði, betri þjónustu, aukna atvinnu og að ungt fólk, börnin okkar flytji ekki í burtu?
Í mínum huga þurfum við í fyrsta lagi að sameinast um að flugvöllurinn okkar sé sú brú sem hann getur verið við höfuðborgina. Að flugfargjöld séu á sanngjörnu verði og að hann standi ekki eins og stórt ónotað bílastæði. Einnig að við fáum hingað beint millilandaflug sem færir okkur nær umheiminum og þá helst með það að markmiði að fjölga komum ferðamanna á þennan landshluta og lengja dvöl þeirra hér. Tækifærin tengd flugvellinum eru fjölmörg og með aukinni umferð og nýtingu opnast fjöldi möguleika og atvinnutækifæra.
Í öðru lagi tel ég mikilvægt að byggja upp sterka kjarna fyrir Austurland, því innan þeirra og í nágrenni við þá fjölgar fólki og þjónusta eykst. Sterkir kjarnar geta boðið upp á þjónustu sem fólk kallar á í dag; menningu, menntun, atvinnu og atvinnusköpun, samgöngur, skemmtun, afþreyingu og heilbrigðisþjónustu. Enginn staður á Austurlandi er nægilega stór og sterkur til að veita þessa möguleika og þjónustu í dag. Við þurfum að tengjast betur, við þurfum að tengjast með göngum. Með tengingu stærstu þéttbýliskjarna á Austurlandi gerum við þá að einu sterku, kjarnmiklu svæði þar sem við getum samnýtt styrkleika okkar og orðið sá kjarni sem dregur að sér og heldur í fólk. Með göngum milli Seyðisfjarðar, Mjóafjarðar, Eskifjarðar, Norðfjarðar og Egilsstaða þá erum við búin að tengja saman 85% af íbúum Austurlands. Þetta er raunhæft, þetta er gerlegt og ef við sameinumst um það mun þetta gerast.
Ef Seyðisfjörður, Egilsstaðir, Norðfjörður, Eskifjörður, Reyðarfjörður og Fáskrúðsfjörður tengjast með göngum geta þeir myndað sterka heild og orðið forsenda kraftmikils samfélag sem nýtist öllu Austurlandi. Staðirnir tengjast saman með láglendisvegi sem alltaf er opinn. Með því að draga stórlega úr vegalengdum og ófærð, er með auðveldum hætti hægt að sækja vinnu, menntun og þjónustu milli staða. Búseta skiptir minna máli. Sjúkrahúsið og flugvöllurinn sameinast, hérað og firðir sameinast, þjónustan á Egilsstöðum tengist framleiðslusvæðinu á fjörðunum og þannig verður til sterk heild sem drifið getur Austurland áfram.