Um lýðræði og samfélagsumræðu

hrafnkell larusson headshotÍ tilefni af lýðræðisviku, sem nú stendur yfir, er við hæfi að hugleiða hvað felst í lýðræði. Það fyrsta sem mörgum dettur í hug þegar þeir heyra þetta hugtak eru sveitarstjórnir og alþingi. En fulltrúalýðræðið sem við búum við, eins mikilvægt og það er lýðræðinu, er fjarri því eina grein þess.

Grunnur lýðræðisins er samræða sem byggir á þeim skilningi að við búum í samfélagi og þurfum að taka tillit til hvers annars. Ein mikilvægasta stoð lýðræðisins er tjáningarfrelsið. Í lýðræðislegu samfélagi eiga allir að hafa rétt á að koma sinni skoðun á framfæri, ekki síst þegar málefni samfélagsins eru til umræðu. Tjáningarfrelsið er þó ekki óheft, það lýtur m.a. þeim eðlilegu hömlum að fólk misbeiti því ekki til hatursáróðurs gegn einstaklingum eða hópum.

Í lýðræði á ákvarðanataka um samfélagsleg mál að vera með aðkomu margra, helst þannig að ólík sjónarmið og nálganir fái notið sín sem best. Valdið sé fólksins en ekki í höndum fárra í skjóli auðs og/eða ofbeldis. Hvort sem um er að ræða stjórnsýslu eða félagasamtök er best að umræða sé sem opnust og – ekki síður – sem yfirveguðust. Æskilegast er að hún leiði til sameiginlegra ákvarðana sem allir geta sætt sig við, en sé ákvörðun meirihluta ef ekki næst almenn sátt.

Þátttaka í samfélagsumræðu og þar með í lýðræði hefur verið að breytast á undanförnum árum. Þátttaka í formlegum félögum, þar sem fólk hittist og ræðir saman augliti til auglitis, hefur verið á undanhaldi en samræða á netinu hefur vaxið. Það hefur aukið almenna þátttöku í umræðu en í staðinn hefur umræðan orðið ópersónlegri í því tilliti að fólk tjáir sig án líkamlegrar nálægðar hvert við annað. Því miður virðist þessi samskiptamáti síst hafa leitt til aukins skilnings eða nærgætni gagnvart andstæðum sjónarmiðum. Mörgum virðist ganga illa að sýna tillitsemi þegar samskiptin fara um tölvuna, í gegnum hið skrifaða orð sem skortir þau blæbrigði sem talað mál hefur og veitir því aukið skýringargildi.

Margir láta mikið fyrir sér fara í þeirri umræðu og eru með stóryrtar fullyrðingar um menn og málefni. Það leiðir oft til að hinir hófsamari sneiða hjá þátttöku. Það er hins vegar varasamt enda skapar það hættu á að fólk verði almennt fráhverft þátttöku í almennri umræðu. Og hvaða raddir heyrast þá? Jú, öfgakenndar fullyrðingar verða þá meginlína umræðunnar því aðrar raddir heyrast ekki lengur. Í þessu felst hætta fyrir lýðræðið vegna þess að árásarkennd orðræða hefur þegar fælt hluta fólks frá þátttöku í umræðunni. Þau mál sem jafnan verður mest uppnám yfir á samskiptavefjum og kaffistofum eru samfélagsleg mál. Ef raddir hófsemdar og yfirvegunar þagna taka aðrar raddir frumkvæðið. Við megum ekki leiða hjá okkur dónaskap og yfirgang í umræðu því þá mun ekkert breytast til hins betra. Ekki heldur bíða með að tjá okkur þar til við erum orðin bálreið og látum skammirnar dynja á þeim sem til heyra. Ef það gerist höfum við breyst í þann sem skapraunaði okkur.

Við megum ekki láta deigan síga og leggja okkar af mörkum til að umræðan verði málefnaleg og yfirveguð. Ef okkur þykir einhver fullyrða of frjálslega eða vera ósanngjarn í sínum málflutningi megum við ekki líta undan og láta hjá líða. Við eigum að stíga inn og krefja viðkomandi um rökstuðning. Á honum er oft djúpt hjá þeim sem hæst láta. Við verðum styðja við þá sem setja mál sitt fram af yfirvegun og með rökum, jafnvel þó við séum ekki endilega sammála þeim. Þannig styrkjum við málefnalega umræðu. Það er hollt að heyra viðhorf annarra og bera saman við sín. Vera viðbúin því að hugsa skoðanir sínar upp á nýtt, e.t.v. skipta um skoðun ef sterk rök leggjast gegn henni eða leita betri rökstuðnings fyrir þeirri skoðun sem maður hefur.

Einn af ósiðum í umræðu fólks á meðal, sem ég veit að er nokkuð algengur t.a.m. hér eystra, er tilhneiging sumra til að nálgast umræðuna á þeim forsendum að reyna að æsa aðra upp. Tala jafnvel þvert um hug sér í von um að gera einhvern reiðan. Þessi nálgun á umræðu um alvörumál er afskaplega lágstemmd og aum. Hún er ekki til þess fallin að opna málefnalega umræðu eða auðga hana, heldur gerir þetta lítið annað en að fóðra hótfyndni einstaklinga sem lítið hafa fram að færa.

Umræða á netinu sem einkennist af hástafanotkun og upphrópunarmerkjum ber jafnan ekki vott um annað en geðshræringu þess sem skrifar og skyldi því ekki taka alvarlega. Ganga má að því nær vísu að þeir sem nota stór orð og lýsa einföldum lausnum á flóknum viðfangsefnum vita ýmist ekki um hvað þeir eru að tala eða eru að segja ósatt. Þetta er áþekkt því sem stundum hefur verið sagt, að ef tilboð er of gott til að vera satt, þá er það oftast raunin.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar