Tækni og kynslóðamunur

elin karadottirNútíminn er hraður, tæknivæddur og fjölbreytilegur. Staðreyndin er sú að samskiptamiðlar er orðin daglegur hluti af lífi fólks og þó svo að IRC-ið, MSN og MySpace hafi dáið út þá komu einfaldari og notendavænni forrit í staðin á borð við Facebook, Twitter, Instagram og Snapchat. Öll þessi samskiptaforrit hafa sína kosti og galla eins og allt annað í lífinu.

Við lifum við þann raunveruleika að ungt fólk tekur vel í þessar nýjungar og eru fljótari að tileinka sér þær heldur en þeir sem eldri eru, fyrir vikið myndast gap á milli kynslóða og skilningsleysi í garð beggja byrjar að krauma. Eldri kynslóðir eru að heltast aftur úr lestinni í hraða nútímans og skilja oft ekki þann nútíma sem unga fólkið lifir.

Þó svo að foreldrar skilji ekki tækniheim barna sinna þá er lausnin ekki að banna, skamma og hræða börn. Kennum þeim að taka ábyrgð, kennum þeim að setja sjálfum sér mörk og láta aðra vita af sínum mörkum. Kennum þeim að velja sér samferða fólk sem þau vilja hafa í kringum sig þannig að þeim sjálfum líði vel.

Eldri kynslóðir þurfa að tileinka sér þessa tækni og koma með okkur inn í framtíðina. Snjallsímar og spjaldtölvur er snilld sem auðveldar fólki lífið, en þær geta líka verið böl sem gerir lífið flóknara. Hættum að vera hrædd vegna þess að einhver einn lenti illa í einhverju, lærum af mistökum og setjum okkur mörk.

Tökum samskiptaforritið Snapchat sem dæmi. Þetta er nýtt forrit og margir ekki búnir að kynna sér hvernig það virkar. Ekki fyrir löngu síðan skrifaði móðir grein um hvernig dóttir sín lenti illa í Snapchat notkun og benti foreldrum á að fylgjast vel með börnunum sínum.

Aðdáunarvert er að sjá þessa móður stíga fram og segja söguna því þetta er raunveruleikinn. En hvernig ætlum við að takast á við þennan raunveruleika? Með því að banna, skamma og hræða börnin okkar með þessari sögu?

Nei, og aftur nei! Kennum börnunum okkar að umgangast Snapchat og aðra samskiptamiðla. Verum upplýst – fáum fólk til að sýna okkur Snapchat og lærum á það áður en við dæmum. Fyrir mér er Snapchat algjör snilld og þetta gerir mér kleift að fylgjast með vinum mínum á mjög snarpan og skemmtilegan máta.

Munum: við veljum okkur vini – þeir eru ekki þvingaðir uppá okkur. Setjum okkur takmörk – við viljum ekki sjá hvað sem er. Komum fram við náungann eins og við viljum að hann komi fram við okkur.

Ég spyr, er einhver munur á því að senda niðrandi Snapchat á nokkra vini eða skrifa niðrandi setningu á lítinn miða sem er látin ganga á milli nokkurra vina í skólastofunni sem er svo rifinn og settur í ruslið? Sá sem fékk hvorki miðann né Snapchattið veit ekki hvað stóð í þeim… ætlum við þá að banna líka blað og penna? Allt er hægt að misnota.

Kennum, lærum og förum saman inn í framtíðina.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar