Ísland unga fólksins?

dagur skirnir odinsson webÞað er eitthvað að!

Í einum af mínum daglegu netrúntum rakst ég á ansi sláandi fyrirsögn sem hljóðaði svo : „60 prósent ungs fólks íhugað flutninga“ og var þá verið að meina flutning erlendis. Þar sem ég tilheyri þeim hópi ungs fólks sem um var rætt þ.e.a.s. 18-29 ára þá fór ég að hugsa: Vil ég búa á Íslandi í framtíðinni? Svarið var eitthvað á þessa leið: Já auðvitað… en ýmislegt þarf að breytast og skýrast.

Ég held og trúi því að við viljum búa á Íslandi í framtíðinni. Til þess þarf þó eitt og annað að breytast. Þó við séum ung og flest óhörðnuð, þá getum við ekki látið bjóða okkur það að hagsmunir okkar séu trekk í trekk aftast á merinni sem kallast „forgangsröðun ríkisvaldsins.“

Mörg eigum við það sameiginlegt að vera ýmist að mennta okkur eða nýútskrifuð. Við erum hreyfanlegri en fyrri kynslóðir og fyrir mörg okkar er heimurinn allur undir. Ef okkur hugnast ekki ástandið eða horfurnar hér heima þá er fátt því til fyrirstöðu að prófa eitthvað annað, fara þangað sem launin eru hærri, atvinnutækifærin fleiri og í bónus er líklega veðrið þar betra. Hér eru nokkur mál sem ég hvet ykkur sem eldri eruð til að skoða vandlega svo við, erfingjar Íslands, höldum okkur heima við.

Húsnæðismálin

Það er mjög erfitt (ómögulegt) að fá íbúðir á höfuðborgarsvæðinu sem eru í takt við laun ungs fólks eða þá upphæð sem hægt er að fá í formi námslána. Það er einnig víða á landsbyggðinni skortur á leiguhúsnæði fyrir okkur. Varla er hægt að fá lán fyrir fyrstu íbúð og ef það tekst þá eru vaxtakjör margfalt verri en víðast hvar í Evrópu. Þetta er óþolandi.
Hjálpið okkur!

Þessi króna

Stefnt er á að nota gjaldmiðil sem í augum alheimsins er djók og hefur misst verðgildi sitt gagnvart þeirri dönsku um rúmlega 99% frá 1944. Þessi tala er því miður ekki djók, en sagan virðist ekki ætla að kenna sumum neitt. Nú verða sjálfsagt einhverjir óánægðir því ekki má tala niður krónuna.
Reyndar skiptir það ekki öllu, því við erum ekki í opnu og eðlilegu viðskiptasambandi við umheiminn. Sagan sýnir að Ísland hefur ekki á nokkrum tímapunkti haft burði (eða þekkingu) til að halda úti eigin gjaldmiðli. Ef þið sjáið það ekki, leyfið okkur þá að benda ykkur á það, það er jú þannig að héðan í frá munum við þurfa nota peninga lengur en þið.

Það að reyna að stýra skjaldarmerkinu, loðnunni og núna Jónasi Hallgrímssyni er okkur ógerlegt, nú skulum við sætta okkur við það og byrja að leita lausna.

Við erum ekki hlæjandi.

Bjargið okkur!

Förum í samstarf með öðrum ef það borgar sig

Mín kynslóð, sem erfir landið, virðist ekki mega taka afstöðu til ESB samnings sem mögulega gæti bætt lífskjör ungs fólks til framtíðar. Vissulega munu einhverjir tapa á honum, en það verður tæplega unga fólkið sem er að koma undir sig fótunum, þ.e.a.s. ef samningurinn er vel gerður. Það verða þá fyrst og fremst hagsmunaaðilar sem eru eldri og hagnast af óbreyttu ástandi. Eitthvað tapast og annað vinnst. Vextir á lánum lækka og matarkarfan sömuleiðis. Ef að samningur hentar okkur ekki, þá höfnum við honum. Það er einfalt. Við erum ekki asnar.
Treystið okkur!

Svigrúmið sem við bíðum öll eftir

Það er klárt að við vonum öll að samningar við kröfuhafa föllnu bankanna verði sem bestir fyrir Ísland. Vonandi munu þær viðræður leiða af sér að ríkisstjórnin fái pening til spilanna til að bæta hag landsmanna. En hvað er stefnt á að gera með þetta fé sem því miður er ekki enn öruggt í hendi. Á að nota það í að lækka skuldir ríkissjóðs sem er ljótur og leiðinlegur draugur af verstu sort? Nei, það á að nota það til að leiðrétta skuldir fyrri og eldri kynslóða vegna gjörða og ákvarðana manna af sömu kynslóðum. Það er sem sagt í lagi að dágóður hluti af skattinum okkar haldi áfram að fara í að greiða niður vexti af lánum ríkisjóðs. Skemmtilegt ekki sagt.

Við unga fólkið þurfum að borga hærri leigu en þekkst hefur og launin okkar ráða ekkert við það, námslánin eru enn of lág, matarkarfan hækkar og hækkar, bensínið er ekki ókeypis, heilbrigðiskerfið versnar og atvinnutækifærin eru ekki beint endalaus. Forsendubresturinn er víða. Þrátt fyrir þetta þá er það í lagi að mati ákveðinna aðila að peningur sem ríkisjóði kann að áskotnast fari í að laga ástand sumra, ekki allra.

Hvað með okkur?

Þakklætið

Ég vil þó þakka ykkur sem eldri eruð. Þið hafið séð til þess að ég hef getað menntað mig í 18 ár af ævi minni. Mínar stærstu áhyggjur þegar ég vakna á morgnana er hvort ég hef nægan tíma í að klára netið áður en ég þarf að vera mættur til vinnu. Skortur er eitthvað sem mín kynslóð þekkir varla. Ég hef alltaf talið ríkja jafnrétti hér á landi og litið þannig á að við höfum flest sömu tækifærin, byrjum kapphlaupið á svipuðum stað. Fyrir það er ég þakklátur. Þið sem eldri eruð hafið séð til þess að ég bý í landi þar sem mannréttindi eru virt. Takk.

Í grunnskólanum sem ég vinn í var verið að fjalla um hana Malala frá Pakistan. Eftir að fyrirlestrinum lauk var ég enn þakklátari fyrir að búa hér. Það eru meiri líkur en minni á að ég muni deyja annað hvort úr elli eða af völdum lífstílssjúkdóms. Ástandið hér er ekki þannig að maður er skotinn í hausinn fyrir að tjá sig opinberlega en það er ekki allsstaðar þannig. Á Íslandi er betra að búa en í Pakistan og reyndar er betra að búa á Íslandi en víðast hvar í heiminum. Er þetta þá allt saman óþarfa væl einhvers sem hefur haft það of gott? Mögulega. Hins vegar eru landflótti ungs fólks og spekileki alvöru ógn gagnvart Íslandi. Haldið þið að Ísland verði áfram jafn frábært og við trúum að það sé, ef við missum okkar hæfasta fólk?

Koma svo!

Sýnum það í verki að okkur sé alvara með að gera Ísland samkeppnishæft. Gerum það sem við getum til að halda í fólkið sem er að feta sig út í lífið, ungt fólk sem á auðvelt með að yfirgefa túnfótinn.

Styrkjum innviðina, auðveldum ungu fólki aðgengi að húsnæði sem kostar ekki yfirdrátt og bömmer um hver mánaðarmót. Mörkum skýra stefnu í gjaldmiðlamálum svo við höfum meiri hugmynd um hvernig það verður að búa á Íslandi eftir fimm, tíu eða fimmtán ár. Segið okkur nákvæmlega hvert við stefnum og hvers vegna við eigum að taka þátt í því? Hjálpið okkur að vilja búa á Íslandi um aldur og ævi.
Sannfærið okkur!

Þið sem eldri eruð , ég veit að þið viljið vel. Lítið á þetta sem hvatningu til þess að gera Ísland að betri stað fyrir alla, líka okkur unga fólkið.

Ekki gleyma okkur!

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar