Er erfðabreytt eitur?

egill gunnarsson mars2012Í seinni tíð hefur ákveðin gerð heimildamynda, sem eru gerðar með afþreyingar- fremur en upplýsingagildi í huga, notið vaxandi vinsælda. Má þar nefna Super Size Me, Stupid White Men og Food Inc.

Heimurinn er ekki einfaldur. Það að gúggla hluti sem eru hagsmunatengdir eða umdeildir getur verið tvíbent. Oft er erfitt að dæma um gæði og áreiðanleika upplýsinga enda getur hver sem er sett fullyrðingar á netið.

Sama gildir um hinar svokölluðu heimildamyndir. Þær eru mjög misjafnar og fræðslugildið oft aukreitis enda gjarnan spilað á tilfinningar fólks. Þær gera einn aðila mjög tortryggilegan, „bjargvættir" fá drottningarviðtöl og aðeins upplýsingar sem henta eru framreiddar eða fyrirliggjandi upplýsingar afbakaðar.

Guð minn góður

Nú á dögunum var sýnd á kvikmyndahátíð í Reykjavík myndin GMO OMG. Á okkar ylhýra, EBM GMG (Erfðabreytt matvæli - guð minn góður). Hún var svo tekin til sýninga á Austurlandi.

Í myndinni tekur Jimmy Seifert fyrir hagmuni stórfyrirtækja og sofandahátt stjórnvalda þegar kemur að erfðabreyttum matvælum (EBM). Hann finnur raunar EBM allt til foráttu og myndgerir það með því að senda börn í efnavarnarbúningum inn í maísakur því uppskeran sé „eitruð". Hann sagði í viðtali að hann vildi ekki kafa um of í vísindalega þætti málsins. Það ætti að kveikja á nokkrum viðvörunarbjöllum.

Seifert fullyrðir að heilsufarslegt öryggi EBM sé mjög umdeilt mál... sem er vafasöm fullyrðing. Hann fullyrðir að Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) sé meðal þeirra sem setji spurningamerki við EBM. WHO hefur aftur á móti verið frekar einörð í afstöðu sinni gagnvart EBM og tekið fram að engin áhrif á heilsu hafi fylgt neyslu á EBM.

Aðrir hafa verið ennþá afdráttarlausari í afstöðu sinni til dæmis Britain's Royal Society of Medicine sem segir EBM ekki hafa nein neikvæð áhrif á heilsufar.Fjöldi annarra háskóla, eftirlitsstofnana og rannsóknarstofa eru á sama máli. Nú síðast var það European Academies Science Advisory Council (EASAC) sem tók fram að 90% rannsókna væru ekki fjármagnaðar af iðnaðinum.

Leikstjórinn blandar eigin persónu í málið með að nota börnin sín sem leikmuni. Það er í takt við það sem sést víða í pistlum og umræðum gegn EBM: „Hver á að hugsa um börnin?". Strákarnir borða ís í myndinni. Faðirinn spyr þá hvort hann sé góður jafnvel þó hann sér úr erfðabreyttum afurðum? Svo kemur ræða um að eftir fjölda ára muni þessi tiltekni ís hafa alvarleg áhrif á heilsu þeirra vegna EBM.

Rannsóknir sýna skaðleysi EBM

Fólk sem neytir EBM fær sjúkdóma eins og annað fólk. En það er ekki hægt að sanna það sem er ekki til. Það er búið að neyta EBM afurða í yfir 20 ár og menn geta litið á gögnin. Það gerir Seifert ekki.

Í stað þess vekja hjá áhorfendum reiði og ótta, hefði Seifert getað vísað til heimilda. Hann hefði þá komist að því að hið svokallaða Bt „eitur" sem er í erfðabreyttum nytjaplöntum er próteinsameind í plöntunni sem er einungis skaðleg ákveðnum skordýrum. Það er því mjög sérvirkt og með öllu skaðlaust fyrir menn og umhverfi. Bt varnarefni hafa verið notuð alla 20. öldina og sérstaklega í lífrænni ræktun. Bt nytjaplöntur fá minni ágjöf af plöntuvarnarefnum en áður tíðkaðist.

Í myndinni er mikið gert úr notkun Roundup (Glyphosate) og skaðsemi þess.

Það ber að forðast varnarefnanotkun en veruleikinn utan okkar litla kalda lands er sá að notkun varnarefna er óumflýjanleg ef ekki á að verða verulegur uppskerubrestur. Lífræn ræktun er þar ekki undanskilin. Roundup er því skásti kosturinn enda brotnar það hratt niður, er ekki þrálátt og er einnig mörgum sinnum skaðminna en til dæmis Atrazine sem það kom í staðinn fyrir.

Staðreyndin er sú að EBM eru mest rannsökuðu matvæli sem fyrirfinnast. Samt heyrist iðulega að EBM hafi ekki verið rannsakað eða að einungis stórfyrirtæki hafi framkvæmt þær rannsóknir. Þetta er ekki rétt. Rannsóknir sýna að EBM er skaðlaust og Seifert hefði átt að lesa nokkrar þeirra.

Hjálpar ekki að vitna í vond vísindi

Í myndinni er einblínt á eina rannsókn sem sýnir aðra niðurstöðu (minnir á aðrar vigstöðvar vísindanna). Rannsóknin er kennd við Gilles-Eric Séralini og hefur verið hafnað af opinberum eftirlitsstofnunum. Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) sagði að rangar tölfræðigreiningar væru notaðar, uppsetning tilraunarinnar hafi verið vond og engar ályktanir væri hægt að draga af niðurstöðum hennar. Úr niðurstöðunum má reyndar lesa að það lengi líf karlkyns spendýra að drekka Roundup. Ég mæli þó ekki með því við nokkurn mann. Að vitna í vond vísindi mun bara hjálpa alþjóðlegum stórfyrirtækjum sem sömu aðilar vilja verja okkur gegn.

Minnst er í myndinni á að illgresi myndar viðnám gegn Roundup. Það gerist óhjákvæmilega með tímanum og á við um öll varnarefni og ný afbrigði nytjajurta. Það er kallað þróun. Það er hins vegar engin ástæða til að kalla viðnámsþolið illgresi „ofurillgresi" eða líta á það sem heimsendi. Menn hafa sífellt barist við þetta vandamál og EBM plöntur hafa reynst góður kostur í þeirri baráttu.

Fullyrt er að EBM leiði af sér algjöra einræktun (monoculture), það er ekki meira en gerist nú þegar í iðnvæddum landbúnaði. EBM notar aðferðir líffræðilegrar fjölbreytni til að verjast viðnámsmyndun. Hlutfall af útsæði Bt-plantna er haft óerfðabreytt svo skordýr þrói síður með sér viðnám.

Hvað með hagsmuni lífræna iðnaðarins?

Mergur málsins er sá að mikið er af upplýsingum, slúðri, greinum og flökkusögum svo ekki er auðvelt að vita hverju á að trúa. Hagsmunir í landbúnaði og matvælaiðnaði eru miklir og flóknir. Iðulega er bara einn hagsmunaaðili dreginn fram, yfirleitt alþjóðleg fyrirtæki á borð við Mansanto sem hafa hag af að selja framleiðslu sína.

Eftirlitsaðilar (oft einkareiknar greiningastofur) eru annar hagsmunaaðili en það er þeirra hagur að ákveðnar hömlur og eftirlitsskylda sé á þessum flokki matvæla. Ekki má gleyma þeim sem flytja inn, framleiða og selja náttúrulegar og lífrænar vörur.

Til þess að ná stærri markaðshlutdeild fyrir sínar vörur eru þeir aðilar mjög duglegir við að skapa tortryggni og vantrú á nýja tækni og vísindi. Seifert er líka í mun að dreifa mynd sinni sem víðast. Það er grátbroslegt að sjá vísindamenn úr opinberum háskolum stimplaða sem hagsmunaaðila á meðan þeir sem hafa hag af lífræna iðnaðinum sleppa stikkfrí.

EBM er ekki töfralausn sem leysir öll okkar vandamál á einni nóttu. Það er þó ábyrgðarlaust að hafna henni því hún veitir okkur fleiri möguleika. Fyrst verður að innleiða hlutleysi og raunsæi sem markmið okkar í umræðunni, ólíkt því sem Jimmy Seifert gerir í GMO OMG.



Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.