Fjöldi hugmynda um bætta byggð eftir íbúaþing á Breiðdalsvík
Tveggja daga íbúaþingi á Breiðdalsvík lauk síðdegis á sunnudag. Um 40 Breiðdælingar voru á íbúaþinginu lengst af báða dagana og sá sem þessar línur skrifar er þess fullviss að íbúar Breiðdalshrepps, sem þingið sátu, séu mjög ánægðir með hvernig til tókst og kom það vel fram í lokaorðum þátttakenda.Íbúaþingið var liður í verkefni sem kallast Brothættar byggðir. Með því er átt við byggðarlög sem átt hafa við viðvarandi fólksfækkun að etja á síðustu árum, ekki síst í yngri aldurshópum. Tilgangurinn nú er að íbúar leggi fram hugmyndir sínar og ræði þær í hópum eftir áhugasviðum hvers og eins og í framhaldinu verði forgangsraðað þannig að þær hugmyndir, sem mestur áhugi er á fari í frekari úrvinnslu hjá sérstökum starfshópi.
Þátttakendur á þinginu mótuðu sjálfir dagskrána. Þarna var allt undir, hvort sem það voru atvinnumál, umhverfismál eða málefni samfélagsins og þar með framtíð Breiðdalshrepps. Þingið er þannig skipulagt að allir hafi jafna möguleika á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri.
Ánægjulegt er að segja frá því að nærri 20 hugmyndir voru lagðar fram af þátttakendum og flestar þeirra ræddar ítarlega í hópum, sem menn völdu sér eftir áhugasviði hvers og eins.
Sem dæmi má nefna ýmsar hugmyndir varðandi atvinnumál, matvælavinnslu, að koma upp slippi fyrir smærri báta, stoppistöð ferðamanna og göngustíga á Breiðdalsvík og í tengslum við útsýnisstaði í Breiðdalshreppi, einnig málefni gamla kaupfélagsins og Breiðdalsseturs.
Einnig var rætt um umhverfismál og bætta umgengni, útsýnisskífu, rafræna leiðsögn fyrir gesti og gangandi, flutning opinberra starfa til Breiðdalsvíkur og minningarstofu um sr. Einar Sigurðsson prest í Eydölum. Hér nefni ég aðeins hluta þeirra tillagna sem lagðar voru fram í starfshópunum.
Íbúaþingið var samvinnuverkefni ýmissa stofnana, má þar nefna Byggðastofnun, Austurbrú, Samband sveitarfélaga á Austurlandi og svo að sjálfsögðu Breiðdalshrepp og íbúa í Breiðdal.
Yfirumsjón hafði Sigurborg Kr. Hannesdóttir, sem hefur mikla reynslu af því að skipuleggja íbúaþing sem þessi, en með henni voru einnig sérfræðingar Byggðastofnunar, þau Sigríður K. Þorgrímsdóttir og Jóhann Arnarson og Ólafur Áki Ragnarsson sem er fulltrúi sveitarstjórnarmála hjá Austurbrú.
Það var mat íbúa Breiðdals, sem þátt tóku að þingið væri vel skipulagt, fyrirkomulagið væri markvisst, en þó þannig að andrúmsloftið var afslappað.
Í lokin hvöttu menn hverjir aðra til dáða, mikilvægt væri að byggja framhaldið á þeirri samstöðu sem fram kom meðal íbúanna og allir vildu leggja sitt af mörkum, þannig að hægt væri að horfa björtum augum á framtíð í atvinnu- og umhverfismálum byggðarlagsins, jafnframt því að byggja upp samstöðu og virkja samtakamátt íbúanna og þar með að bæta samfélagið í Breiðdal.
Nú fara valin verkefni í frekari úrvinnslu og í janúar 2014 koma þátttakendur aftur saman til að fara yfir hvernig til hefur tekist. Það verður spennandi!