Að afloknu herhlaupi
Sævar Sigbjarnarson frá Rauðholti skrifar um málefni Palestínu:Kæru lesendur, ég ætla að biðja ykkur að deila með mér nokkru af sorg minni, sem magnast hefur við flesta fréttatíma síðan á þriðja jólum, þegar Ísraelsmenn hófu þá aðför að Palestínumönnum sem nú er um garð gengin. Það er að segja, aðför að því broti af palestínsku þjóðinni sem hefur í nokkra áratugi verið afkróuð í suðvesturhorni Palestínu niður við Miðjarðarhafið við landamæri Egyptalands.
Ég tel að þetta herhlaup hafi verið löngu ákveðið, en á þessum tíma hafi Ísraelar talið það áróðurslega vel undirbúið. Búið að storka íbúum Gasa með því að neita þeim um alla frjálsa aðdrætti og samgöngur við umheiminn, meira og minna í eitt og hálft ár, þrátt fyrir vopnahlé af hendi Hamas. Þá er auðvelt að kalla fram það eina andsvar sem þessi fangahjörð hefur til að láta vita af sér, eftir að hver einasta krafa þeirra um mannréttindi hefur verið hunsuð. Það er að senda einhvers konar rakettur, sem kölluð eru flugskeyti, yfir fangelsismúrana til Ísrael.
Og þá kom réttlætingin sem óskað var eftir fyrir fangaverðina, Ísraelsmenn: ,,Við liggjum undir stöðugum árásum.”
Þó hernaðarmáttur Ísraela hafi alltaf verið ótrúlega mikill er þó áróðurstækni þeirra og máttur sýnu meiri. Í 60 ár hefur þeim tekist að sannfæra heiminn um að þeir séu að leita eftir friði, en séu þó í stöðugri sjálfsvörn. Sennilega hafa þeir á hverju ári einu sinni eða oftar sest að samningaborði með einhverjum fulltrúum Palestínumanna en jafnan reynt að niðurlægja viðsemjendur sína sem mest.
Ég minnist þess, þegar Arafat náði eyrum nokkurra valdamanna og var í forsvari fyrir Palestínu. Fyrst í útlagastjórn í Túnis, síðan fyrir svokallaða heimastjórn, þá gerðist það margsinnis að drepinn var einn og einn af nánustu samstarfsmönnum hans í eldflaugaárásum.
Eg minnist þess þegar augu mín opnuðust til fulls fyrir hinu algera siðleysi, sem kom fram í því, að gerð var árás á Arafat og fylgdarlið hans á leið til friðarsamninga við Ísraela. Sennilega muna einhverjir líka eftir því að sjá myndir af stjórnarbyggingu hans hálfhrundri eftir eldflaugaárás. Þó gyðinga dreymi að sjálfsögðu um frið eins og aðra menn, er ljóst að samningar henta þeim ekki fyrr en þeir hafa náð að hrekja þá í burtu sem bjuggu á landi því sem þeir töldu frá upphafi að væri þeirra fyrirheitna land. Með margs konar aðferðum og mörgum stríðum hefur verið kreppt að því fólki sem þarna bjó, og haldið áfram að múra það inni í einskonar útrýmingarbúðum.
Áratug eftir áratug höfum við heyrt hliðstæðar röksemdir. Ég minnist einhverju sinni þegar Arafat var í forystu fyrir Palestínumenn, að hann var stöðugt sakaður um að hafa ekki aga á sínum mönnum og gert var herhlaup inn á Vesturbakkann. Þá eins og nú var byrjað á að sprengja allar lögreglustöðvar. Þá vaknaði spurningin: Er líklegra að Palestínumenn hafi hemil á hefndarverkamönnum sínum, ef ekki er nein virk löggæsla í landinu?
Bandaríkin hafa líka lagt núverandi forseta Palestínu til sérstaka fjárveitingu til þess að berjast við Hamasmenn á Gasa.
Að mylja niður allt innra stjórnkerfi Palestínu, magna innri deilur og átök með Palestínumönnum hefur augljóslega verið höfuðmarkmið þeirra Zionista, sem ráða hafa förinni í Ísrael og Bandaríkjunum.
Fullvissa á fjölda ára
Í þessu herhlaupi eins og löngum áður hefur erlendum fréttamönnum verið bannað að fara inn á svæðið og flestar fréttir því litaðar af afstöðu árásaraðilans. Þó margt væri þar kænlega sviðsett, voru þó frekar illa dulbúnar fréttir af hörðum bardögum eftir að landher þeirra réðist inn á Gasa. Hvernig geta bardagar verið harðir þar sem aðeins annað liðið berst með vopnum? Vafalaust hafa einhverjir byssuhólkar verið í höndum Hamasmanna, en mannfallið talar skýru máli, meira en 100 á móti 1 (ath. 3 af 13 föllnum Ísraelum féllu fyrir vopnum samherja.) Svo er það stór spurning þar sem ekki eru neinir fréttamenn: Hver telur þá sem deyja úr hungri og þorsta? Hver vissi hvað voru margir grafnir í rústum? Mér þykir líklegt að tvöfalda mætti uppgefnar tölur, jafnvel tífalda.
Einhver kann að spyrja: Hvað er maðurinn að þusa? Er þetta ekki um garð gengið?
Kæru lesendur! Fátt er mér ógeðfelldara en getsakir, Einhverjum mun samt þykja sem ég ástundi þær hér að framan. En svo margar stoðir geta runnið undir grunsemdir manns, að þær verði að fullri vissu á minna en 60 árum. Og nógu mikil raun hefur mér verið að hlusta daglega á lýsingar á þjóðarmorðinu á Gasa, þó ég láti ekki gott heita að purpuraslæður lyginnar séu breiddar yfir allan óhugnaðinn.
Það sem skiptir máli nú, er að láta ekki þögnina og úrræðaleysið falla yfir á meðan verið er að efna í næsta herhlaup.
Vorum við ekki að bjóða okkur fram til setu í Öryggisráðinu? Og víst erum við aðilar að SÞ. svo við hljótum að bregðast við niðurlægingu þeirra.
Minnumst þess sem gerðist í Líbanon fyrir 3 – 4 árum. Nokkurra vikna herhlaup, þar sem smáríki norðan við Ísrael var lagt í rúst með sprengjuregni og margskyns manndrápum. Í lokin var klasasprengjum dreift yfir það landið, sem hver um sig geymir fjölda smásprengja sem dreifast um og bíða færis að einhver stigi á þær.
Dettur einhverjum í hug, að fólkinu sem byggir Ísraelsríki, sé greiði gerður með því, að samþykkja slíkar gerðir með þögninni?
Þá eins og nú kom utanríkisráðherra USA, Condoleezza Rice við hjá skjólstæðingum sínum í Ísrael og þá eins og nú tók hún ástandinu með ró og sagði brosandi við fréttamenn að þetta myndi ganga yfir á nokkrum dögum. Hvað þýðir þetta? Jú, Bandaríki Norður-Ameríku skrifa upp á að Gyðingar ljúki herhlaupum sínum.
Á sama hátt hafa þau komið í veg fyrir að Ísraelsmenn gegndu fyrirmælum S.Þ. um að skila herteknu landi eða færu að neinu eftir alþjóðalögum.
Nú þegar búið er að rústa miðstöð Flóttamannhjálpar SÞ á Gasa, og fjölda af sjúkrahúsum og skólum, er fáránleikinn kórónaður með yfirlýsingu frá Ísraelsmönnum um að þeir ætli að stjórna uppbyggingunni á Gasa.
Stór skriða getur byrjað með því, að lítil þúfa losni upp. Nú er jarðvegurinn gljúpur eftir stórviðrið. Og það gæti einmitt verið hin minnsta þjóð sem ætti að taka frumkvæði. Það kviknaði líka óvænt vonarglæta þegar tyrkneskur valdamaður setti fram kröfu nýlega um að Hamashreyfingin yrði tekin gild sem samningsaðili.
Ég er þess fullviss og hef oft sannreynt að ég á marga skoðanabræður og systur í þessum málum. Látum ekki eldinn sem heimtar réttlæti kulna.
Sævar Sigbjarnarson frá Rauðholti
,,Ef ég skil söguna rétt byrjuðu Zionistar (sérstök trúarhreyfing Gyðinga) að hvetja til þess fyrir rúmlega 100 árum að Gyðingar stofnuðu sitt eigið ríki á því landi sem guð gaf þeim í árdaga samkvæmt þeirra túlkun á gömlum ritningum. Samúð heimsins var svo sannarlega með Gyðingum í sríðslokin, eftir að allir vissu um útrýmingarbúðir Nazista. Og Sameinuðu þjóðirnar samþykktu stofnun ríkis þeirra árið 1947, - en án samþykkis þeirra sem bjuggu á landinu fyrir eða næstu nágranna þess. Þegar stofnun hins nýja ríkis Gyðinga var orðin staðreynd ári síðar, sögðu heimamenn því stríð á hendur, en lutu í lægra haldi og strax þá bættu Gyðingar drjúgt við það land sem þeim hafði verið úthlutað.“