Á að bíða í aðra 106 daga spyrja mótmælendur

Í dag var mótmælafundur í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum, annan laugardaginn í röð. Um 80 manns sóttu fundinn. Frummælendur voru þau Guðveig Eyglóardóttir bóndi og Þórður Mar Þorsteinsson menntaskólakennari.

Ráðherrum ríkisstjórnarinnar var öllum boðið til fundarins með almenningi á Egilsstöðum. Björn Bjarnason svaraði einn ráðherra og vísaði til fyrri samskipta sinna við fundarhaldara, sem kallað hefði hann fasista. Hann myndi því ekki koma. Þá svaraði aðstoðarmaður heilbrigðisráðherra því að ráðherrann hefði nóg á sinni könnu og kæmist ekki.

vefur_meginmynd.jpg

Væntanlega verður boðað til kosninga 9. maí n.k., eða eftir 106 daga, sem eru næstum jafnmargir dagar og frá því bankarnir hrundu. Skipuleggjandi mótmælafundarins spurði hvort fólk ætlaði að sætta sig við 106 daga í viðbót af vanhæfri ríkisstjórn.

 

guveig_eyglardttir.jpg

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Flengið þá hvern með öðrum! 

,,Samþykkt hefur verið að skerða lífskjör barna þessa lands með því að setja þau í ævilangan þrældóm,“ sagði Guðveig í ræðu sinni. ,,Stafla fullorðnu fólki landsins í kojur á stofnunum, loka  heilbrigðisstofnunum og þar fram eftir götunum. Þetta eru klárlega mannréttindabrot. Ég borga ekki og ég þarf ekki að borga. Það er ekki íslenska þjóðin sem er gjaldþrota. Ég geri þá kröfu að geta treyst ríkisstjórn landsins og vil geta treyst Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum. Það traust mun ekki koma meðan sama siðblinda og spillta liðið er við stjórnvölinn og hefur að eigin mati staðið sig vel í starfi. Ég segi: Burt með þetta lið allt saman. Handtakið gjaldþrota, siðblinda viðskiptaglæpamenn þjóðarinnar og flengið þá hvern með öðrum!“

 rur_mar_vefur.jpg     Sendi Geir baráttukveðjur

Þórður Mar hóf ávarp sitt með því að senda forsætisráðherra baráttukveðjur og sagðist telja að það gerðu allir viðstaddir, þrátt fyrir ástandið.

,,Okkur venjulegu fólki er misboðið vegna þess að allt í einu erum við orðin skuldugasta þjóð heims án þess að hafa svo mikið sem hreyft legg eða lið til að lenda í þeirri stöðu,“ sagði Þórður Mar. ,,Það voru nógir aðrir sem sáu til þess að við lentum í þeirri stöðu. Það voru stjórnmálamennirnir, sem sögðu einn daginn að við tækjum aldrei yfir skuldbindingar fjárglæframanna. Það voru stjórnmálamennirnir sem viku seinna skrifuðu undir skuldaviðurkenningu upp á sexhundruð og fimmtíu milljarða. Það  voru ráðherrarnir sem einn daginn sögðu að bankakerfið væri í fínu lagi en örfáum vikum seinna voru allir helstu bankar landsins komnir úr höndum auðjöfranna og í ríkiseigu. Það var forsætisráðherra sem sagði að kreppan myndi ekki lenda á almenningi. Það voru stjórnmálamennirnir sem létu afskiptalaust framferði auðjöfra, sem skákuðu í skjóli ofurtrúar á frelsi og markað. Það voru auðjöfrarnir sem reistu sér glerturna og hátimbraða sumarbústaði, stunduðu einkaþotuflug og kaup á fótboltaliðum sér til skemmtunar. Það voru auðjöfrar, sjálftökuliðið, sem gátu aldrei tapað á hlutabréfakaupum og bjuggu til skúffufyrirtæki til að hylja slóðir spillingarinnar. Það var sjálftökuliðið sem skammtaði sér ofurlaun vegna mikillar ábyrgðar en ber svo enga ábyrgð á hruninu að eigin mati. Það var sjálftökuliðið sem seldi vinum sínum og sjálfum sér eigin fyrirtæki aftur og aftur og alltaf urðu fyrirtækin verðmætari með hverri sölunni á fætur annarri. Þetta er fólkið sem sökkti Íslandi í skuldafen og þetta er fólkið sem ætlar að endurreisa landið á ný. Er það undarlegt  að þjóðin fari fram á réttlæti, kalli á kosningar og að fólk axli sína ábyrgð?“

mtmli_vefur.jpg

Þórður Mar sagðist telja að ekki nægði að skipta um ríkisstjórn og að kosningar læknuðu ekki öll mein. Sú stund væri runnin upp að Íslendingar þyrftu að ræða grundvallaratriði í stjórnskipan landsins. Breytinga sé þörf á kosningakerfinu, flokkakerfinu og þar á meðal sporslukerfi flokkanna. Það mikilvægasta af öllu væri þó að skipta ríkisvaldinu með greinilegri hætti í þrennt. Að hver grein þess virki sem stuðpúði á hinar. Það verði að greina betur milli löggjafarvalds og framkvæmdavalds á Íslandi. Ráðherrar hafi alltof mikið vald meðan þeir eru jafnframt alþingismenn. Alþingi sé undir járnhæl framkvæmdavaldsins. Þessu verði að breyta.

eldur__lofti_vefur.jpg

 

 

 

 

 

 

 

Ljósmyndir/Steinunn

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar