Að hvetja eða letja til lesturs

Elma Guðmundsdóttir skrifar:

Ég er ein þeirra sem nota bókasafnið mjög mikið og hef alltaf gert. Hugsa að ég hafi byrjað að nota safnið um 10 – 12 ára aldur og allar götur síðan. Mikið vatn er til sjávar runnið síðan þá og margt breyst til batnaðar og er þá fyrst að telja glæsilega aðstöðu sem safnið er nú loksins komið í. Meiri bókakostur er nú fyrir hendi og meira segja tölva á staðnum fyrir gesti.

bkur_vefur.jpg

En eitt hefur ekki breyst til batnaðar en það er opnunartími safnsins. Hann er svipaður eða minni en hann var fyrir hálfri öld, eða 14 tímar á viku. Það er ekkert gert til að laða fólk að safninu, frekar mætti segja, til að vera mjög neikvæð, að reynt sé að halda fólki frá safninu ef litið er á opnunartímann. Vinnandi fólk hefur heilar tvær klukkustundir í viku hverri til að ná sér í lesefni, sá tími er á milli fimm og sjö á mánudögum. Þrjá aðra daga er safnið opið milli klukkan tvö og fimm. Sem sagt ekki fyrir vinnandi fólk.

 Safnamál í ólestri 

Í heild má segja að safnamál í Neskaupstað séu í ólestri og er mér þá fyrst hugsað til skjala- og myndasafnsins. Minjasafn er ekkert til þó ég viti að mörgum munum hafi verið haldið til haga en þeir svo sennilega týnst eða eru orðnir ónýtir vegna ófullnægjandi geymsluaðstöðu. Hið einstæða og merkilega ljósmyndasafn Björns Björnssonar sem Neskaupstaður fékk að gjöf á 50  ára afmælinu að mig minnir, ætti fyrir löngu síðan að vera komið upp, bæjarbúum og gestum til yndis og ánægju. Þakka má þó fyrir að Guðmundur Sveinsson hefur verið ráðinn að safninu og Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað gaf nýlega myndarlega fjárhæð til að kaupa búnað til að koma myndasafninu á netið

 Dýrt að vera fátækur 

Það er dýrt að vera fátækur og þrátt fyrir fögur fyrirheit hafa safnamálin í Neskaupstað orðið útundan. Áherslur hafa verið lagðar á aðra þætti. Til að sveitarfélagið njóti sannmælis skal nefnt að safnahúsið að Egilsbraut 2 er til fyrirmyndar og ber að þakka fyrir Tryggvasafn, Sjóminjasafn Jósafats og Náttúrugripasafnið.

Ég gat þess í upphafi að bókasafnið væri nú loksins komið í glæsilega aðstöðu og að þar væri meira að segja tölva til nota fyrir safnsgesti. Ég verð þó að geta þess að á henni er nær alltaf miði sem á stendur: BILUÐ.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar