Orkumálinn 2024

Á réttri leið

Það er gömul saga og ný að forsenda blómlegrar byggðar er öflugt og fjölbreytt atvinnulíf.

Aukin umsvif á fasteignamarkaði í Múlaþingi, þróun húsnæðisverðs og ásókn í byggingarlóðir, hvort sem litið er til íbúðar eða atvinnuhúsnæði, er til marks um jákvæða þróun í sveitarfélaginu.

Í Múlaþingi njótum við þess að atvinnulíf er af mörgum toga og má þar nefna t.d. öfluga verktakastarfsemi, iðnað, útgerð og fiskvinnslu, laxeldi, verslun- og þjónustu, landbúnað, menningarstarfsemi, ferðaþjónustu og áfram mætti telja. Allt þetta leggur grunninn að verðmætasköpun og bættum búsetuskilyrðum á sveitarfélaginu sem hefur alla möguleika til að eflast og dafna enn frekar.

Eitt af megin hlutverkum sveitarfélagsins er að styðja við atvinnulífið. Það verður best gert með því að stuðla að athafnafrelsi einstaklinga og fyrirtækja svo að frumkvæði og elja fái notið sín. Leggja ber áherslu á stuðning við nýsköpun og leita leiða til að einfalda og stytta verkferla og leyfismál þar sem því verður við komið. Um leið er ekki er síður mikilvægt að starfsfólk rótgróinna atvinnufyrirtækja, sem lagt hafa mikið til samfélagins á liðnum árum, upplifi öflugt bakland í heimabyggð.

Vinnumarkaðurinn tekur sífelldum breytingum en þær breytingar sem eru framundan eru líklega meiri og hraðari en við höfum kynnst fram að þessu. Af því tilefni má rifja upp að í byrjun 20. aldar störfuðu u.þ.b. 80% landsmanna við landbúnað og fiskveiðar en árið 2010 var hlutfallið komið niður í 6 %.

Stór hluti nemenda í grunnskólum landsins nú mun sem fullorðið fólk bera starfsheiti sem við þekkjum ekki í dag. Í skýrslu nefndar um Ísland og fjórðu iðnbyltinguna er gerð grein fyrir mögulegum breytingum á íslenskum vinnumarkaði. Þar kemur fram að á næstu 10-15 árum muni allt að 28% starfa á vinnumarkaði breytast verulega eða hverfa alveg, 58% verða fyrir talsverðum breytingum vegna aukinnar sjálfvirknivæðingar og að einungis 14% þeirra starfa sem við nú þekkjum verði óbreytt frá því sem nú er.

Í Múlaþingi stöndum við frammi fyrir spennandi verkefnum í atvinnumálum. Á Seyðisfirði er brýnt að bregðast við sem fyrst í ljósi aðstæðna. Niðurstöður nýrrar úttektar á stöðu atvinnumála þar verða kynntar fljótlega. Annars staðar í sveitarfélaginu þarf einnig að stuðla að aukinni uppbyggingu hvort heldur er á Borgarfirði eystri, Djúpavogi eða á Fljótsdalshéraði þar sem mikil tækifæri bíða.

Í þeirri vinnu sem framundan er þurfum við að nálgast verkefnin með opnum huga. Við þurfum að nýta þær auðlindir sem við höfum yfir að ráða með ábyrgum hætti. Síðast en ekki síst þurfum við að búa yfir sveigjanleika til að takast á við síbreytileg og algerlega ný verkefni með hagsmuni íbúa að leiðarljósi. Þannig tryggjum við best framtíðarhagsmuni Múlaþings.

Höfundur er forseti sveitarstjórnar Múlaþings

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.