Á að setja landsbyggðina í aftursætið?

erla_ragnarsdottir_exdukkulisa.jpg
Kveikjan að þessum skrifum er umfjöllun Fréttablaðsins frá því á laugardag um könnun MMR, sem gerð var snemma í desember síðastliðnum. Þátttakendur voru m.a. spurðir að því hvaða stjórnmálaflokki þeir treystu best til þess að leiða fimmtán mismunandi málaflokka.

Þar kom fram að viðhorf landsmanna gagnvart flokkunum hafði breyst töluvert frá árinu 2009, traustið á stjórnarflokkunum tveimur hafði hrapað á meðan flestir bera traust til Sjálfstæðisflokksins í öllum helstu málaflokkum, eða um 41% þeirra sem svöruðu.  Niðurstöðurnar eru í takt við þá strauma sem ég hef fundið fyrir á ferð minni um Norðausturkjördæmi undanfarnar vikur.

Það sem vekur hins vegar undrun mína er að þrátt fyrir neyðarástand í heilbrigðiskerfinu þá virðast sumir landsmenn enn bera traust til Samfylkingarinnar til að sinna þessum málaflokki. Í mínum huga eru þetta stórtíðindi því flestir gera sér grein fyrir því að ástandið í heilbrigðiskerfinu er grafalvarlegt.
 
Harka er kominn í kjarabaráttu hjúkrunarfræðinga og virðist stefna í upplausnarástand víða á sjúkrastofnunum landsins. Að einhverju leyti má kenna glórulausum einleik og taktleysi sitjandi velferðarráðherra um ástandið. Það hefði verið heppilegra að skoða launamál starfsmanna á sjúkrastofnun heildstætt í stað þess að bjóða sitjandi forstjóra einum rausnarlega launahækkun. 

Með háttsemi sinni hunsaði ráðherrann stöðu annarra hópa sem þurfa að sæta kjörum og vinnuaðstöðu sem er langtum verri en í þeim nágrannalöndum sem við viljum bera okkur saman við. Á meðan ríkisstjórnarflokkarnir sýna eins slælega tilburði við að leysa vandann, eins og raun ber vitni, vex vandamálið.
 
Það er aðdáunarvert að sjá hvernig heilbrigðisstarfsfólk heldur áfram að sinna sínum störfum samhliða kjarabaráttu sinni og lætur þar með ekki virðingarleysi ráðherrans slá sig út af laginu. Tækjakostur heilbrigðisstofnananna er rýr, viðhald húsnæðis í lágmarki, bið eftir sértækum aðgerðum og jafnvel almennri læknaþjónustu lengist og almenn rekstrarstaða þessara stofnana er bágborin.
 
Núverandi staða endurspeglar 20% niðurskurð ríkisstjórnarinnar í málaflokknum á síðastliðnum árum og glórulausa ofurskattastefnu sem hrakið hefur suma heilbrigðisstarfsmenn úr landi og gert aðra að hálfgerðum faraldsverkamönnum. Loforð ríkisstjórnarinnar eru stjórnarliðum gleymd og ef einhverjar leifar voru eftir af skjaldborginni þá fuku þær með norðanlægðunum í upphafi árs. 

Niðurskurðurinn í heilbrigðismálum hefur bitnað hart á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Í nýlegri grein í Akureyri – Vikublaði bendir Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu á Akureyri, á mikilvægi þess að líta ekki á nýtt hátæknisjúkrahús sem eitthvert eyland. Nauðsynlegt sé að horfa til heilbrigðiskerfisins í heild sinni þegar horft er til framtíðar. Annað skerði verulega samkeppnisstöðu sjúkrahúsanna úti á landi, því bæði starfsfólk og sjúklingar, hvar sem er á landinu, sæki auðvitað þangað sem tæki og aðbúnaður er af bestu gerð.
 
Ég tek heilshugar undir sjónarmið Sigurðar. Það skiptir okkur öll miklu að hafa greiðan aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu. Slíkt aðgengi hefur mikil áhrif á búsetuþróun á komandi misserum. Ég tel nauðsynlegt að gæta jafnræðis í þessum málaflokki.  Það er ekki hægt að bjóða fólki á landsbyggðinni upp á það að vera annars flokks þegnar þegar kemur að heilbrigðismálum.

Fólk á landsbyggðinni skapar að meðaltali meiri gjaldeyristekjur en þeir sem búa á suðvesturhluta landsins. Það er ekki einungis réttlætismál að tryggja góða heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni, það er einnig þjóðhagslega hagkvæmt.

Erla Sigríður Ragnarsdóttir sækist eftir 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.