Á stofu geimdýralæknisins

„Góðan daginn. Ég er Zurg dýralæknir. Ég er með réttindi til að meðhöndla öll gæludýr sem eiga uppruna sinn í þessari stjörnuþoku. Hvernig get ég aðstoðað?”

„Já, góðan dag. Blorb heiti ég og ég er smá vandræðum með gæludýrið mitt og mig vantar ráðgjöf. Þetta er merkileg skepna sem mér áskotnaðist fyrir nokkru síðan, en hún er eitthvað vansæl og ég held að hún muni bara veslast upp og deyja ef þetta heldur svona áfram.”

„Ókey. Hvaða skepnu erum við að tala um?“

“Ég veit nú ekki alveg hvað þetta heitir, en þetta er nánast hárlaus tvífætlingur sem afgreiðslumaðurinn í gæludýrabúðinni segir mér að komi frá blárri plánetu sem er ca. 27.000 ljósár frá miðju stjörnuþokunnar. Það voru til fleiri svipuð kvikindi í búðinni, en þau voru kafloðin og virtust erfiðari að hugsa um. Ég er líka með ofnæmi, þannig að það er fínt að hafa þetta hárlaust. Afgreiðslumaðurinn sagði líka að þessi tegund væri lang klárust af þessum skepnum og sú eina sem gengur upprétt, sem er svolítið kúl.”

„Hmm….já, ég hef nú ekki fengið svona skepnu til meðhöndlunar áður, þannig að það er sennilega best að greina erfðamengið og sjá hvers konar umönnun hún þarf til að vera í lagi. Komstu með sýni?”

„Já, en er ekki fljótlegast að gefa henni bara einhverjar pillur til að hressa hana við þannig að hún sé ekki svona niðurdregin?”

„Tja...jú, það mætti kannski reyna það, en það er bara engin lausn. Pillurnar virka illa og þær hafa fullt af aukaverkunum sem geta gert illt verra. Það er eina vitið að tryggja sem best að hún lifi við sem eðlilegastar aðstæður því þá eru mestar líkur á því að henni líði vel og að hún taki gleði sína. Hinkraðu aðeins, ég ætla að henda þessu í vélina, þetta tekur enga stund….”

„Jæja, þetta er nokkuð skýrt. Þessi vera þrífst alls ekki vel ein og út af fyrir sig. Þetta er hópdýr. Hún verður skelfilega einmana mjög fljótt og er líkleg til að veslast upp eða tapa glórunni ef hún er einangruð lengi. Hún þarf mikið samneyti við sína eigin tegund og allra best ef það er hægt að redda henni maka sem hún gæti eignast afkvæmi með, þótt góð tengsl við aðra gætu líka alveg dugað. Hún þarf líka eitthvað að sýsla sem henni finnst áhugavert og reynir passlega mikið á hæfileika hennar. Svo þarf hún að borða fjölbreytt fóður og sem minnst af einhverjum ónáttúrulegum óþverra. Hún þarf reglulega og mikla hreyfingu, helst í náttúrulegum aðstæðum úti við. Hún þarf töluvert mikinn svefn, helst í svarta myrkri, svona 8 +/- 1 klukkutíma. Svo þarf hún bjart ljós á morgnana og það er mjög líklegt að henni líði illa og það verði allskonar vesen ef hún fær ekki d-vítamín. Ef þessi lífsskilyrði eru uppfyllt þá eru fínar líkur á að þessi skepna verði hamingjusöm, en ef eitthvað af þessu vantar eru auknar líkur á veseni.”

„Ok, þetta hljómar nú svolítið flókið, en sumt af þessu er samt einfalt og lítið mál að kippa í liðinn!”

„Já, en það er samt vert að taka fram að ef hún hefur ekki fengið rétta umönnun í bernsku, þá er líklegt að það valdi vandræðum. Eins ef hún hefur orðið fyrir ítrekuðum áföllum á lífsleiðinni án þess að ná að vinna úr þeim. Þessi dýr þurfa mjög mikla umhyggju og athygli fyrstu árin, annars verða þau stygg og stressuð og mjög líklegt að þeim líði oft illa, sérstaklega ef þau lifa svo við aðstæður sem passa ekki við genamengið. Veistu eitthvað um uppvöxt þíns eintaks?”
„Nei, svo sem ekki. Hún var gripin í einni heimsókn líffræðideildarinnar á þessa bláu plánetu, en eins og þú veist selja þeir eintökin sem þeir koma með þegar rannsóknum er lokið og það fjármagnar svo næsta leiðangur.”

„Já, einmitt. Þeir velja nú yfirleitt heilbrigð sýni, þannig að þessi tvífætlingur hefur sennilega fengið ágætis atlæti í æsku. Hvernig hefur þú verið að hugsa um hana?”

„Úff, ég hef nú eiginlega ekki gert neitt af því sem þú taldir upp. Ég lét hana bara í þægilegt búr sem er innréttað eins og algengustu híbýli þeirra á þessari plánetu. Ég setti allskonar tilbúinn mat í búrið sem krefst engrar matseldar, enda vissi ég ekkert hvort hún gæti bjargað sér með eldamennsku. Ég lét hana líka hafa aðgang að afþreyingarkerfinu, en þar er hægt að fá endalausa sérsniðna afþreyingu eins og þú veist. Hún liggur mest í sófanum og borðar. Já, svo drekkur hún líka talsvert af etanóldrykkjum, en gaurinn í gæludýrabúðinni sagði að þeir væru vinsælir á þessari plánetu.”

„Já, það er ekki gott. Það er best að forðast það að eitra fyrir gæludýrunum sínum. Hún getur örugglega höndlað þetta í einhverju magni án þess verða meint af, en ef hún er að hella þessu í sig í gríð og erg, þá er hún sennilega bara að deyfa sársaukann sem fylgir því óhjákvæmilega að búa við svona ónáttúrulegar aðstæður og það endar varla vel. Ferðu eitthvað út með hana?”

„Uuu….nei, það er mikið að gera í vinnunni og svona…”

„Já, einmitt. Jæja…ég er að fá annan sjúkling í hús. Prófaðu að fylgja þessum leiðbeiningum eins og þú getur, gáðu hvort það er séns að redda henni félagsskap og skapa þessar aðstæður sem hún þarf, þá held ég að hún snarlagist. Ef ekki, þá þarf kannski bara að skila henni aftur á þessa bláu plánetu”

„Já, ég var búinn að spyrja gaurinn í búðinni hvort það væri einhver séns, en hann hafði eftir líffræðingunum að stór hluti þessara dýra á þessari plánetu séu bara ekkert hressari en mitt eintak og að þeir búi í stórum samfélögum þar sem mjög margir lifa við óheilbrigð skilyrði og séu meira og minna vansælir.”

„Jahá….þetta er merkilegt. Það er alveg skýrt í genagreiningunni hvað þessar verur þurfa til að blómstra, en kannski fatta þær það ekki sjálfar. Stórmerkilegt. En! Þú prófar þetta og hefur svo samband ef þetta virkar ekki! Eigðu góðan dag herra Blorb!”

„Sömuleiðis og takk fyrir aðstoðina Doktor Zurg!””

Sigurður Ólafsson, fjölskylduráðgjafi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar