Ábyrg fjármálastjórn á tímum heimsfaraldurs

Eftir því sem Covid-19 faraldurinn stendur lengur því meiri áhrif hefur hann á fjárhag sveitarfélaga, tekjur dragast saman á sama tíma og fjárhagslegar skuldbindingar verða meiri vegna verkefna tengdum faraldrinum.

Hin lögbundnu verkefni sveitarfélaganna eru mikilvæg og snúa ekki síst að okkar viðkvæmustu hópum svo sem leik- og grunnskólabörnum, eldri borgurum, öryrkjum auk félagsþjónustu. Mikilvægt er að standa vörð um þessa hópa, ekki síst þegar harðnar á dalnum.

Atvinnuleysi hefur aukist á landsvísu þó heldur hafi dregið úr því á Austurlandi síðastliðinn mánuð. Þar vegur ástandið þyngst í ferðatengdri starfsemi. Atvinnuleysi er meira meðal kvenna en karla sem er áhyggjuefni og fólk af erlendum uppruna mælist víðast hvar hlutfallslega hæst í atvinnuleysi sem gefur ákveðna vísbendingu um hóp sem stendur höllum fæti þegar kreppir að.

Við þessu verður að bregðast, ekki síst nú þegar liggur fyrir að nýtt sameinað sveitarfélag og nýkjörnir fulltrúar þurfa að leggjast sameiginlega yfir fjárhagsáætlanagerð hið fyrsta eftir kosningar. Þá skýrist úr hverju verður að spila og hvernig fulltrúar vilja forgangsraða fjármunum. Einnig þarf að ákveða hvað skuli leggja áherslu á við ýmsar og ólíkar framkvæmdir og viðhaldsverkefni í sveitarfélaginu.

Framboð VG hefur skýra sýn hvar þurfi helst að forgangsraða við fjárhagsáætlanagerð í ljósi Covid-19 og við sveitarstjórnarborðið munum við því leggja áherslu á að verja kjör og aðstæður þeirra sem minnst mega sín í samfélaginu. Þá skal heldur ekki gleyma mikilvægi þess að vanda sérstaklega til áætlanagerðar við allar framkvæmdir á vegum hins nýja sveitarfélags.

Því miður hefur reynslan kennt okkur að alltof mörg sveitarfélög sem og opinberir aðilar hafa oft og tíðum ekki staðið nægilega faglega að verki og fjárhagsleg framúrkeyrsla við framkvæmdir allt of algeng. Slík vinnubrögð vilja fulltrúar VG leggja sérstaka áherslu á að koma í veg fyrir.

Sóknarfærin

Við sem erum að bjóða fram krafta okkar í nýju sveitarfélagi gerum það vegna þess að við höfum trú á samfélaginu okkar og þar breytir Covid-19 engu um. Eins og fram hefur komið hefur Katrínu Jakobsdóttir forsætisráðherra lagt til að það verði stórauknir fjármunir settir inn í rannsóknir og nýsköpun auk þess sem verið er að setja meiri fjármuni til að auka sókn í menntamálum.

Á þessum vettvangi eigum við í nýju sveitarfélagi ekki að sitja hjá heldur taka virkan þátt með ákveðni, sækja fram og ná fjármunum inn á svæðið til að standa undir nýjum störfum og nýjum og fjölbreyttum hugmyndum í atvinnumálum. Með öðrum orðum viljum við í VG sækja fram með nýjar og framsæknar áherslur. Atvinnuskapandi uppbygging innan sveitafélagsins er ein af lausnunum út úr kófinu.

Jódís Skúladóttir, lögfræðingur og verkefnastjóri, skipar 1. sæti á framboðslista Vinstri grænna fyrir sveitarstjórnarkosningar í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi 19. september.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.