Að velta borðum víxlaranna

Nú er kominn sá tími ársins þegar allt fer að snúast um jól og jólaundirbúning. Býsna langt er síðan að inn um bréfalúguna fóru að berast bæklingar frá ýmsum fyrirtækjum sem þóttust geta fyllt tómarúmið í lífi mínu af alls kyns drasli og geymsluna mína jafnvel líka.


Reyndar eru bæklingar á undanhaldi því nú er enginn kaupmaður með kaupmönnum nema gefa út a.m.k. eina jólagjafahandbók. Þetta eru íburðarmikil rit sem maður getur flett tímunum saman og rekist á ótrúlegustu hluti. Í einni bókinni rakst ég meira að segja á kökudisk sem mig hefur aldrei vantað né langað í. Sá kostaði ríflega 100 þúsund krónur. Af hverju borðar fólk ekki bara kökur af svoleiðis diskum?


Hinn árlegi geitarbruni við IKEA er í hugum og hjörtum margra farinn að marka upphaf jólaundirbúningsins. Hvað er annars málið með þessa fjárans jólageit? Af hverju er verið að troða þessari sænsku jólahefð upp á okkur Íslendinga? Við eigum jólaköttinn og 13 jólasveina og þá er ekki talin öll ómegð Grýlu og Leppalúða. Þurfum við virkilega að fjölga þessum jólafígúrum hér eitthvað frekar? Ef það er hjartans mál fyrir IKEA að hér sé reist geit á hverju ári sem ekki sé brennd með tilheyrandi ókeypis auglýsingu þá legg ég til að hún verði smíðuð úr málmi hér eftir.

Annars eru mörg fyrirtæki dugleg við að kynna fyrir okkur mörlöndunum stórbrotnar hefðir erlendis frá. Það má t.d. fastlega reikna með að „Black Friday“ marki framvegis upphafið af aðventunni hérlendis. Það á eftir að setja skemmtilegan brag á undirbúning helgihaldsins enda get ég varla ímyndað mér betri upptakt.

Auglýsingarnar eru líka ansi víða. Til að mynda heyrði ég leikna útvarpsauglýsingu í vikunni frá einhverju fyrirtæki sem selur mestmegnis raftæki. Þar var gripið til vísunar í lagið „Hjálpum þeim“ sem flestir Íslendingar þekkja. „Gleymdu ekki þínum minnsta bróður“ og svo bætti glaðhlakkanlegur leikari við „því hann gæti vantað iPad“.

Hvort sem það var óvart eða ekki þá tókst þessu fyrirtæki þarna með hjálp einhverrar auglýsingastofu að draga fram hve sorgleg staðan er. Það er nefnilega eitthvað meira en lítið bogið við hvernig við fögnum fæðingu mannsins sem vildi að við gerðum allt sem í okkar valdi stæði til að hjálpa okkar minnstu bræðrum og systrum. Það er líka kaldhæðnislegt í ljósi þess hvernig jólin eru orðin markaðssett að þessi sami maður er sagður hafa velt borðum víxlaranna þegar honum misbauð græðgi þeirra.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.