Að blekkja Alþingi svo Fjarðarheiðargöng verði næstu göng á Íslandi

Að blekkja Alþingi - svo Fjarðarheiðargöng verði næstu göng á Íslandi - sbr. umfjöllun á Íslandi í dag 11. apríl 2023

Umræða um jarðgöng og bættar samgöngur hefur ávallt verið fyrirferðmikil innan sveitarfélaga enda eru samgöngur forsenda þess að þau geti þróast og dafnað.  

Sveitarfélög á Austurlandi eru engin undantekning á því og eru samgöngubætur ávallt ræddar á sameiginlegum vettvangi sveitarstjórna í landshlutanum. Árið 2002 voru stofnuð félagasamtök áhugafólks um jarðgöng á mið-Austurlandi með áherslu á heildstæða sýn á jarðgangatengingar milli staða. Gangaleiðirnar voru þó ekki fastmótaðar, en svo metnaðarfull sýn á jarðgangagerð  fyrir Austurland rataði fljótt inn á hinn sameiginlega vettvang sveitarstjórna. Vilji bæjarfulltrúa víða á Austurlandi til að stefna að slíkri sýn var áþreifanlegur.

Til að gera langa sögu stutta, kom að því að fulltrúar Fjarðabyggðar ákváðu að leggja hina sameiginlegu sýn í jarðgangamálum á mið-Austurlandi til hliðar og lögðu áherslu á að næstu göng á Austurlandi (á eftir Fáskrúðsfjarðargöngum) skyldu verða ný Norðfjarðargöng. Afstaða Seyðfirðinga hefur alltaf verið að styðja samgöngubætur og kom því ekki annað til greina en að styðja nágranna okkar í baráttunni fyrir öðrum, öruggari göngum til að leysa af Oddskarðsgöngin.

Í þá daga var almenna reglan sú að aðeins var unnið að gerð einna jarðganga í einu, á öllu Íslandi. Þegar ákvörðun þáverandi ráðherra og Alþingis um að næstu göng yrðu ný Norðfjarðargöng var kunn,  var ljóst að Seyðfirðingar yrðu áfram í fjötrum Fjarðarheiðar um langa framtíð. Því það var önnur (óskrifuð) regla, er kvað á um að skipta þurfti gangagerð milli landshluta. Næstu göng á eftir Norfjarðargöngum gætu ekki orðið á Austurlandi og ákveðið að Dýrafjarðargöng yrðu gerð strax í kjölfar nýrra Norðfjarðarganga.

Á árunum 2010-2018 var undirrituð bæjarfulltrúi á Seyðisfirði. Okkar barátta fólst þá einkum í að ná áheyrn yfirvalda um samgönguvanda okkar, auka skilning þeirra á aðstæðum og stuðla að framtíðarlausn mála. Á þessum árum hittu fulltrúar Seyðisfjarðarkaupstðar hvorki fleiri né færri en sex ráðherra samgöngumála, til að ræða lausnina á ótryggum og óöruggum samgöngum til og frá Seyðisfirði, alltof oft þurfti að byrja samtalið frá grunni, þó baráttan hefði staðið í áratugi. Umræddir ráherrar voru Kristján Möller, Ögmundur Jónasson, Ólöf heitin Nordal, Hanna Birna Kristjánsdóttir, Jón Gunnarsson og Sigurður Ingi Jóhansson.

Eftir fyrsta fund með þáverandi ráðherra áttuðum við okkur á því hvers vegna Fjarðabyggð hafði sagt skilið við stóru jarðgangasýnina fyrir mið-Austurland og einblínt bara á ný Norðfjarðargöng. Það var greinilegt að það var ekki vilji hjá ráðamönnum á Alþingi að ráðast í fjöl-ganga verkefni á einu svæði. Skilaboðin frá fyrsta samtali voru þau, að ef Seyðfirðingar ætluðu einhvern tímann að sjá fyrir endann á þeim farartálma sem Fjarðarheiði væri, skildum við einblína á ein jarðgöng. Við skyldum líka koma með uppáskrifað frá sameiginlegum vettvangi sveitarfélaga heima, SSA, að Fjarðarheiðargöng ættu að verða næstu göng á Austurlandi (á eftir Norðfjarðargöngum).  

Það er skemmst frá því að segja að sá stuðningur sem við höfðum vænt frá þeim sem best þekktu mikilvægi samstöðu til að ná fram samgöngubótum, var ekki jafn auðfenginn og við höfðum vonað. Nágrannar okkar sunnan fjarða sem þegar höfðu Oddskarðsgöng, Fáskrúðsfjarðargöng og sáu nú fram á framkvæmdir við ný Norðfjarðargöng, fundu Fjarðarheiðargöngum allt til foráttu. Þeir voru vanir að ráða og vildu áfram fá að ráða. Það gekk ekki átakalaust að víkka sviðsmyndina  á sameiginlegum vettvangi, lengi bar mikið í milli og vanraust ríkti milli fulltrúa og sveitarfélaga. En ábyrgð fulltrúa á að kynna sameiginlega sýn fjórðungsins gagnvart ríkinu er hins vegar mikil og á endanum samþykktu sveitarfélögin nýja, sameiginlega og opinbera sýn Austurlands í samgöngumálum; stefnumörkun sem fólst m.a. í því að Fjarðarheiðargöng yrðu næstu göng á Austurlandi, á eftir Norðfjarðargöngum.

Bæjarfulltrúar á Seyðisfirði höfðu gert það sem okkur bar, völdum bestu gangaleiðina gaumgæfilega og mættum með sameiginlega sýn sveitarfélaga á Austurlandi í jarðgangamálum til samgönguráðherra, bjartsýn um að nú væri röðin loksins komin að okkur.  
Eftir fjölmarga fundi og samtöl við þingmenn og fleiri ráðherra, s.s. forsætis- og fjármálaráðherra, fundum við fyrir miklum stuðningi og skilningi á aðstæðum okkar. Þingmenn Alþingis samþykktu að Fjarðarheiðargöng skyldu verða næstu göng í kjölfar Dýrafjarðarganga.

Svo gerðist það, að nýr ráðherra, Jón Gunnarsson, ákvað að stofna sérstaka nefnd um undirbúning að ákvarðanatöku um Seyðisfjarðargöng. Göngin hefðu það hlutverk að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar, styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og á Austurlandi öllu. Sú ákvörðun kom óvænt og varð algjört áfall fyrir okkur. Hvers vegna dugði eindreginn vilji Seyðfirðinga ásamt samþykktum SSA ekki lengur til? Nú eða sú staðreynd að Alþingi hafði þá þegar samþykkt að Fjarðarheiðargöng yrðu næstu göng samgönguáætlunar og mörg hundruð milljónum hafði verið varið í rannsóknir og undirbúning þeirra? Hvernig í ósköpunum gat þetta verið að gerast? Við sem höfðum gert allt rétt. Ákvörðunin stóð og við höfðum ekkert um hana að segja. Loforð var þó gefið af ráðherra að þetta skyldi ekki verða til þess að seinka lausn á samgönguvanda Seyðfirðinga sem loksins var í sjónmáli.
(Á sama tíma ákvað ráðherra að færa þjóðveg 1 frá Breiðdalsheiði og um firði. Sú ákvörðun kom líka eins og þruma úr heiðskýru lofti, ekkert samtal, ekkert samráð. Í rökstuðningi ráðherra um hina snörpu tilfærslu þjóðvegarins vísaði hann til áðurnefndra samþykkta SSA. Í þessu máli voru þær þó ekki jafn stefnumótandi og skýrar og forgangsröðun SSA  í jarðgangagerð og uppbyggingu nýs vegar um Öxi, heldur var um að ræða viljayfirlýsingu um að skoða mætti möguleikann á færslu þjóðvegar 1. Þessi aðferðafræði ráðherra var því miður ekki til þess að efla traust á vettvangi stjórnmála hér heima eða að heiman.)

Við tók ný barátta þegar ljóst var að bæjarstjórn Seyðisfjarðar átti ekki að fá að eiga fulltrúa í nefnd ráðherra, nefnd sem átti að fjalla um stærsta og mikilvægasta öryggis- og réttlætismál Seyðfirðinga fyrr og síðar,  bæjarstjórn Seyðisfjarðar átti hreinlega ekki að fá sæti við borðið! Fljótlega læddist að sá grunur, að ætlunin með þessari óvæntu nefnd væri hreinlega að kollvarpa leiðarvalinu og stefna langþráðum göngum Seyðfirðinga yfir til Fjarðabyggðar, þvert á samþykktir SSA.
Eftir fund bæjarfulltrúa með Jóni Gunnarssyni, ráðherra, tók hann ábendingar bæjarstjórnar Seyðisfjarðar um skipan í nefndina til greina. Vil undirrituð nota tækifærið og þakka þingmanni Norð-austur kjördæmis, Valgerði Gunnarsdóttur, sérstaklega fyrir stuðning hennar við bæjarstjórn í málinu. Skipaði ráðherra, forseta bæjarstjórnar Seyðisfjarðar loks í nefndina. Það var gríðarlega mikilvægt að hafa Arnbjörgu Sveinsdóttur með og vorum við þess fullviss að víðtæk reynsla hennar af sveitarstjórnarmálum og þingmennsku myndi vera mikilvæg fyrir störf nefndarinnar. Þá yrði þátttaka hennar til þess að skapa sátt og traust um ákvörðun ráðherra. 

Nefndina skipuðu auk Arnbjargar, Hreinn Haraldsson þáverandi Vegamálastjóri og reyndasti sérfræðingur Íslands í jarðgöngum, Snorri Björn Sigurðsson forstöðumaður þróunarsviðs Byggðastofnunar, Adolf Guðmundsson lögfræðingur, frá Seyðisfirði og Jóna Árný Þórðardóttir, löggiltur endurskoðandi, frá Fjarðabyggð. Með hópnum störfuðu að auki fulltrúar Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins, Sigurbergur Björnsson og Friðfinnur Skaftason. Ritari hópsins var Valtýr Þórisson, forstöðumaður áætlana hjá Vegagerðinni. Erindisbréf nefndarinnar hvað m.a. á um að markmið hennar væri að undirbúa ákvörðun um samgöngubót sem best væri til þess fallin að rjúfa vetrareinangrun Seyðisfjarðar, styrkja byggð og atvinnulíf á Seyðisfirði og Austurlandi öllu.  Auk ofangreindra, komu að vinnu nefndarinnar, fjöldi sérfræðinga m.a. vegna nýrra samfélagsrannsókna og veðurfarsúttekta. Fjöldi rannsókna sem þegar höfðu verið gerðar við undirbúning jarðganga á Austurlandi á 30 ára tímabili voru rýndar.

Í júní 2019 skilaði nefndin loks til ráðherra, einni mikilvægustu skýrslu sem lögð hefur verið til grundvallar ákvörðun um jarðgangagerð á Íslandi. Fullyrða má að ákvörðun Alþingis um að Fjarðarheiðargöng verði næstu göng á Íslandi sé nú einna best undirbyggða samgönguframkvæmd sem samþykkt hefur verið á Íslandi. Niðurstaða skýrslunnar rímaði fullkomlega við áherslur Seyðfirðinga, ályktanir og samþykktir sveitarfélaga á Austurlandi á sameiginlegum vettvangi síðustu árin og síðast en ekki síst fyrri ákvörðun Alþingis um að Fjarðarheiðargöng væru næstu jarðgöng á Íslandi. Þá var jafnframt kominn frekari rökstuðningur um þá framtíðarsýn sem við höfðum haft um jarðgöng á mið-Austurlandi. Eftir gerð Fjarðarheiðarganga væri nauðsynlegt að halda áfram að styrkja byggðirnar með næstu göngum frá Seyðisfirði yfir í Mjóafjörð og Neskaupstað.

Takk fyrir að lesa þennan langa pistil um upplifun fyrrverandi bæjarfulltrúa og fleiri um baráttuna fyrir Fjarðarheiðargöngum  - lífsnauðsynlegum samgöngumbótum fyrir litla hverfið okkar með stóra hjartað, í nýju risastóru, sameinuðu sveitarfélagi, fjögurra hverfa, sem nú, sem fyrr, eiga allt sitt undir  - áreiðanlegum og öruggum samgöngum.

Engum blekkingum var beitt af hálfu bæjarfulltrúa Seyðisfjarðar í garð þingmanna, ráðherra eða Alþingis á meðan baráttu fyrir Fjarðarheiðargöngum stóð.

Í gang með göngin!

Margrét Guðjónsdóttir,
fulltrúi heimastjórnar Seyðisfjarðar í Múlaþingi og
fyrrverandi bæjarfulltrúi Seyðisfjarðarkaupstaðar.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar