Að VERA saman. Hérna. Núna.

Í síðustu grein minni fjallaði ég um núvitund. Aukin færni í núvitund getur haft fjölþætt jákvæð áhrif á andlega heilsu, en hún getur einnig haft mikil áhrif á sambönd við annað fólk. Ég ætla að útskýra þetta í stuttu máli og beina sjónum sérstaklega að parsamböndum, þótt flest af þessu eigi í raun við um öll náin sambönd.

Eitt af því sem veldur oft vandkvæðum í samböndum fólks eru hugsanir um hinn aðilann í sambandinu. Allir koma inn í sambönd með ákveðnar væntingar. Væntingarnar eru byggðar á viðhorfum sem mótast í æsku og uppvexti, af reynslu fullorðinsáranna, en einnig af því sem við sjáum og heyrum í bókum, bíómyndum og samfélagsmiðlum. Hugurinn spinnur úr þessu sögur um það hvernig maki myndi henta okkur best og hvernig sambönd eiga að virka. Svo gerum við okkar besta til að finna einhvern sem passar inn í sniðmátið sem heilinn í okkur er búinn að sjóða saman. Ef við erum heppin, þá finnum við einhverja manneskju sem virðist passa og tekst að mynda samband við viðkomandi.

Svo líða hveitibrauðsdagarnir hjá og mesta ástarvíman fjarar út. Við förum allt í einu að sjá gallana við makann upp á nýtt og öll skilyrðin sem ekki voru uppfyllt virðast skyndilega blasa við. Heilinn fer á fullt í að búa til nýjar sögur um þetta og kokka upp plön um það hvernig við getum sniðið þessa vankanta af makanum svo að hann verði nú fullkominn fyrir okkur. Heilinn metur stöðuna jafnvel þannig að best sé að byrja að líta í kringum sig eftir nýjum maka sem hentar betur. Inn í þetta spila allar sögurnar sem við höfum í kollinum um það hvernig makar og sambönd EIGA að vera. Heilinn getur spunnið svona sögur af svo miklu listfengi og gert þennan vefnað svo þéttan að við getum ekki lengur séð í gegnum hann. Við sjáum manneskjuna sem er með okkur í sambandinu ekki lengur skýrt. Hugsanafilterinn birgir okkur sýn eða litar allt sem við sjáum.

Núvitund gerir okkur kleyft að skera í gegnum þennan hugsanavefnað, sjá og skynja manneskjuna fyrir framan okkur upp á nýtt. Horfa í augun á henni og virkilega SJÁ hana. Heyra í alvörunni það sem hún segir. Við ástundun núvitundar eykst getan til að beina fulltri athygli að manneskjunni sem þú ert að tala við og það getur gerbreytt tóninum og taktinum í samskiptunum, sérstaklega ef því fylgir hlýja og einlægur áhugi. Núvitund eykur getuna til að skynja hvernig fólki líður og til að mæta tilfinningalegum þörfum þess, sem er lykilatriði í að byggja upp gott samband.

Að efla færni í núvitund er því ekki sjálfhverf naflaskoðun heldur eitthvað sem getur aukið getuna til að tengjast öðru fólki og gefa af sér. Fátt er líklegra til að auka lífshamingju okkar til lengri tíma litið.

(Varnagli: Með aukinni núvitund getur einnig verið að raunverulegir og alvarlegir gallar á sambandi komi enn betur í ljós. Núvitund hjálpar okkur að sjá skýrt. Ef um er að ræða sjálfsblekkingar svo sem meðvirkni, þá getur núvitund gert það að verkum að við horfumst skyndilega í augu við vandamál sem við höfum leitt hjá okkur. Hún eykur hins vegar líkurnar á því að við getum nálgast þau vandamál af yfirvegun, forvitni og hlýju og svo fundið lausnir, sætt okkur við stöðuna eða slitið sambandinu.)

Höfundur er ráðgjafi og fjölskyldufræðingur

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar