Að vera valkostur

Öll viljum við hafa val og vera valkostur. Við viljum velja okkur stað til búsetu, velja okkur vini og lífsförunaut og já – þann 28. október velja fólk sem við treystum til að vera fyrir okkar hönd á Alþingi.

Ég býð mig fram sem valkost fyrir þig til að verða alþingismaður fyrir Norðausturkjördæmi. Ég tek því hlutverki að vera valkostur alvarlega og veit að því fylgir mikil ábyrgð.

Það er kosið um breytingar. Gömlu gildin og gömlu kerfin, sem hafa skilað okkur mörgu síðasta árhundraðið, fylgja ekki þeirri hröðu þróun sem við erum að fást við í dag í okkar nútímasamfélagi. Það þýðir að sum samfélög okkar hafa setið eftir og eru ekki valkostur fyrir ungt fólk til búsetu. Það er einnig öflug krafa um gegnsæi og heiðarleika.

Björt framtíð vill breytta framtíð með nýrri nálgun á búsetu, skipulagi í stjórnkerfinu og uppbyggingu í landsbyggðunum. Við viljum græna framtíð með samfélög og atvinnulíf í blóma um allt land í sátt við náttúru og umhverfi okkar.

Í okkar fjórðungi þurfum við að spýta í lófana og takast á við að uppfæra innviði og samfélag okkar. Það á sérstaklega við í okkar smærri samfélögum þar sem hnignun hefur víða ríkt í áratugi undir kerfisbundnu svelti stjórnvalda.
Við viljum uppfærslu innviða og nýja nálgun á búsetu á landsbyggðinni. Öfluga þjónustu í heilbrigðis- og menntakerfinu um allt land. Ljóst er að aukið fjármagn muni renna til heilbrigðismála og innviðauppbyggingar en það fjármagn er að hluta til staðar í fyrirtækjum og eignum ríkissjóðs, eins og í bönkunum.

Björt framtíð leggur til búsetustyrki og ívilnanir í dreifbýli, þar sem íbúar geta valið sér starfsvettvang og fjárfest í framtíðarlífsviðurværi með aðstoð yfirvalda. Þannig verður dreifbýlið valkostur fyrir unga fólkið til að byggja upp og eignast fjölskyldu eins og marga dreymir um.

Við viljum sjá sveitir okkar og dreifbýli dafna en það gerist aðeins með sterkum byggðakjörnum í nágrenni. Þá eigum við en þurfum að efla enn frekar. Þá sérstaklega með því að hvetja fyrirtæki og einstaklinga til nýsköpunar með öflugu frumkvöðlaumhverfi og styrkjum. Háskólinn á Akureyri er þar í fararbroddi í fjórðungnum og stefna skal að tvöföldun hans á næstu 10 árum. Akureyri er höfuðstaður okkar og vöxtur þar er nauðsynlegur eins og vöxtur minni byggða er grundvöllur að vexti Akureyrar.

Við skulum vinna saman að því að í Norðausturkjördæmi verði öflug samfélög til sjávar og sveita sem séu verðugur valkostur til búsetu í náinni framtíð fyrir okkur og unga fólkið.

Veljum X-A fyrir Arngrím og gerum þetta saman.

Höfundur er í fyrsta sæti fyrir Bjarta framtíð í Norðausturkjördæmi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar